136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Atla Gíslasyni finnst alveg sjálfsagt og eðlilegt að breyta greinum stjórnarskrárinnar sem kveðið er á um í 1.–3. gr. í frumvarpinu. Þar á meðal er grein sem felur í sér aðferð við að breyta stjórnarskránni. Það liggur mjög mikið á, það má ekki bíða með að setja þá grein í stjórnarskrána, grein sem felur í sér að breytt verði aðferð við að breyta stjórnarskránni. Á sama tíma er verið að setja ákvæði um stjórnlagaþing sem á að breyta stjórnarskrá.

Ég velti fyrir mér hver þörfin sé á því að setja, ef við ætlum að setja málin í hendur stjórnlagaþings, þetta ákvæði um aðferðina við að breyta stjórnarskrá núna? Hver er þörfin núna? Er það vegna þess að menn hafa uppi einhverjar ráðagerðir um að breyta stjórnarskránni á meðan stjórnlagaþing er að störfum? Dettur mönnum það virkilega í hug? Finnst mönnum fara vel á því að setja á fót stjórnlagaþing til þess að fjalla um breytingar á stjórnarskrá og láta Alþingi á sama tíma, eftir einhverri allt annarri aðferðafræði, (Forseti hringir.) vera að breyta stjórnarskránni? Ég vildi gjarnan heyra afstöðu hv. þingmanns til þess.