136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[14:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvenær hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fékk umboð til að tala fyrir hönd þjóðarinnar eða tala fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.

Virðulegur forseti. Hann talar um vilja þjóðarinnar. Vilji þjóðarinnar, hæstv. forseti, kemur að jafnaði fram í kosningum. Þá kemur vilji þjóðarinnar (ÁÞS: Bara þá.) fram gagnvart hinu háa Alþingi. Kosningar verða 25. apríl, (Gripið fram í: ... lýðræði ... Sjálfstæðisflokksins.) þá verður kosið og þá kemur í ljós hvernig þjóðin ákveður að skipa þingmönnum í þessum sal. Það hefur enginn þingmaður hvorki Vinstri grænna né annarra heimild til að tala í heild fyrir þjóðina. Þeir eru fulltrúar þeirra kjósenda sem að baki þeim standa, hæstv. forseti, og þeir ættu að láta sér nægja það umboð þar til annað kemur í ljós.