136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um afskaplega mikilvægt mál sem ekki hefur farið fram hjá neinum sem hefur hlýtt á umræðurnar að ekki er sátt um hér í þingsalnum. Það er ekki sátt um það með hvaða hætti breyta eigi stjórnarskránni en 1. flutningsmaður málsins, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, gerir ekki mikið með það samkvæmt umræðum sem fóru fram fyrr í dag þótt nú stefni í að meiri hlutinn á þinginu þvingi fram, þrátt fyrir ósætti milli stjórnmálaflokkanna, breytingar á stjórnarskránni í fyrsta sinn í 50 ár við þær aðstæður. Í hálfa öld hefur ekki verið gerð breyting á stjórnarskránni án þess að um hana væri sátt í þinginu. Það vekur því mikla furðu að þetta mál skuli vera komið til 2. umr. án þess að fullreynt sé að sátt geti tekist um það milli stjórnmálaflokkanna en auðvitað vekur það ekki minni furðu að við skulum ræða þetta mál hér yfir höfuð þegar einungis eru rúmir 20 dagar til kosninga og það sem raunverulega brennur á fólki í þjóðfélaginu eru mál sem snerta efnahaginn, efnahag heimilanna og rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í landinu. Síðast í þessari viku fjölluðum við um gjaldmiðilsmálin, höft á frjálsum viðskiptum með gjaldmiðilinn og undirliggjandi í þeirri umræðu var auðvitað sú dapurlega staðreynd að það er gríðarlegur þrýstingur á íslensku krónuna og við erum hér í björgunarleiðangri til að rétta efnahaginn við. Það vekur því mikla furðu að við skulum vera hér að efna til umræðu um jafnstórt mál og jafnumdeilt og breytingar á stjórnarskránni.

Mig langar til að byrja á því að leggja áherslu á eitt, Sjálfstæðisflokkurinn sem hér hreyfir andmælum er þeirrar skoðunar að breyta þurfi stjórnarskránni. Við erum þeirrar skoðunar að réttast sé á þessum tímamótum að breyta 79. gr. sem tekur breytingar á stjórnarskránni úr þeim farvegi að ávallt þurfi að ganga til kosninga í kjölfar breytinga á stjórnarskrá. Ég held að það sé óumdeilt að hugmyndin um stjórnlagaþing sem Framsóknarflokkurinn hefur teflt hér fram og tefldi reyndar fram sem þingmáli til að byrja með en ríkisstjórnin tók síðan og gerði að sínu máli ásamt með nokkrum öðrum breytingum á stjórnarskránni, þvingaði þannig Framsóknarflokkinn til fylgilags við sig um aðrar breytingar sem aldrei var lagt upp með í upphafi, (Gripið fram í.) sú hugmynd er síðan í janúar. Það vill þannig til að í nefnd um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem skilaði af sér áfangaskýrslu í febrúar árið 2007 og þeir sem hafa kynnt sér efni þeirrar skýrslu og aðdraganda þess að sú nefnd var skipuð munu fljótt sjá að þar var vandað til undirbúnings að breytingum á stjórnarskránni. Þar var opnuð heimasíða og öllum almenningi í landinu gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum. Þar var efnt til málþinga, þar var öllum stjórnmálaflokkum gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum og þó að vinna nefndarinnar hafi ekki gengið nægilega hratt fram liggur eftir nefndarstarfið mjög mikilvæg skýrsla þar sem saman eru tekin þau helstu sjónarmið sem hreyft var vegna þeirra kafla sem sérstaklega voru skoðaðir, þ.e. 1., 2. og 5. kafla stjórnarskrárinnar.

