136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:14]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, Birki Jóni Jónssyni, fyrir að hefja máls á þessu brýna máli. Ég vil líka þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir brýningu varðandi það að koma brýnum málum í gegnum þingið. Sú brýning tel ég að sýni skopskyn af bestu gerð þar sem sjálfstæðismenn nota hér öll tækifæri sem gefast þessa dagana og ganga vaktir í því að tefja mál og þæfa og þvæla þau. Ég geri því ráð fyrir að þingmaðurinn hafi fyrst og fremst verið að tala til flokkssystkina sinna.

Hlutverk ríkisvaldsins er að búa til umgjörð í atvinnulífinu til að þar þrífist starfsemi og tryggja að stoðir velferðarsamfélagsins séu styrkar. Það gerir ríkisvaldið með því að sjá til þess að borgararnir fái nauðsynlega grunnþjónustu í gegnum ríkisreksturinn og umgjörðin í hinu frjálsa atvinnulífi þarf að vera sanngjörn og gagnsæ.

Svo virðist sem tillögur ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum séu enn þá stilltar á 2007 þar sem menn velta því fyrir sér í alvöru hvort þeir eigi að nýta náttúruauðlindir til að skapa störf. Jafnframt telja þeir að nægur tími sé til að meta þörf heimilanna og fyrirtækjanna fyrir aðgerðir á meðan hitastigið á vinnumarkaðnum nálgast alkul og hvert fyrirtækið á fætur öðru lognast út af og deyr drottni sínum með tilheyrandi aukningu á atvinnuleysi. Það hefur komið hér fram að 18 þúsund manns ganga um án atvinnu og fá greiddar bætur úr ríkissjóði, 2 milljarðar voru greiddir út í gær og eins og allir vita er nýgengi örorku mun meira meðal þessa hóps en annarra með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Ríkisstjórnin með fjármálaráðherra þar fremstan og í fylkingarbrjósti telur best að sjá til þess að þeir örfáu sem enn geta séð fyrir sér og borgað af lánunum sínum, án þess þó að það sé víst að það vari til eilífðar, verði örugglega skattpíndir í drep og fái örugglega ekkert sem auðveldar þeim að taka þátt í því að snúa hjólum atvinnulífsins af stað aftur.

Ég leyfi mér að fullyrða að hin ískalda krumla sem stundum hefur verið kennd við kommúnisma hefur verið reidd á loft og ekkert annað en þjóðnýting blasir við. Löppin er sett fyrir þá sem vilja og eru að reyna að bjarga sér og sínum í nafni umhverfisverndar og ég leyfi mér að halda því fram að þar verði fólkið (Forseti hringir.) að njóta vafans. Það er ekki eins og atvinnutækifærin séu tínd upp af götunni.