136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir 17.700 Íslendingar sem nú eru atvinnulausir, þau 600 börn sem búa við það að báðir foreldrar eru atvinnulausir gefa ekki mikið fyrir þessi síðustu orð hv. þm. Ellerts B. Schrams vegna þess að í þeirra huga skiptir án efa mestu að tryggja atvinnumöguleikana. Það er það eina sem skiptir máli við þessar aðstæður. Þegar fyrir liggur að umsagnir eru nánast allar á þann veg að málið sé hroðvirknislega unnið, umsagnaraðilar hafa ekki tækifæri til að setja sig inn í það, umsagnaraðilar höfðu ekki tækifæri til að skoða það vel — sumir eru kannski illa læsir, það kann að vera — spyr maður að því, og það á að kjósa eftir nokkra daga: Var ekki nóg að breyta 79. gr. og leyfa nýju þingi að fara af stað í að breyta stjórnarskránni sem var þá hægt að bera beint undir þjóðina? Var það ekki nóg í huga hv. þingmannsins?