Þegar nefndin skilaði af sér í febrúar 2007 var ljóst að ekki tókst samkomulag í nefndinni um neina heildartillögu að nýrri stjórnarskrá en upp var lagt með að nefndin skyldi starfa áfram. Nokkru síðar tefldu hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og hæstv. þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, sem var formaður Framsóknarflokksins á þeim tíma, fram frumvarpi til stjórnarskipunarlaga þar sem gerð var tillaga sem er áþekk þeirri sem er að finna í þessu frumvarpi, um að náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign. Það kemur fram í því máli að mismunandi sjónarmið hafi verið í nefndarstarfinu um endurskoðun stjórnarskrárinnar hvort tillaga auðlindanefndarinnar frá árinu 2000 að breytingu á stjórnarskránni sem var efnislega í sömu átt fæli í sér breytingu eða staðfestingu á núverandi réttarástandi. Í frumvarpinu frá árinu 2007 er það rakið á hvaða forsendum sé verið að gera þessar tillögur og það er farið yfir lög um stjórn fiskveiða þar sem er að finna orðalagið að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þar er farið yfir lagagrundvöllinn eða dómaframkvæmdina og sérstaklega vísað í Vatneyrarmálið en í Vatneyrardómnum má segja að það hafi verið áréttað að ákvæði um sameign þjóðarinnar í lögum um stjórn fiskveiða feli það í sér, þ.e. ákvæðið um sameign þjóðarinnar á nytjastofnunum, að — já, það má segja að ákvæðið hafi að geyma almenna stefnuyfirlýsingu um skynsamlega nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar sem háð sé mati löggjafans á hverjum tíma. Þetta geta menn allt saman lesið í greinargerðinni, þ.e. í fyrsta lagi er farið yfir lög um stjórn fiskveiða, í öðru lagi um dómaframkvæmdina, þá er sérstaklega vísað í Vatneyrardóminn, og síðan á grundvelli þessarar dómaframkvæmdar og baksviðslaganna um stjórn fiskveiða er teflt fram breytingu á stjórnarskránni þar sem náttúruauðlindir Íslands eru lýstar þjóðareign og útskýrt nákvæmlega í greinargerð að ekki sé ætlunin að hreyfa við réttarstöðunni.

Í umræðum í stjórnarskrárnefndinni á sínum tíma voru eins og ég rakti rétt áðan deildar meiningar um það hvort ákvæði auðlindanefndarinnar væru þess eðlis að verið væri að gera breytingar á réttarástandinu. Það sama er uppi núna vegna 1. gr. þessa frumvarps, það er nokkuð óljóst hvort ætlunin er með 1. gr. þessa frumvarps að gera breytingar á réttarástandinu og það læðist að manni sá grunur að hér sé enn einu sinni í umræðunni verið að þvæla saman hugtökunum fullveldisrétti og eignarrétti. Af þeirri ástæðu er ekki einkennilegt að það skuli berast jafnmargar athugasemdir við nefnda grein og raun ber vitni vegna þess að þetta hlýtur að skipta grundvallarmáli þegar ákvæði af þessum toga er fest í stjórnarskrá. Athugasemdir í þessu efni sem borist hafa nefndinni eru ekki einungis um þetta mikilvæga atriði, þ.e. hvort hér sé verið að festa í sessi einhverja réttarskipan eða hvort verið sé að breyta einhverri réttarskipan eða hvort staðreyndin sé kannski sú að þegar búið er að flysja af þjóðareignarhugtakinu hýðið standi í raun eftir ein sú hugsun, þ.e. að auðlindir undir forræði íslenska ríkisins beri að nýta til hagsbóta þjóðinni allri. Er það í raun og veru það sem verið er að segja með þjóðareignarhugtakinu?

Mér býður í grun að svo sé. Af greinargerð með lögum um stjórn fiskveiða má sjá að í raun og veru er sameignaryfirlýsingin sem þar er að finna hugsuð á þá lund, þ.e. skyldan til að nýta auðlindirnar með sem hagkvæmustum hætti og til hagsbóta allri þjóðinni.

