136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var að benda á að það yrðu tvö stjórnlagaþing starfandi samtímis. Alþingi Íslendinga er ekkert að afsala sér heimild til að breyta stjórnarskránni með frumvarpinu, alls ekki, og nýja þingið hefur heimild til þess að breyta stjórnarskránni, (Gripið fram í: Nei.) sem verður borið undir Alþingi en Alþingi hefur ekkert um það að segja, ekki samkvæmt nýjustu útgáfunni.

Þó að hv. þingmaður, og kannski flestir flokkar í landinu, sé hlynntur því að setja inn eitthvert nýtt ákvæði um auðlindir getur verið að nýja stjórnlagaþingið — ekki veit ég hvað því dettur í hug — vilji ekkert hafa þetta í stjórnarskránni. Þá þurfa þeir að fara að taka til baka breytingar sem hv. þingmaður er að leggja til. Þetta finnst mér vera rökleysa. Ef menn ætla að hafa nýtt stjórnlagaþing þá á ekki að vera að breyta stjórnarskránni rétt áður, bæði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu og eins varðandi þetta ákvæði um þjóðareignina.

Það eina sem þarf að breyta rökfræðilega er 79. gr. og svo þarf þetta að sjálfsögðu að vera ráðgefandi þing en má ekki geta breytt stjórnarskránni einhliða.