136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég greindi á milli efnisatriða og forms- eða tæknilegra atriða eins og ber að gera þegar fjallað er um þetta mál. Ég tel að 2. gr. sé um, ef ég má orða það svo, tæknilegt mál, þ.e. hvernig verður staðið að því að breyta stjórnarskránni. Ég tel að það sé mál sem við gætum leyst ef einhver vilji væri til þess að verða við óskum okkar um að leita sátta í málinu.

Ég tel hins vegar, eins og ég sagði, að ef verið er að mynda eitthvað sem heitir þjóðareign, af hverju er það tekið út fyrir sviga? Af hverju er ekki 2. gr. breytt fyrst og síðan farið í það ferli sem hún heimilar að fara í eftir að henni hefur verið breytt og það ákvæði um þjóðareign borið undir þjóðina? Af hverju er það tekið sérstaklega fyrir og haldið þannig á því að það verður aldrei borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvaða hagsmunir eru að því?

Einnig þetta með þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem er efnisatriði, af hverju er það ekki tekið út líka og borið undir þjóðina hvort hún vilji fá þessar heimildir til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu? Af hverju búum við ekki til farveginn þannig að hægt sé framvegis að leggja þessar efnisgreinar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er það sem ég er að segja. Ég skil ekki þá þörf meiri hlutans að leggja alltaf út af orðum okkar sjálfstæðismanna á þann veg að við séum á móti einhverju sem við teljum að afgreiða eigi á annan veg. Það er leið í þessu tækifæri núna (Gripið fram í.) til að koma málum þannig fyrir að breyta tæknilegri hlið og breytingu á stjórnarskránni og efnisatriðin bíði þá hins nýja umhverfis sem verði mótað með þessum hætti. Það er tillaga okkar. Ef menn vilja endilega rífast um eitthvað annað en hana geta þeir gert það en þeir breyta henni ekki.