Þegar menn ákveða að tefla fram breytingum á stjórnarskránni í aðdraganda kosninga og gefa umræðunni ekki nægilegan tíma til að þroskast og öllum sjónarmiðum tækifæri til að komast að er ekki nema von að menn verði óttaslegnir og geri kröfu um að atriði af þessum toga sem geta varðað eina mikilvægustu atvinnugrein okkar, sjávarútveginn, réttarstöðu hennar, að slík ákvæði séu fullkomlega skýr. Ég geri athugasemdir við það þrátt fyrir að gerðar hafi verið breytingar á 1. gr. frumvarpsins í meðförum nefndarinnar sem eru vissulega til bóta, að menn skuli ekki hafa lagt meira á sig til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um jafnmikið grundvallaratriði og þetta er.

Ég leyfi mér að grípa hérna bara af handahófi í umsagnir sem bárust nefndinni og við skulum bara taka sem dæmi, með leyfi forseta, það sem segir í áliti Landssambands smábátaeigenda:

„LS finnst mjög miður hversu knappan tíma það hefur til umsagnar um þetta mikilvæga mál.“

Síðar segir: „Það vefst fyrir LS hver hugmyndafræðin er að baki 1. gr. frumvarpsins og hvað hún þýðir í raun og framkvæmd.“

Það var nákvæmlega þetta sem rætt var um í stjórnarskrárnefndinni sem ég vísaði til áðan, nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar, að þegar fæðst hafði tillaga þar í nefndinni, svona til að grundvalla frekari vinnu á, var það alveg skýrt að fram þurfti að fara lögfræðileg og hagfræðileg úttekt á því að festa slíkt ákvæði í lög. Það fer hins vegar lítið fyrir áhyggjum um slík afbrigði við þessa meðferð málsins, það þykir vera í lagi eftir að umsagnir hafa borist — ég vek athygli á því að umsagnarfrestur rann út um miðjan mars, tveimur vikum síðar eru menn búnir að komast að niðurstöðu um þetta mikilvæga atriði sem stjórnarskrárnefndin var ekki einu sinni búin að ræða til fulls, nákvæmlega sama atriðið. Þess vegna vekur það ekki furðu að ekki einungis Landssamband smábátaeigenda skuli senda inn athugasemd við þetta heldur líka virtir prófessorar eins og Sigurður Líndal, prófessor emeritus í lögfræði, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að skoða þyrfti 1. gr. frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð.“

(Gripið fram í.) Sérstaklega er vísað til þjóðareignarhugtaksins í þessu áliti. Ég læt duga að vísa í þetta tvennt, að stjórnarskrárnefndin var ekki búin að klára umræðu um þetta en stjórnarskrárnefnd Alþingis lætur duga að staldra við jafnstórt mál og þetta í tvær vikur.

Ég ætla þá að færa mig yfir í önnur ákvæði frumvarpsins en ég ítreka það sem ég sagði áðan, það hafa þó verið gerðar breytingar á 1. gr. frumvarpsins sem eru til bóta.

Í 2. gr. frumvarpsins er að finna tillögu um að breyta 79. gr. laganna og þar er stóra breytingin í málinu. Mér finnst mikilvægt að undirstrika að það er grein sem ég held að sé mjög auðvelt að ná samstöðu um hér á Alþingi, ekki einungis var það þannig í stjórnarskrárnefndinni sem ég hef ítrekað vísað til að menn voru sammála þar, heldur sýnist mér að menn séu í sjálfu sér sammála um það líka hér í þinginu, að það væri skynsamlegt að taka breytingar á stjórnarskránni upp úr þeim farvegi að ganga þurfi til kosninga eftir að breytingar hafa átt sér stað. Mér finnst það rangt sem ég hef orðið var við í umræðunni, að menn túlki vilja til að gera þessa breytingu á þann veg að menn séu almennt sammála um að auðvelda þurfti breytingu á stjórnarskránni. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé eitthvað sérstaklega eftirsóknarvert að auðvelda breytingarnar. Mér finnst hins vegar mikilvægt að færa þær yfir í annan farveg og gera þjóðina að beinum þátttakanda í breytingum með því að bera breytingarnar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, það er mikill eðlismunur á því hvort þingið staðfestir breytingarnar í tvígang eða hvort þingið gerir það einu sinni og málið gangi síðan eftir það til þjóðarinnar. Þetta kalla ég ekki að auðvelda breytingar á stjórnarskránni, ég kalla þetta að breyta forminu.

