136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:38]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum tekin til við 2. umr. um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins eftir að hafa setið marga fundi um málið, sérstaklega í nefnd sem sett var á laggirnar til að fjalla um stjórnskipunarmál og það frumvarp sem kom inn í þing, flutt af fjórum stjórnmálaflokkum. Það mál hefur mikið verið rætt og er svo sem alveg skýrt hvernig áherslur liggja í því.

Ég tel að um 1. gr. ríki ekki mikill efnislegur ágreiningur. Hún er orðuð eins og verið hefur að meginhluta til í allri umfjöllun sem ég hef fylgst með síðastliðin ár, alveg frá því að auðlindanefndin fjallaði um þetta mál á sínum tíma. Ég vil hins vegar taka fram að Frjálslyndi flokkurinn átti ekki aðild að auðlindanefnd og kom ekki að því máli þegar það var afgreitt þaðan. En ég tók þátt í störfum stjórnarskrárnefndar á árunum 2005–2007 og þar var þetta atriði talsvert rætt. Það er auðvitað rétt sem komið hefur fram í ræðum manna að auðlindaákvæði hefur verið í stjórnarsáttmálum ríkisstjórna og forustumenn í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram tillögu á þingi einmitt um þetta atriði, auðlindir í þjóðareign. Sú umræða er orðin nokkuð löng og er hægt að teygja hana og toga í allar áttir en ég held að það sé hægt að tala um þetta í tiltölulega einföldu máli.

Málið snýst um hvernig tryggja á að að þjóðin eigi auðlindir sínar í framtíðinni en þeir sem þær vilja nýta hafi aðgangsrétt að auðlindinni og geti fengið hann eftir þeim reglum sem þjóðfélagið setur á hverjum tíma, hvort sem það er með lögum eða öðrum reglum eins og heimilt er samkvæmt lagabókstafnum, þ.e. settar eru reglur um hvernig nýta beri auðlindirnar, hverjir nýti þær o.s.frv. Það er hins vegar búið að vera mikið deilumál að því er varðar fiskinn í sjónum og sýnist sitt hverjum um það hvernig það skuli skipað en ég held að öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi, þar með talið Frjálslynda flokknum, sé það algjörlega ljóst að menn þurfa að hafa nýtingarrétt til þess að gera út til fiskveiða. Og þrátt fyrir að við höfum talað í mörg ár fyrir verulegum breytingum á fiskveiðistjórninni höfum við aldrei talað fyrir því að útgerðarmenn geti ekki gert út til fiskveiða og eigi ekki rétt til þess. Það þarf að hafa einhverjar reglur um það.

Ég hef leyft mér að segja að útgerðarmenn þurfi að vita hvaða nýtingarrétt þeir hafa, hvað svo sem kerfið heitir á hverjum tíma, hvort sem það er kvótakerfi með aflahlutdeild, dagakerfi, svæðakerfi eða tímabilakerfi þar sem menn gera út skip í ákveðinn tíma. Til að útskýra það nánar er tímabilakerfi án kvótasetningar, t.d. grásleppuveiðar sem stundaðar eru í ákveðinn tíma, það voru 50 dagar en hæstv. sjávarútvegsráðherra lengdi tímabilið núna í 55 daga. Þar er enginn kvóti en það eru tímabil og þau eru msimunandi. Menn hafa val um tímabilið, hvenær þeir hefja veiðarnar, en þegar þær eru hafnar ber að ljúka þeim eftir 55 daga.

Ég hugsa að miðað við hvernig tilskipanir okkar og lög um fiskveiðar í íslenskri landhelgi eru í dag, megi segja að fyrirkomulag grásleppuveiðanna sé sennilega það mannlegasta sem í boði er. Útgerðarmenn grásleppubáta vita að þeir hafa nýtingarrétt, þeir vita að þeir geta gert út til grásleppuveiða vítt og breitt í kringum landið á ákveðnum dögum eða ákveðnu tímabili, en þeir ráða því sjálfir hvenær þeir hefja veiðina innan ákveðins tíma. Þegar þeir hafa hafið veiðarnar ber þeim hins vegar að ljúka þeim eftir ákveðinn dagafjölda sem voru 50 en verða núna 55. Þar er enginn magnkvóti og þar af leiðandi losnum við við þá ljótu erfiðleika sem fylgja magnkvótum, þar er ekkert val, menn velja þá ekki úr aflanum vegna þess að hann er bundinn í kílóum. Þetta er sú aðferð sem er tímabilabundin fiskveiðistjórn án þess að hámarksafli sé takmarkaður. Ég endurtek að eins og nú er komið í stjórn fiskveiða á Íslandi er þessi leið sennilega sú mannlegasta og besta fyrir náttúruna og náttúrunýtinguna sem í boði er, að því er varðar nýtingu á grásleppunni því að mönnum eru ekki settar neinar skorður í kílóum og þurfa þar af leiðandi ekki að henda hluta af grásleppuaflanum.

