136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spurði hv. þingmann hvaða nauðsyn bæri til þess að afgreiða þessi mál núna fyrir þinglok, þær efnislegu breytingar sem hér eru á stjórnarskrá. Rökstuðningurinn er fyrst og fremst sá að þetta hafi verið á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar og það sé bara verið að hrinda því í framkvæmd. Þetta finnst mér ekki góður rökstuðningur. Þetta er ekki rökstuðningur sem ég kaupi og þessi rökstuðningur hefur greinilega ekki haft áhrif á mjög marga af þeim umsagnaraðilum sem um þetta hafa fjallað, sem einmitt vara stranglega við því að farið sé út í stjórnarskrárbreytingar nú í einhverju óðagoti.

Eins og ég segi, það getur vel verið og það má vel rökstyðja að atburðirnir í vetur leiði til þess að við eigum að endurskoða einhverja þætti í stjórnarskránni en þeir réttlæta ekki þetta óðagot, flaustursleg vinnubrögð og óvandvirkni sem einkennir alla meðferð þessa máls.