Þetta skiptir hins vegar miklu máli vegna þess að reynslan sýnir okkur að þegar jafnmikið er undir og heildarendurskoðun á stjórnarskránni virðist núverandi fyrirkomulag vera til trafala. Það má kannski nota það bara sem sérstakt dæmi í því sambandi að fyrrverandi ríkisstjórn, sú sem skilaði umboði sínu um mánaðamótin janúar/febrúar hugðist vinna áfram að breytingum á stjórnarskránni en málið var ekki á dagskrá á fyrri hluta kjörtímabilsins vegna þess að það lá fyrir að ganga þyrfti til kosninga eftir að starfinu lyki. Það eru auðvitað vísbendingar í framkvæmd um að fyrirkomulagið eins og það er í dag hafi mjög mikil áhrif á það hvernig verkið vinnst. Ég held að það hafi ekki verið til gagns en dæmin sýna auðvitað að okkur hefur margoft á undanförnum árum tekist að ná góðu samkomulagi um einstakar breytingar en þegar stjórnarskráin í heild sinni er undir sýnist mér að núverandi fyrirkomulag sé óheppilegt. Niðurstaðan er sú að allir eru sammála um að gera breytingar á 79. gr., færa staðfestingu um breytingu á stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar maður getur sett þessa staðreynd í samhengi við hugmynd framsóknarmanna sem ég held að segja verði bara að alveg hreint út að Framsóknarflokkurinn fær sem gagngjald fyrir að lýsa ekki yfir vantrausti á minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, þegar maður setur þessa tvo hluti í samhengi getur maður ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að sú hugmynd, hugmynd framsóknarmanna, sprettur upp úr nákvæmlega þessum sama farvegi. Það hefur beinlínis komið fram í máli þeirra sem mælt hafa fyrir stjórnlagaþingshugmyndinni að það sé nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi endurskoðunar stjórnarskrárinnar. Þess vegna á ég afskaplega erfitt með að skilja þörfina fyrir stjórnlagaþing þegar við höfum hrundið úr vegi þessari helstu hindrun samfellu í endurskoðunarvinnu við stjórnarskrána. 79. gr. breytt eða öllu heldur ný 79. gr. — þetta er víst 79. gr. sem á að verða 81. gr. — er allt sem til þarf til að koma hreyfingu á endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Síðan verður auðvitað að nefna annað í samhengi við 79. gr. Frá þeim tímapunkti sem við ákveðum að taka upp þá reglu að þingið geti með einföldum meiri hluta breytt stjórnarskrá og síðan lagt hana fyrir þjóðina, frá þeim tímapunkti sem það er ákveðið skiptir að mínu áliti miklu hvort það er einhver sátt um það í þinginu að almennt skuli ekki vera stuðlað að breytingum á stjórnarskránni nema í sátt allra flokka. Ef sú hefð skiptir að mati ríkisstjórnarflokkanna og meiri hlutans á þinginu ekki máli lengur, sú ríka hefð sem gilt hefur í hálfa öld, ef það er allt í fína lagi með að rjúfa þá hefð um leið og við gerum breytingar á 79. gr. er ástæða til að óttast. (Gripið fram í.) Þá er ástæða til að óttast að það muni fara eftir meiri hlutanum á þinginu hverju sinni hvort gerðar verða breytingar á stjórnarskrá. Við vitum það öll sem störfum á þinginu að uppi eru mjög mörg ólík sjónarmið um það hvaða ákvæði eiga heima í stjórnarskrá og hvaða ákvæði eiga þar ekki heima. En ef það á ráðast af tæpum meiri hluta hverju sinni að stjórnarskránni sé jafnvel breytt og ef það á að fara að verða að reglu sem er að finna í stjórnarsáttmála Vinstri grænna og Samfylkingar í dag, þar sem menn semja um það, minnihlutastjórnin semur um það sín á milli, tveir flokkar, að gera skuli tilteknar breytingar á stjórnarskránni og láta sig síðan engu varða að ekki takist um það almenn sátt á þinginu, held ég að full ástæða sé til að velta því fyrir sér hvort við eigum yfir höfuð að gera breytinguna á 79. gr. Þá gæti stefnt í óefni. Fordæmið sem gefið væri með því að láta einfaldan meiri hluta ráða hér og láta sáttina og samstöðuna lönd og leið væri að mínu áliti afar slæmt.