Síðan eru alls konar aðrar veiðar eins og við vitum. Það eru síldveiðar með kvótum og tímabilum og síðan eru auðvitað veiðar eins og loðnuveiðarnar sem eru yfirleitt tímabundnar miðað við hegðun loðnunnar og algerlega háðar því að mönnum takist að mæla eitthvert ákveðið magn í sjónum. Hafrannsóknaskipin mæla það og mönnum er leyft að halda til veiða ef metið er að magnið sem þurfi til að viðhalda stofninum sé nægilega mikið. Það má segja að þetta gildi kannski frekar um uppsjávarfiskana en hina almennu botnfiskstofna, svo maður skýri það nú aðeins.

Þannig að viðhorfin til þeirrar náttúrunýtingar að nýta auðlindir sjávar eru auðvitað misjöfn og mismunandi og aðferðirnar eru misjafnar eftir því hvaða fisktegund er um að ræða og hvernig veiðunum er hagað. Mönnum er t.d. ekki alveg sama um það á nótaveiðum hvort aflinn er tekinn með nót eða hvort hann er tekinn með togveiðarfærum. Um það hafa verið verulegar deilur t.d. að því er varðar nýtingu á síldarstofnum, eins og menn vita. Margir skipstjórnarmenn halda því fram að togveiðar á síld séu ekki besta nýtingaraðferðin sem viðgengist getur vegna þess að togveiðar valdi spjöllum á síldarstofninum og áhrifum sem teljast neikvæð.

Breytileikinn er sem sagt mikill, hæstv. forseti, en öllum er þó skipað með þeim hætti að menn hafa einhvers konar nýtingarrétt eftir hvaða aðferð sem sett er fram um það hvernig menn nýta þessa náttúruauðlind. Hér erum við að segja og ítreka að þjóðin eigi náttúruauðlindirnar. Náttúruauðlindirnar séu þjóðareign en nýtingunni skuli skipað með ákveðnum hætti og það sé þá bundið í lögum á hverjum tíma og við þekkjum jú lög um stjórn fiskveiða sem kveða á um að fiskurinn í sjónum sé sameign íslensku þjóðarinnar og notkun á honum myndi ekki varanlegan eignarrétt o.s.frv.

Þetta vildi ég taka fram, hæstv. forseti, og tel að þetta ákvæði styrki stöðu þess að náttúruauðlindir í sjónum séu líka eign þjóðarinnar, en þær megi vissulega nýta.

En í þessu ákvæði sem fært er yfir í 1. mgr. og er í tillögum meiri hlutans stendur að náttúruauðlindir í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi. Það er sem sagt verið að skilgreina það í stjórnarskránni að nýtingarréttur á náttúruauðlindum sé til staðar en ekki afhending til varanlegrar eignar eða sölu. Þannig að ég tel að við séum að gera þessi ákvæði skýrari en eftir stendur auðvitað að þeir sem starfa í atvinnugreininni þurfa að vita hvernig þeir megi gera út.

Ég hef farið yfir nokkur dæmi í því sambandi, hæstv. forseti, til að skýra það að nýtingarrétturinn getur verið mjög breytilegur eftir því hvaða aðferð er notuð við að úthluta honum. Þannig að hann er ekki bara einn og sér einhver prósenta af viðkomandi stofni í hafinu o.s.frv. Margar aðrar aðferðir eru notaðar og margar betri að mínu mati en það að láta menn hafa ákveðna hlutdeild, sem þýðir að menn veiða eftir kílóum og velja fisk eftir kílóum vegna þess að þar er verðið og peningurinn.

Ég ætla að láta þetta nægja um 1. gr., hæstv. forseti. Ég tel að um hana sé í raun og veru ekki efnislegur ágreiningur en mönnum sem vilja vera á móti tekst náttúrlega að halda uppi ágreiningi um allt. Við sem flytjum þetta mál erum alveg klár á því og skiljum það eins og það hefur þróast á þeim ellefu fundum sem við höfum haldið um þessi mál í nefndinni. Þannig er það.

