136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:10]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlýtt á ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar sem kvartaði undan því að illa hafi verið farið með hann í sérnefnd um stjórnarskrá og ekki hafi verið hlýtt nægilega vel á þau sjónarmið sem minni hlutinn hafði þar fram að færa.

Ég ætla ekki að elta ólar við það en ætla hins vegar að mótmæla því harðlega að það frumvarp sem hér liggur fyrir fari í bága við gildandi stjórnarskrá. Það er algjörlega fráleitt og þeir þingmenn sem að þessu standa undirrituðu eiðstaf að stjórnarskránni, drengskaparheit, og það stendur. Það er á engan hátt vegið að því heiti.

Hins vegar vil ég líka nefna, virðulegi forseti, að Alþingi hefur aldrei samið frá grunni nýja stjórnarskrá, aldrei nokkurn tíma, og það þekkir hv. þm. Björn Bjarnason þrátt fyrir þá orðræðu sem hann lét frá sér fara. Sú hugmyndafræði eða sú hugsun sem hér býr að baki gengur út á það að þjóðin sjálf hafi endanlega um það að segja hvort ný stjórnarskrá verði samþykkt eða ekki. Það er lykilatriði vegna þess að mér fannst í ræðu hv. þingmanns, sem ég hlustaði nokkuð vandlega á bæði hér í sal og í sjónvarpi, koma fram að Alþingi væri uppspretta valdsins en ekki þjóðin, ekki fólkið í landinu. Það þótti mér mjög athyglisvert vegna þess að vissulega er valdið fengið frá þjóðinni sjálfri og þó að þjóðin kjósi á þing á fjögurra ára fresti eða minna ef verða vill er valdið, uppspretta valdsins, hjá þjóðinni. Sú hugsun eða sú hugmyndafræði sem hér býr að baki — vissulega geta menn haft á henni einhverja skoðun og hafa það, en það er á engan hátt verið að vega að þeirri grundvallarhugsun að valdið sprettur frá þjóðinni og þannig er hugmyndafræðin um að verði ný stjórnarskrá samþykkt þá er það þjóðarinnar að gera það á endanum og þannig á það að vera.