Þjóðaratkvæðagreiðsla sem færi fram í kjölfarið — nú geta menn auðvitað stigið fram og sagt: Nú, heyrðu, þetta skiptir ekki jafnmiklu máli og þú vilt vera láta vegna þess að málið þarf að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu. Um hvað mundi slík þjóðaratkvæðagreiðsla snúast í raun? Hún mundi ekki snúast um neitt annað en hvort kjósendur styddu ríkisstjórnina eða ekki. Það væri ekki verið að greiða atkvæði um stjórnarskrárbreytingar í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væru einungis greidd atkvæði um það hvort þátttakendur í þjóðaratkvæðagreiðslunni ætluðu að standa með sinni ríkisstjórn eða ekki. Það lægi fyrir frá upphafi að ef þjóðin mundi fella slíka breytingartillögu væri ríkisstjórnin komin í vanda. Þá hefði hún breytt grundvallarlögunum í andstöðu við þjóðina þannig að það liggur í augum uppi að ef þetta fordæmi sem hæstv. forsætisráðherra og að því er mér heyrist á umræðunni formaður stjórnarskrárnefndar hér á þingi ætla að gefa um að það þurfi enga sátt um breytingar á stjórnarskránni, hef ég miklar áhyggjur af að við séum að breyta 79. gr. og færa staðfestingu í hendur þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það yrði tómur skrípaleikur þegar völd ríkisstjórnarinnar eru í raun og veru undir. Það sér hver maður hvaða grundvallarmunur er á því þegar þingið allt í heild sinni stendur saman að breytingu á stjórnarskránni og leggur hana undir þjóðina eða hvort það er bara ríkisstjórnin. Þá snýst þjóðaratkvæðagreiðslan ekki um neitt annað en það hvort fella eigi ríkisstjórnina. Í fyrra tilfellinu mundi þjóðaratkvæðagreiðsla snúast um efnisatriði frumvarpsins.

Þetta verður að hafa í huga þegar samspil 2. og 4. gr. frumvarpsins er skoðað og það sett í samhengi við þá ríku hefð sem hér stendur til að rjúfa ef áfram heldur sem horfir.

Þá vík ég máli mínu að 3. gr. frumvarpsins. Þar er rætt um þjóðaratkvæðagreiðsluna og hvort færa skuli í stjórnarskrá — reyndar er þar að finna tillögu um að stjórnarskráin geymi ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni eða tiltekin lög. Ég leyfi mér að vísa í þessu efni aftur í áfangaskýrslu nefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá því í febrúar 2007 þar sem þetta var tekið til umræðu. Þá voru fjölmargar hugmyndir uppi á borðinu. Sitt sýndist hverjum, bæði einstaklingar sem sendu nefndinni erindi og fulltrúar í nefndinni voru með ólík sjónarmið. Þetta var alls ekki fullrætt. Hér er færð fram hugmynd um ákveðna útfærslu sem samin var án samráðs við Sjálfstæðisflokkinn og ég tek fram að Sjálfstæðisflokkurinn er þeirrar skoðunar og ályktaði um það síðast um síðustu helgi að mikilvægt væri að færa í lög heimild til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu en á þessum tímapunkti erum við auðvitað eindregið þeirrar skoðunar að það sé ótímabært að festa slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Við höfum lýst því hér yfir að við erum til viðræðu um að slíkt verði fært í almenn lög, það er nokkuð sem mætti skoða en það er kannski fullseint í rassinn gripið að gera það núna, nokkrum dögum fyrir kosningar. Það er okkur mjög að skapi og það er auðvitað í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum og við þá kröfu sem svo oft er nefnd hér af fulltrúum allra flokka, að það þurfi að færa vald í ríkari mæli í hendur almennings í landinu. Ég lýsi mig sammála því sjónarmiði, það er eðlilegt að gengið verði ákveðið til þess verks að tryggja þann rétt sem allra fyrst með lögum.

