136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:35]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sat í sérnefnd um stjórnarskrármál þegar það frumvarp sem hv. þingmaður vísaði til var til meðferðar á Alþingi árið 2007. Þar var verið að fjalla um hugtakið þjóðareign á náttúruauðlindum. Ég get upplýst hv. þingmann um að þar kom hver lögfræðingurinn og sérfræðingurinn á fætur öðrum inn í nefndina og það var hver höndin upp á móti annarri varðandi túlkun á þessu ákvæði. Það sama segir í þeim umsögnum sem hér koma fram.

Ég velti því fyrir mér hvernig í ósköpunum hv. þingmaður, sem er hæstaréttarlögmaður og veit hvaða virðingu dómstólarnir og aðrar lykilstofnanir bera fyrir stjórnarskrá Íslands, getur varið það þegar það liggur fyrir að allir umsagnaraðilar fyrir utan BSRB, sem Ögmundur Jónasson hæstv. heilbrigðisráðherra og flokksbróðir hv. þingmanns er formaður fyrir, vara mjög við því að menn gangi svona hratt um gleðinnar dyr við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, (Forseti hringir.) grundvallarlögum íslenskrar stjórnskipunar. Ég trúi því ekki (Forseti hringir.) að hv. þingmaður sé virkilega þessarar skoðunar, ekki síst í ljósi þess hvernig hann hefur talað um verklag (Forseti hringir.) hér á þingi í fyrri ræðum í öðrum málum.

(Forseti (RR): Ég bið hv. þingmenn að virða þann tíma sem þeir hafa.)