136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem stendur í vegi fyrir samkomulagi um þetta mál er sú einhliða krafa að Alþingi stígi til hliðar, að stjórnarskrárvaldið verði tekið af Alþingi. Það stendur í vegi fyrir því að hér verði samkomulag. Meðan sú krafa er uppi verður ekki unnt að semja um neitt. Þessi krafa er sett fram af Framsóknarflokknum og hún var skilyrði þess að Framsóknarflokkurinn lýsti yfir stuðningi við núverandi ríkisstjórn. Ef einhver hangir á einhverju eins og hundur á roði, ef ég má nota orðalag sem formanni nefndarinnar þótti sæma að nota um okkur, þá er það Framsóknarflokkurinn sem hangir á því að það eigi að afsala Alþingi þessu valdi og það kalla ég niðurlægingu þingsins. Þess vegna tala ég hér um niðurlægingu og mun tala svo lengi sem einhver leggur það til í þessum sal að Alþingi afsali sér þessu valdi.