Auðvitað kemur þessi 3. gr. frumvarpsins með sama hætti og 1. gr. þess dálítið á óvart í ljósi þess að flutningsmenn málsins eru þeirrar skoðunar á sama tíma að öll þessi málefni eigi að ákveðast á stjórnlagaþingi. Ef maður skoðar greinargerð með frumvarpinu er býsna opið umboð sem stjórnlagaþingið á að fá vegna þess að í sjálfu sér er ekki lagt upp með annað en að á Íslandi skuli áfram vera byggt á lýðræðisskipulagi og mannréttindum. Í 4. gr. segir, með leyfi forseta:

„Forseti Íslands skal boða til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda.“

Stjórnlagaþinginu er ekki þrengri stakkur sniðinn en svo. Í sjálfu sér er það opið fyrir stjórnlagaþingið þó að ég haldi því ekkert fram að það gæti orðið niðurstaðan en í sjálfu sér er opið með hvaða hætti Alþingi mundi starfa. Það er í sjálfu sér galopið hvort við ætlum að vera áfram með forsetaembættið. Það er í sjálfu sér alveg galopið fyrir stjórnlagaþingið samkvæmt þessu orðalagi hvort við ætlum að byggja áfram á þingræðisreglunni. Þessir þættir eru allir opnir til skoðunar fyrir stjórnlagaþing en stjórnlagaþingið má ekki fjalla um það hvort náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign eða ekki. Það þarf að ákveða strax að náttúruauðlindir séu sameign þjóðarinnar en stjórnlagaþingið getur ákveðið hvort við séum með forseta, hvort þingið starfi með sama hætti og áður, hvort byggt sé á þingræðisreglunni, hvort við erum með eitt, tvö eða þrjú dómstig eða hvaðeina annað. En það skal ekkert hafa um það að segja, vegna þess að það verður að ákveða strax, hvort náttúruauðlindirnar séu sameign þjóðarinnar.

Rökleysan í þessu máli er slík að manni er gróflega misboðið að hér skuli vera færð fram hugmynd að breytingum á grundvallarlöggjöfinni sem ber þess öll merki að vera málamyndagerningur á milli minnihlutastjórnarinnar og þess flokks sem hefur ákveðið að verja hana vantrausti. Það æpir á mann við lestur þessa máls að það hefur tekist samkomulag milli þessara þriggja flokka um að hver fái dálítið fyrir sinn snúð þá 80 daga sem stjórnin ætlaði að vera hér við stjórnvölinn.

Auðvitað má kannski segja í ljósi þess sem gerst hefur frá því að stjórnin tók við völdum að það sé skiljanlegt að Framsóknarflokkurinn skuli hanga jafnskýrt og hann gerir á hugmyndinni um stjórnlagaþing sem ég fullyrði að hvorki Vinstri grænir né Samfylkingin hafi nokkra sannfæringu fyrir að sé skynsamleg leið (Gripið fram í: Meiri hluti þjóðarinnar.) (Gripið fram í: Meira að segja aukinn meiri hluti.) vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur ekki fengið neitt fyrir það að styðja þessa stjórn — nema fylgistap, því miður. (Gripið fram í: Ekki taka …) (Gripið fram í: Það er dálítið mikið hjá ykkur.) Framsóknarflokkurinn hefur ekkert uppskorið við það að styðja þessa minnihlutastjórn annað en fylgistap, því miður. (LB: Ertu að missa svefn yfir því?)