Um 2. gr. ætla ég ekki að hafa langt mál. Ég tel að um hana ríki sátt, þ.e. að þjóðin skuli vera stjórnarskrárgjafinn og greiða atkvæði um stjórnarskrárbreytingar og samþykkja þær eða fella eftir atvikum og það verði gert í sérstökum atkvæðagreiðslum en ekki þvælt við alþingiskosningar eins og verið hefur þannig að menn hafa nú stundum ekki vitað hvað þeir voru sérstaklega að samþykkja um stjórnarskrána. Það hafa kannski verið svo heit pólitísk mál að menn hafa algerlega drukknað í stjórnarskrárumræðunni og bara gleymt henni þegar hitinn hefur verið mestur í pólitísku umræðunni.

Þannig að ég tel að mjög gott sé að gera það sem hér er lagt til að þjóðin verði stjórnarskrárgjafinn og greiði atkvæði um stjórnarskrárbreytingar beint og afgreiði þær með synjun eða samþykki. Um það held ég að sé ekki ágreiningur eða alla vega þá grein sem menn hafa tjáð sig sammála um.

3. gr. kveður hins vegar á um það að þjóðin fái aukið lýðræði og aukin völd frá því sem verið hefur. Það verði sem sagt fært í vilja þjóðarinnar eftir ákveðnum leikreglum, sem vissulega er búið að gera dálítið stífar í þessari útfærslu á 3. gr., að þjóðin geti krafist þess með undirskriftasöfnun að atkvæðagreiðsla fari fram um ákveðin atriði. Ef svo fer að ákveðinn fjöldi manna tekur þátt í þeirri atkvæðagreiðslu, meira en 25% kosningarbærra manna, og samþykki það verði slíkt fullmarkandi til breytinga en hins vegar þyrfti að móta málsmeðferð að því er varðar kröfu kjósenda þannig að alveg ljóst sé hvað kjósandinn er að kjósa um og geti kosið já eða nei og Alþingi kemur auðvitað að því.

Þetta ákvæði verður ekki að veruleika og verður ekki í virkni nema því aðeins að menn skrifi undir slíka kröfu, ekki bara á bensínstöðvum eða í tölvupósti, heldur skrifi raunverulega undir slíka kröfu að mál skuli ganga til þjóðaratkvæðis með sannarlegum og öruggum hætti með því að mæta hjá sýslumanni, með því að mæta á bæjarskrifstofu og/eða að mæta á lögreglustöð einhvers staðar þar sem listinn liggur frammi og sannreynt er að viðkomandi maður er sá sem kemur og skrifar undir og sýnir persónuskilríki sín og það sé staðfest. Það séu þá starfsmenn íslenska ríkisins í þessu tilfelli lögreglumenn, lögreglustjórar, sýslumenn eða starfsmenn sýsluskrifstofa eða þess vegna á bæjarskrifstofum þar sem líka eru starfsmenn fólksins í viðkomandi bæjarfélagi.

Þetta held ég að ætti að vera nægilega tryggt, hæstv. forseti, til að gera það að verkum að raunverulegan vilja þurfi hjá þjóðinni til að ná fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin meini það að hún vilji fá að taka afstöðu til ákveðinna mála. Ég sé það alla vega ekki fyrir mér að ekki þurfi að hafa dálítið fyrir því að fá mikinn fjölda fólks til að skrifa undir það að mál skuli ganga til þjóðarinnar. Í þessu sambandi erum við að tala um 15% kosningarbærra mann og það þýðir að gerð er krafa til þess að um það bil 30.000 manns skrifi undir slíkt skjal.

Ég geri alla vega ráð fyrir því, hæstv. forseti, að menn fái nú ekki 30.000 manns á Íslandi til að mæta á sýsluskrifstofur, lögreglustöðvar eða hjá bæjaryfirvöldum eða borgaryfirvöldum til að skrifa undir ákveðið skjal og sýna þar skilríki sín öðruvísi en á bak við búi mikill vilji meðal þjóðarinnar og ásetningur um að þjóðin fái að taka afstöðu. Ég lít svo á að 15 af hundraði séu algerlega nægjanlegt hlutfall til að tryggja að þegar svo er í pottinn búið sé full meining á bak við og mikill vilji meðal þjóðarinnar eins og ég hef lýst að því er varðar undirskriftirnar. Þannig að ég lít svo á að hér séum við að tala um að þjóðin vilji alveg sérstaklega fá að taka afstöðu til ákveðinna mála.

