136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:54]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar stjórnarskipti urðu, af ástæðum sem ég ætla ekki að rekja og okkur öllum eru ljósar, var mynduð ný ríkisstjórn sem kom sér saman um verkefni, bæði sem snúa að efnahagsmálum og lýðræðislegum breytingum. Það er verið að efna og hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem ríkisstjórnin kom sér saman um, ásamt með Framsóknarflokknum sem studdi þessa ríkisstjórn, a.m.k. gegn vantrausti. Þetta mál er því sett hér fram í fullu samræmi við þá stefnuskrá og ég get í raun og veru ekki séð nauðsynina til þess að draga það miklu lengur ef á annað borð er ljóst að þetta er tiltölulega einfalt mál í sniðum og er í kjarna tilraun til að koma til móts við aðkomu almennings að ákvarðanatöku í stærri málum.