Það eru þrjú skilyrði sem Framsóknarflokkurinn setti fram, ég get kannski talið þau upp sem fjögur, (Gripið fram í.) og það hefur ekkert gengið eftir af því enda lýsir formaður Framsóknarflokksins því yfir við hvert tækifæri að hann sé ósáttur við störf ríkisstjórnarinnar. Hann er hins vegar ekki í þeirri stöðu að koma fram með vantrauststillögu, því miður, hann er afar ósáttur við framgang mála hér á þinginu. Skilyrðið um að ríkisstjórnin sinnti bara brýnum efnahagslegum verkefnum hefur ekki verið uppfyllt, það hefur verið rofið. Skilyrðið um að þingið starfaði einungis í skamman tíma hefur ekki verið uppfyllt, það hefur verið rofið. Framsóknarflokkurinn vildi að kosið yrði eigi síðar en 25. apríl. Hvenær verður kosið? 25. apríl! (Gripið fram í.) Ekki var gefinn einn dagur í afslátt af því.

Þá situr eftir síðasta skilyrðið sem Framsókn lagði fram fyrir því að styðja ríkisstjórnina og það var stjórnlagaþingið. Það er reyndar ekki orðað beint í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, það var talað um að stjórnlagaþinginu yrði komið á með einhvers konar almennum lögum. En í ljósi þess sem gerst hefur þessa daga sem liðnir eru frá 1. febrúar er skiljanlegt að Framsóknarflokkurinn ætli þó að reyna að kreista eitthvað út úr því að hafa ákveðið að styðja þessa stjórn. (Gripið fram í: Hann mun gera það.) Hann mun gera það, heyrist hér úr salnum. (Gripið fram í: Einmitt.) Eindrægnin er til staðar og það mun verða valtað yfir þá sem hreyfa andmælum, það mun ekki verða hlustað á alla þá sem hreyft hafa athugasemdum yfir málsmeðferðinni og hafa í frammi efnislegar athugasemdir. En hvað gerðist vorið 2007 þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tefldu fram frumvarpi eins og ég vísaði til áðan? (Gripið fram í: Eigum við að rifja það upp?) Ég ætla að rifja það upp í örstuttu máli.

Þá fór hér fram umræða um frumvarp þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jóns Sigurðssonar. Þá kom hér upp — þá var líka skammt til kosninga eins og er núna — þáverandi hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem þá var ekki ráðherra — steig hér upp mjög ábúðarfullur og lét þessi orð falla, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Annar þingmaður kom líka upp, sem nú gegnir stöðu heilbrigðisráðherra — steig hér upp vegna þess að fyrir þinginu lá frumvarp um breytingar á stjórnarskránni sem ekki var sátt um og það var skammt til kosninga. Hvað sagði hv. þingmaður á þeim tíma? Jú, með leyfi forseta:

„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga en framganga Framsóknarflokksins, sérstaklega í þessu máli, ber öll þess merki.“

Hann hefði eins getað stigið hér upp, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, og látið nákvæmlega sömu orðin falla, ekki ætti að tefla fram breytingum á stjórnarskránni í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. Hvað gerðist líka undir ræðu minni þar sem ég ræddi efnislega athugasemdir við frumvarpið? Kallar ekki fram í, virðulegi forseti, hv. þm. Birkir Jón Jónsson og segir: 70% þjóðarinnar vilja stjórnlagaþing? (BJJ: Takk fyrir að koma þessu á framfæri.) 70% þjóðarinnar vilja stjórnlagaþing. (Gripið fram í: … Framsóknarflokkinn?) Hvar er sannfæringin í málinu? Er þetta nokkuð annað en kosningatrikk (Gripið fram í: Það var löngu komið fram samkvæmt könnunum.) stutt af minnihlutastjórninni vegna þess að hún getur ekki annað? (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Ekkert nema … (Gripið fram í: … janúarmánuð á flokksþingi.) (BJJ: Farðu nú rétt með.)

