136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er áhugaverð umræða sem hér fer fram um mikilvægt mál. Eins og komið hefur fram mælti ég hér fyrir nefndaráliti meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál. Því miður náðist ekki samstaða um það mikilvæga mál í hv. nefnd og mér dettur í hug að aldrei hafi staðið til af hálfu minni hlutans, eða hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að nálgast meiri hlutann í málinu. Mér fannst samstarfsviljinn ekki vera nægjanlega mikill í nefndinni og það voru miklar þagnir þegar orðið var gefið laust um málið, og ekki komu fram nein skýr skilaboð til meiri hlutans um það hvert minni hlutinn vildi fara.

Meiri hlutinn er skipaður fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka og ég leyfi mér að segja fjögurra ólíkra stjórnmálaflokka. Það að fimmti flokkurinn sem á fulltrúa á Alþingi Íslendinga skyldi ekki hafa meiri vilja til þess að standa að afgreiðslu málsins á sér eflaust ýmsar skýringar en ég efast um, eftir það sem þegar hefur komið í ljós í umræðunni, að þær muni allar koma fram í þessari umræðu.

Ég ætla að koma inn á nokkur af þeim atriðum sem ég tel að sjálfstæðismenn hafi lagt því til grundvallar að geta ekki stutt frumvarpið og heldur ekki í þeirri mynd sem það var í lokin þegar breytingartillögur höfðu komið fram. Þá er það í fyrsta lagi það að ekki eigi að breyta stjórnarskránni án samstöðu á milli stjórnmálaflokkanna. Þá er kannski eðlilegt að spurt sé á móti hvort það sé þá eðlilegt að einn stjórnmálaflokkur á Alþingi geti að einhverju leyti tekið stjórnarskrána í gíslingu og hafnað öllum breytingum, eða réttara sagt hafnað þeim breytingum sem þeim eru ekki að skapi. Einmitt þetta atriði gerir það, að mínu mati, algjörlega nauðsynlegt að kjósa til stjórnlagaþings þar sem þjóðin sjálf vinnur að heildarendurskoðun á þeirri stjórnarskrá sem samþykkt var við lýðveldisstofnun og er að stofni til stjórnarskrá Dana.

Eftir lýðveldisstofnunina var þjóðinni lofað að hún fengi nýja stjórnarskrá en þrátt fyrir tilraunir sem gerðar hafa verið af hálfu Alþingis með ákveðnu millibili allan þann tíma sem liðinn er frá árinu 1944 hefur ekki tekist á hinu háa Alþingi að ná samkomulagi um heildarendurskoðun á stjórnarskránni.

Þess má geta að þegar einstaka greinum stjórnarskrárinnar hefur verið breytt á síðustu 50 árum hefur það nær eingöngu verið þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forustu íslenskra stjórnmála. Því kann að vera að það eitt að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í forustu fyrir þeirri vinnu sem farið hefur fram á síðustu vikum, við undirbúning og vinnslu frumvarpsins sem hér um ræðir, geti verið næg ástæða til þess að sjálfstæðismenn standa ekki að afgreiðslu málsins. Þeir líta einfaldlega of stórt á sig til þess að geta verið það sem kallað er meðflutningsmenn á máli, þeir þurfa að vera í forustu fyrir málinu.

Hæstv. forseti. Ég segi þetta vegna þess að í meðferð frumvarpsins í sérnefndinni kom ekki fram vilji hjá sjálfstæðismönnum til að ná saman við meiri hlutann nema ef vera skyldi á 11. nefndarfundi, síðasta nefndarfundinum, sem fór fram í hádeginu í gær. Þá kom skyndilega fram sú skoðun að með frekari vinnu í nefndinni væri mögulegt að ná saman í málinu. Í því sambandi vil ég segja að ef sá vilji er enn til staðar og ef sjálfstæðismenn sýna þann vilja í verki í þeirri umræðu sem nú er hafin þá er ekki of seint að setjast niður og skrifa sameiginlegt nefndarálit fyrir 3. umr. Sjálfstæðismenn verða að gera sér grein fyrir því að það samkomulag getur ekki byggst á því að meiri hlutinn gefi allt eftir gagnvart minni hlutanum. Svo vanir eru sjálfstæðismenn því að vera í meiri hluta og svo oft hafa þeir látið þau orð falla hér á hv. Alþingi að meiri hlutinn ráði þegar til kastanna komi að þetta hlýtur að vera þeim algjörlega ljóst.

