136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:40]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að halda því til haga í þessari umræðu eftir ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttir að það var framsóknarmaður sem stýrði þeirri nefnd sem vann að endurskoðun stjórnarskrárinnar á síðasta kjörtímabili.

Hv. þingmaður gerir mjög mikið úr því að haldnir hafi verið 11 fundir í nefndinni. Það er rétt að halda því til haga jafnframt að á nær öllum þeim fundum var verið að kalla eftir umsögnum aðila sem komu til nefndarinnar en þar fór ekki fram efnisleg umræða (Gripið fram í.) og mun ég væntanlega koma betur að því í ræðu minni síðar.

Ég vildi spyrja hv. þingmann vegna þess að það kom fram hjá henni: Hefur eitthvað nýtt komið upp sem gefur tilefni til þess sem hv. þingmaður sagði, að það væru möguleikar á að ná samkomulagi og er ekki bara rétt að fresta þessari umræðu og reyna að leita þess samkomulags?