136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:20]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur uppi stór orð um rökleysu, að vald sé tekið frá Alþingi og þar fram eftir götunum. Ég verð að ítreka það að þetta stjórnlagaþing er lýðræðislega kosið. Það er lýðræðislega kosið, (Gripið fram í.) hefur algjöra jafnstöðu um þetta, fær þetta sérverkefni.

Mótsögn í því að Alþingi sé að setja þrjár reglur sem stjórnlagaþingið geti breytt — ég rakti það í ræðu minni áðan, hv. þm. Birgir Ármannsson, að þingið væri, miðað við forsögu málsins og umfjöllun, sammála um að setja ákvæðin sem eru í 1., 2. og 3. gr. Eina sem væri væri hvernig ætti að orða greinarnar — efnisinntakið væri í lagi. Ég hef enga trú á því að stjórnlagaþing og ráðgjafarnir, þeir bestu sem við höfum haft okkur til ráðuneytis, muni leggja til á stjórnlagaþingi að þeim ákvæðum verði breytt, jafnsjálfsögð sem þau eru. Þjóðareignin, atkvæðagreiðslur um stjórnarskrána og vald þjóðarinnar í mikilvægum málum — ég hef enga ástæðu til þess að vantreysta fólki eða þjóðinni.