Nokkuð hefur verið vitnað til Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við Háskólann í Reykjavík, í umfjöllun um þetta mál. Ragnhildur átti fund með nefndinni og skilaði umsögn um það. Í máli Ragnhildar kom m.a. fram, þegar hún kom til nefndarinnar, að hún vildi fá flest þessara atriða inn í stjórnarskrána. Hún sagði einnig að vegna eðlis stjórnarskráa hefði hún áhyggjur af ef efnisatriðum yrði breytt án samstöðu. Öðru máli gegndi um þá þætti frumvarpsins sem eru breytingar í þá átt að þjóðin ákveði, eins og hún orðaði það. Þetta þýðir að hún hefur eingöngu áhyggjur af því ef 1. gr. er samþykkt í ágreiningi.

Förum þá aðeins yfir ágreininginn um 1. gr. frumvarpsins, þ.e. svokallaðan ágreining. Fyrsta grein frumvarpsins, eins og frumvarpið var lagt fram, fjallaði í fyrsta lagi um að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign, í öðru lagi um að allar náttúruauðlindir beri að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir, Í þriðja lagi um að náttúruauðlindir í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi, í fjórða lagi um að allir eigi rétt til umhverfis sem stuðli að heilbrigði, í fimmta lagi um rétt almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það og í sjötta lagi um að almenningur eigi að eiga kost á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið.

Hæstv. forseti. Með þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn hefur lagt fram er ekkert eftir af 1. gr. frumvarpsins annað en 1. og 3. liður af því sem ég taldi upp hér áðan, sem sagt tveir liðir af sex. Greinin hljóðar svo núna, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.“

Er Sjálfstæðisflokkurinn á móti þessu ákvæði? Nei, hann er ekki á móti þessu ákvæði. Í fyrsta lagi samþykktu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í svokallaðri auðlindanefnd sambærilegt ákvæði árið 2000 og þess má geta að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skipaði þá nefnd. Þess má einnig geta að vissulega kom ýmsum á óvart þegar hann skipaði Styrmi Gunnarsson í nefndina og töldu menn að í því fælust ákveðin skilaboð. Styrmir hafði sem ritstjóri Morgunblaðsins skrifað mjög skýrt um það í blað sitt eða blað Sjálfstæðisflokksins að hann vildi að auðlindaákvæði um þjóðareign yrði sett inn í stjórnarskrá og því má segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með því að skipa hann í auðlindanefndina strax sent út þau skilaboð að hann vildi sættir í því máli, að minnsta kosti sættir innan Sjálfstæðisflokksins, kannski skipti minna máli um þjóðina.

Einnig má minna á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í tvígang átt aðild að stjórnarsáttmálum ríkisstjórna þar sem var ákvæði um að auðlindaákvæði um þjóðareign yrði sett inn í stjórnarskrá. Auk þess lagði fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins Geir H. Haarde fram frumvarp með Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi iðnaðarráðherra og formanni Framsóknarflokksins, vorið 2007 þess efnis að auðlindaákvæðið færi inn í stjórnarskrá. Það hefur því verið stefna Sjálfstæðisflokksins að þetta skuli gert. Eða er ekkert að marka Sjálfstæðisflokkinn yfir höfuð? Styður hann ekki eigin frumvörp.

Hæstv. forseti. Samkvæmt þessu styður Sjálfstæðisflokkurinn 1. gr. frumvarpsins eða hefur gert það. Þá erum við komin að 2. gr. Hún snýst um að breyta aðferð við breytingu á stjórnarskrá. Verði 2. gr. frumvarpsins að lögum fara breytingar á stjórnarskrá sem samþykktar hafa verið á Alþingi beint í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar. Séu breytingarnar samþykktar af meiri hluta þjóðarinnar, en þó minnst 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá, öðlast breytingin gildi.

Eins og ég skil sjálfstæðismennina þá eru þeir ekki á móti þessari grein enda stóðu fulltrúar flokksins að samkomulagi í stjórnarskrárnefnd undir forustu Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi ráðherra og alþingismanns, um að aðferðafræðinni við breytingar á stjórnarskrá yrði breytt í þessa átt. Þar var vissulega um miklu flóknari aðferð að ræða og fleiri þröskulda.

