136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:05]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseta og mér, og ég held örugglega flestum þingmönnum, er það algerlega ljóst að þjóðin er samansett af hópum fólks með mjög ólíkar skoðanir. Fólk safnast í alls konar félög, líknarfélög, bridgefélög, pókerfélög — er það ekki það nýjasta? — og vinnur að alls konar málefnum og hefur alls konar áherslur. Sumir mynda sterk samtök um hagsmuni sína alveg eins og kvótakóngarnir, mjög sterk samtök um hagsmuni sína. Ég heyrði af ályktun Sjálfstæðisflokksins á síðasta fundi að hann er alveg eindregið á því að vernda þá hagsmuni, standa með þeim, tryggja þá.

Það er algerlega ljóst, hæstv. forseti, að það verða mjög fjölbreyttir hópar sem munu sækjast eftir því að komast inn á stjórnlagaþing. Það verður sem sagt blanda af þjóðinni. Það er reyndar alveg eins og þegar við erum í annarri kosningabaráttu að það verður væntanlega blanda af þjóðinni, af ýmsum fulltrúum, sem bjóða sig fram og ef svo verður í framtíðinni, sem ég vona, að menn geti boðið fram óraðaða lista, verður enn meiri blöndun af þjóðinni og það er gott.