Ég ætla í lok máls míns að koma að 4. gr. frumvarpsins, um stjórnlagaþingið. Mig langar til að byrja á því að rifja aðeins upp aðdraganda þess máls frá því að Framsóknarflokkurinn tefldi hér fram þingmáli um stjórnlagaþingið þar sem kjósa átti 63 þingmenn. Hugmyndin er búin að vera eins og leir í þinginu, það er búið að hnoða hana og slíta fram og til baka. Alveg frá því að framsóknarmenn komu saman á flokksþingi er þetta búið að vera eins og eitthvert órætt hugtak. (Gripið fram í: Eigum við að taka lagið bara?) Þetta er búið að vera á lofti eins og eitthvert órætt hugtak — því laust niður eins og eldingu á framsóknarþinginu, (Gripið fram í: Nei, það var búið að vera í undirbúningi …) sem er í örvæntingarfullri leit að stóra málinu sem á að snúa vondri stöðu í sókn. Nokkrum dögum eftir að þingmálið var lagt fram hér í þinginu kom fréttatilkynning frá ríkisstjórninni sem var ekki hægt að skilja á annan veg en þann að ríkisstjórnin sjálf vildi hugleiða þetta mál og kanna hvort ástæða væri til að gera þetta með einhverjum öðrum hætti. Af þeirri ástæðu kallaði ég, í umræðum um þingmál framsóknarmanna, eftir því frá ráðherrum og Framsóknarflokknum hvort von væri á einhverju öðru þingmáli um sömu hugmyndina. Það rættist úr því með því að ríkisstjórnin tók upp hugmynd Framsóknarflokksins og hnýtti, eins og ég gat um áðan, við draumabreytingum sínum á stjórnarskránni, það var sitt lítið af hverju, draumabreytingum Vinstri grænna, eins og til að mynda 2. og 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sem nú hafa reyndar verið felldar brott, en eru ekkert annað en draumabreytingar Vinstri grænna á stjórnarskránni. Þeim var hnýtt við hugmynd framsóknarmanna. Svo kom 1. gr. ekki á óvart frá Samfylkingunni sem ávallt hefur haldið því hér á lofti að kveða þurfi á um það í stjórnarskránni að náttúruauðlindirnar séu sameign þjóðarinnar. Þar fékk Samfylkingin dálítið fyrir sitt. Síðan var þarna ein ágæt grein sem ég rakti áðan, um þjóðaratkvæði, sem allir flokkar á þinginu geta verið sammála um og þá var ágætt að hafa það með. (Gripið fram í: Bara eitthvað fyrir alla.) Eitthvað fyrir alla. Í restina, og það er mjög táknrænt að það er síðasta greinin í frumvarpinu, er svo stjórnlagaþingið.

Það er nefnilega svo táknrænt. Til þess að menn fái það sem er aftast í röðinni þurfa menn að kyngja öllu hinu í leiðinni. (Gripið fram í.) Númer eitt, tvö og þrjú til að fá númer fjögur. (Gripið fram í.) Það er ein hörmungarsaga hvernig staðið hefur verið að þessu. Eina vitið er að við sammælumst um það sem augljóst er að gera, að við sammælumst um að taka breytingar á stjórnarskránni úr þeim farvegi að þurfa alltaf að ganga til kosninga að breytingum afloknum. Við skulum í leiðinni sammælast um að nota þessa fáu daga sem við erum hér á þinginu til að ræða mál sem þjóðin öll kallar eftir að séu tekin á dagskrá. (Gripið fram í: Eins og stjórnlagaþing.) (Gripið fram í: Einmitt.) Það er (Gripið fram í.) hins vegar um það að segja að jafnsammála og við getum verið um að það þurfi að koma hér á dagskrá mál sem varða skuldastöðu heimila, atvinnuleysi, greiðsluvanda og almenna rekstrarerfiðleika atvinnustarfseminnar — við getum verið sammála um þetta allt saman — er því miður úr afskaplega litlu að moða frá ágætri ríkisstjórn okkar. Hann er fátæklegur listinn yfir slík mál og eflaust gætum við klárað hann allan á dagsparti eða kannski dregið hann yfir tvo daga.