136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að rífast um orð Ragnhildar Helgadóttur. Þau liggja hér fyrir á pappír og við getum farið yfir þau á eftir. En það sem auðvitað er kjarni málsins er að allir sem hafa fjallað um stjórnarskrárbreytingar á undanförnum árum, áratugum jafnvel lengri tíma eru sammála um að stjórnarskrárbreytingar eru annars eðlis en aðrar lagabreytingar. Það þarf að vanda betur undirbúninginn. Það þarf að ná víðtækari sátt.

Það er ekki tilviljun að allir þessir umsagnaraðilar nefna þetta. Það er ekki vegna meinbægni í garð ríkisstjórnarinnar eða vegna þjónkunar við Sjálfstæðisflokkinn. Það er vegna þess að þeir aðilar sem þetta setja frá sér hafa fræðilegan áhuga á málinu. Hafa þekkingu á málinu og hafa vilja til að Alþingi standi vel að verki í sambandi við stjórnarskrárbreytingar.

Ég bendi t.d. á það sem Ragnhildur Helgadóttir segir, með leyfi forseta:

„Það er skoðun mín að, með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð í hringiðu stjórnmálanna. … Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“