Hins vegar er takmarkað hvað þjóðin getur fengið að gera og það er talið upp hér eins og fjárlög og fjáraukalög og fleiri atriði og skattalög sem ekki er talið að þjóðin eigi að geta breytt enda eru það málefni sem menn fjalla um og varða miklu um rekstur ríkisins og afkomu innan hvers árs o.s.frv. og jafnvel um lengri tíma, hæstv. forseti. Þannig að ég tel að búið sé að búa um þetta með nokkuð tryggilegum hætti og sem sagt orðið ásættanlegt hvernig þetta er skrifað hér í tillögur að lagatexta sem væntanlega verður að lokum staðfestur og settur í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Þá erum við í raun og veru komin að 4. gr. en ég ætla hins vegar að segja það, hæstv. forseti, að mér er kunnugt um það að sjálfstæðismenn hafa miklar athugasemdir við þessa 3. gr. Það hefur komið fram í málflutningi þeirra. En mér finnst það hins vegar nokkuð napurt gagnvart þjóðinni að geta ekki fallist á það að verulegur fjöldi Íslendinga sem leggur það á sig að skrifa á sérstakt blað og fara sérstaka ferð til þess geti ekki fengið að greiða atkvæði eða þjóðin geti ekki fengið að greiða atkvæði um mál sem mönnum finnst mjög miklu skipta.

Ef svo er að aðeins þessi 30.000 vilja þetta nær málið ekki samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þurfa að vera töluvert fleiri vegna þess að það er samþykkt eða lagt til að 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá samþykki málið. Þannig að miklar girðingar eru að mínu viti settar fyrir þessu en allt að einu er verið að opna dyr fyrir almenning svo hann geti orðið virkur þátttakandi í því að taka afstöðu til ákveðinna laga, ákveðinna málefna sem honum finnst miklu skipta.

Ég verð að segja alveg eins og er að mig undrar það að menn skuli vera á móti þessu í útfærslunni. Það væri þá betra að menn kæmu þá bara með tillögur til breytinga. En mér finnst fara illa á því að vera á móti því að íslenska þjóðin skuli fá að fjalla um málið. Mér finnst það mjög miður að menn skuli hafa þá skoðun.

Síðan er það stjórnlagaþingið, hæstv. forseti, þar er lagt til að þjóðin fái að koma að því að semja nýja stjórnarskrá, taka fyrir umfjöllun stjórnarskrárinnar og því verði fundinn farvegur og í það verði sett sérstök lög o.s.frv. og í raun og veru væri bundið í lög hvernig með eigi að fara. Þar er einnig skilyrt að málið gangi til Alþingis og geri Alþingi athugasemd til stjórnlagaþingsins skal samþykkja það með tveimur þriðju atkvæða á stjórnlagaþingi áður en það gengur til þjóðarinnar. Þannig að ýmsar girðingar eru settar í þessu máli, hæstv. forseti.

En auðvitað kann það að vera að við nánari útfærslu þegar menn fara að setja lögin i kringum þetta sjái menn einhverjar aðrar betri útfærslur til að fylgja eftir að því er varðar lög um stjórnlagaþing og starfshætti þess. En ég held að eins og þetta er í pottinn búið séu þarna talsvert miklar girðingar og þröskuldar, hæstv. forseti.

Mér er ljóst að sjálfstæðismenn eru andvígir stjórnlagaþinginu, eins og það er sett upp hér og þannig liggur það mál. Ekki hefur verið leyst úr því á þeim ellefu fundum sem við höfum átt í stjórnlaganefndinni um það og við sitjum uppi með það, hæstv. forseti, að um þetta mál er ágreiningur. Ég held að hann sé lítill, eins og ég hef farið yfir í máli mínu, um 1. og 2. gr. en talsverður um 3. gr. þótt ég verði að lýsa undrun minni á því að menn skuli vera á móti því að þjóðin fái að koma að þessum málum og vel kann að vera að menn þurfi að ræða betur einhver útfærsluatriði að því er varðar 4. gr. Og nú er búið að færa útfærsluna á því að talsverðu leyti inn í lagabálk þótt hér séu skrifaðar ákveðnar meginreglur.