Ef ég skil talsmann Sjálfstæðisflokksins, sem talaði hér áðan, rétt þá styðja þeir greinina en það kom fyrst skýrt fram hér í andsvari á Alþingi. (Gripið fram í.) Þetta kom aldrei skýrt fram í nefndinni. Það var þá talað í kringum það að 2. gr. væri alveg þess efnis að það mætti skoða hana. En það kom aldrei skýrt fram. Það kannski segir meira en mörg orð um það hve erfitt var að eiga samskipti við fulltrúa minni hlutans í hv. nefnd.

Síðan eru það 3. og 4. gr., sem snúast um að færa ákvörðunarvald til þjóðarinnar og færa þjóðfélagið í lýðræðisátt með aukinni þátttöku fólksins í landinu í sambandi við ákvarðanatöku og einnig að fela þjóðkjörinni samkomu að gera tillögur til þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Eins og hér hefur komið fram hefur Alþingi umsagnarrétt í sambandi við frumvörp sem unnið er að á svokölluðu stjórnlagaþingi og það hefur líka verið gagnrýnt í umsögnum og af hálfu gesta sem komið hafa fyrir nefndina að aðkoma Alþingis hafi verið of mikil eins og frumvarpið var lagt fram. En svo tek ég það fram að ýmsir eru líka þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að hafa þarna meiri aðkomu en það fór minna fyrir slíkum athugasemdum í sambandi við þær umsagnir sem okkur bárust.

Eftir það mikla áfall sem þjóðin hefur orðið fyrir er mikilvægt að einhvers konar nýtt upphaf geti átt sér stað og þó að kosningar séu vissulega mikilvægar í sambandi við alla lýðræðisþróun þarf meira til. Ég leyfi mér að rifja upp að á flokksþingi Framsóknarflokksins sem haldið var í janúar var ályktað að koma skyldi á stjórnlagaþingi og að kjósa skyldi til stjórnlagaþings til að vinna að breytingum á stjórnarskránni þegar Framsóknarflokkurinn í janúarmánuði bauð vinstri flokkunum að verja slíka ríkisstjórn vantrausti gegn því m.a. að kosið yrði 25. apríl næstkomandi — og er það staðreynd og nokkuð sem liggur fyrir að kosið verður þann 25. apríl, eftir liðlega þrjár vikur.

Hins vegar eru margir sem halda því fram að kosningar sem almennt fara fram á fjögurra ára fresti séu ekki nægileg aðkoma almennings að stjórn landsins og að lýðræði þurfi að felast í möguleikum til frekari valda hins óbreytta Íslendings. Með þetta í huga höfum við framsóknarmenn ályktað, eins og ég fór yfir hér áðan, og síðan lögðum við fram frumvarp á Alþingi þess efnis.

Hæstv. forseti. Mig langar í þessu sambandi að vitna í viðtal á kosningavef RÚV við prófessor við Háskóla Íslands, Vilhjálm Árnason heimspeking, sem var spurður að því hvort ekki þyrfti eitthvað miklu meira en kosningar til að breytingar gætu átt sér stað á Íslandi. Þessari spurningu er svarað svo á bloggsíðu Láru Hönnu Einarsdóttur, með leyfi forseta:

„… jú. Það þarf hugarfarsbyltingu, siðferðisbyltingu, miklar atferlisbreytingar hjá almenningi, þingmönnum, í stjórnsýslunni ... ja, bara um allt þjóðfélagið. Það þarf líka miklu meiri samlíðun með náunganum, tillitssemi og viðurkenningu á því, að við búum hér öll saman og rassinn á manni sjálfum er enginn gullrass sem sjálfsagt er að hlaða undir á kostnað annarra. Við myndum samfélag sem þarf nú að endurskoða gildismat sitt frá grunni. Og við þurfum margfalt meira aðhald — ekki síst af hendi fjölmiðla.“

Ég viðurkenni að þetta með gullrassinn er mér dálítið ofarlega í huga núna eftir upplifun síðustu vikna í svokallaðri sérnefnd um stjórnarskrá. En hvað er það sem sjálfstæðismenn hafa sérstaklega (Gripið fram í.) á móti stjórnlagaþingi? Hlutverk stjórnarskrár er að setja valdinu mörk. Hlutverk stjórnarskrár er því einnig að setja Alþingi valdmörk. Því er það afar eðlilegur farvegur fyrir þær breytingar sem gera þarf á stjórnarskrá að sú vinna sé í höndum þjóðkjörinna fulltrúa sem kosnir eru beinni kosningu á grundvelli eigin ágætis og áhuga á því að koma að þeirri vinnu sem hér um ræðir.

