136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:02]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurninguna, um það að Alþingi muni taka fram fyrir hendurnar á stjórnlagaþinginu og það verði tvö stjórnlagaþing — það kann að vera fræðilegur möguleiki að þetta sé rétt hjá hv. þingmanni, en raunverulegur möguleiki felst eingöngu í því að Sjálfstæðisflokkurinn yrði með meiri hluta eftir næstu kosningar. Þá teldi ég hættu á því að menn notuðu þetta vald. Að öðru leyti tel ég að ekki sé hætta á því og þjóðin eigi það víst að geta fjallað um sín mál og komist að niðurstöðu.

Hitt atriðið, um það að svo geti farið að kvótakóngum — sem enn eiga eitthvað eftir af peningum, sem þeir hafa ekki látið í bankann og tapað þar, eða farið með í útrásarvíking og tapað þar — muni takast, fyrir sakir fjármuna sinna, sem þeir hafa fengið gefins frá íslensku þjóðinni á undanförnum árum, að sitja allir á kvótaþingi, en þá er ég alveg viss um að þjóðin mun kolfella slíka tillögu frá kvótakóngunum.