136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu. Hún er um mjög mikilvæg atriði og ég vildi gjarnan að við hefðum lengri tíma til að ræða þetta saman. Það eina sem ég vék að í upphafi var að ég fékk óvænt spurningar um aðra hluti en ég hélt að meiningin hefði verið að yrði aðalandlag umræðunnar, þ.e. staða ríkissjóðs og atvinnulífið sem slíkt en ekki sérstaklega skuldavandi heimilanna. Ég gerði mitt besta til að svara þeim í leiðinni. Svo ég svari spurningunni um hina erlendu eigendur krónubréfanna eru þau mál í höndum Seðlabankans. Hann er að samræma aðgerðir í þeim efnum og innan skamms vonast ég eftir tíðindum af því sem þar verður gert.

Það er að sjálfsögðu ljóst að eigi að ná niður því atvinnuleysi sem þegar er orðið á Íslandi og finna störf fyrir þá sem munu bætast á vinnumarkaðinn á næstu árum þurfa að verða til mörg störf á Íslandi á næstu áratugum. Ég tek ekki svo til orða, eins og sumir hafa tamið sér, að það eigi að skapa, eins og drottinn almáttugur, 15.000, 18.000 eða 30.000 störf. Það þurfa að verða til 15.000, 18.000 eða 30.000 störf. Það er munur á þessu, eins og sú hugsun sé gild að stjórnvöld ofan frá framleiði störfin eða (Gripið fram í.) einstakir stjórnmálaflokkar framleiði á flokksskrifstofum sínum störf. Það er misskilningur. Það þarf að skapa það umhverfi, það þarf að búa með aðgerðum til möguleika fyrir vextinum. (Gripið fram í: Frjálshyggjan …) Störfin þurfa að verða til. (Gripið fram í: Frjálshyggjan …) Þau þurfa að verða til. Það er mikilvægt til að höggva í atvinnuleysið.

Ríkisstjórnin kynnti í febrúarmánuði áætlanir um 4.000–6.000 ársverk með fjölþættum aðgerðum, í byggingariðnaði, við snjóflóðavarnir, við gróðursetningu og grisjun, orkuviðhald, orkusparnað, ferðaþjónustu, kvikmyndagerð, frumkvöðlasetur, átaksverkefni o.s.frv. Sum þeirra taka til sumarsins.

Svo þakka ég hv. þm. Gunnari Svavarssyni fyrir málefnalega ræðu. Það er hárrétt hjá honum, ég held að enginn stjórnmálaflokkur og engir stjórnmálamenn séu til sem ekki (Forseti hringir.) vilja örva atvinnulífið. Það er dapurlegt að heyra fólk koma í ræðustól og halda því beinlínis fram að einhverjir bregði fæti fyrir slíkt af ásetningi. (Forseti hringir.) Okkur getur greint á um leiðir og einstök verkefni en við eigum ekki að þurfa að rífast um að við viljum landinu almennt vel.