Alþingi hefur ekki staðið sig í því að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá, það hefur verið svikið alveg frá lýðræðisstofnun. Sjálfstæðismenn segja að það sé niðurlæging fyrir Alþingi að taka vald stjórnarskrárgjafans frá því. Við framsóknarmenn segjum að meiri niðurlæging sé fyrir Alþingi að hanga á því valdi eins og hundur á roði og treysta ekki þjóðinni til verksins. Þetta þýðir ekki að við viljum tala mikilvægi stjórnmálaflokkanna niður. Stjórnmálaflokkar eru lykill að fulltrúalýðræðinu og að sjálfsögðu munum við áfram byggja á slíku fyrirkomulagi í stjórnskipan okkar eins og aðrar lýðræðisþjóðir.

Í þeim breytingum á 4. gr. sem meiri hlutinn leggur til er m.a. lagt til að stjórnlagaþing starfi í skemmri tíma en upphaflegar tillögur gerðu ráð fyrir. Lagt er til að kosið verði til þingsins samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010 og að þingið hefji störf 17. júní sama ár og starfi í mesta lagi í eitt ár, þ.e. ljúki störfum eigi síðar en 17. júní 2011. Meiri hlutinn gerir ekki ráð fyrir að fulltrúar á stjórnlagaþingi verði í fullu starfi enda starfi þingið í lotum, þó má reikna með að formenn nefnda hafi frekara hlutverki að gegna og muni verða í fullu starfi. En þetta eru náttúrlega hlutir sem á eftir að útfæra frekar af nýju Alþingi og það verður gert með lögum. Áfram er gert ráð fyrir að fulltrúar verði 41 talsins og lögð er áhersla á sem jafnast kynjahlutfall og einnig að fulltrúar verði úr öllum kjördæmum.

Nokkuð hefur verið rætt um kostnað við þinghaldið og var það eitt þeirra atriða sem sjálfstæðismenn hugðust nota til að slá hugmyndina út af borðinu. Fyrstu hugmyndir fjármálaráðuneytisins um kostnað voru upp á um 2 milljarða kr. að hámarki. Þar var farin allra dýrasta leiðin sem hugsast gat. (Gripið fram í.) Í kostnaðarumsögn sem unnin var í framhaldi af breytingartillögum meiri hlutans gerði ráðuneytið ráð fyrir að kostnaður gæti orðið frá 424 millj. til 524 millj. kr. eftir því hversu lengi þingið mundi starfa.

Ráðuneytið áréttar í seinni umsögn sinni að erfitt sé að meta með nákvæmni kostnað við stjórnlagaþing hvort heldur sé um að ræða upphaflega tillögu eða þá sem liggur fyrir af hálfu meiri hlutans.

Hæstv. forseti, viðbrögð sjálfstæðismanna við því frumvarpi sem hér um ræðir eru mér enn nokkur ráðgáta. Talsmaður flokksins í umræðunni, hv. þm Björn Bjarnason, flutti hér heilmikla ræðu og hafði, að mér fannst, allt á hornum sér. En þó skýrðist afstaða til annarrar greinar betur í þeirri ræðu en inni í nefndinni.

Hv. þingmaður gekk svo langt að segja að nú stæði yfir sérstakur niðurlægingartími á Alþingi Íslendinga og ástæðan mun vera sú að mati hv. þingmanns að með þeirri ákvörðun að Alþingi ákveði að þjóðin kjósi til sérstaks þings, sem hafi það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá sem allir kosningabærir Íslendingar hafa í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu tækifæri til að samþykkja eða synja, sé verið að niðurlægja Alþingi.

Við framsóknarmenn lítum einfaldlega ekki þannig á málið. Við berum virðingu fyrir Alþingi en engu að síður viljum við tímabundið færa stjórnarskrárgjafann frá Alþingi og til stjórnlagaþings. Sérstaklega vegna þess að Alþingi hefur ekki tekist að sinna því mikilvæga hlutverki sínu og standa við það loforð sem gefið var við lýðveldisstofnun að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá.