136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ef ég stæði að því frumvarpi sem meiri hlutinn stendur að væri ég að brjóta drengskaparheit mitt. Aðrir geta haft aðra skoðun á því, það er hvers og eins, enda stendur það í stjórnarskránni að þingmenn skuli fara að samvisku sinni og hún getur að sjálfsögðu verið mismunandi.

Ég vil hins vegar andmæla því að við séum að koma í veg fyrir að þjóðin geti sagt álit sitt á stjórnarskránni. Við erum hlynntir 2. gr. frumvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að Alþingi leggi tillögur um breytingar á stjórnarskránni undir þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin komi þannig að því að taka lokaákvörðun um efni stjórnarskrárinnar beint, ekki með þeim hætti sem nú er að þing verði rofið og boðað til þingkosninga og síðan komi nýtt þing saman til þess að samþykkja.

Við erum hlynntir því að þessu verði breytt. Á tillögur okkar og viðleitni okkar til að ná sáttum á þessum punkti hefur ekki verið hlustað, því miður. Sagt að tími sátta sé liðinn, á einhverju skeiði í þessu ferli hafi verið reynt að ná sáttum við okkur en ekki tekist, en þetta er allt tómur misskilningur, hv. þingmaður. Við erum tilbúnir að breyta því ákvæði stjórnarskrárinnar sem gerir þjóðinni kleift að koma beint að málinu. En við erum ekki tilbúnir til þess að afsala Alþingi valdinu til að leggja þessar tillögur fyrir þjóðina og móta þær.

Í umsögnum kemur hins vegar fram, ef hv. þingmaður les þær, að kannski séu minni líkur á því að stjórnarskránni verði breytt ef þessi þjóðaratkvæðagreiðsluleið sé farin. Það er sjónarmið sem fræðimenn leggja fram. Við erum hlynntir því að þjóðin eigi síðasta orðið og að stjórnarskrárákvæðunum verði breytt á þann veg. Þess vegna er það algjörlega rangt og rangfærslur hinar mestu að við viljum ekki að þessi mál fari að lokum í hendur þjóðarinnar.