136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:29]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað skemmtilegt eða ágætt fyrir alþjóð að heyra hvernig nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins bregst við og hvernig hann lítur á einkaeignarréttarákvæði og hvað sé þjóðareign og hvað ríkiseign. Fiskurinn í sjónum er þjóðareign og í lögum um stjórn fiskveiða er tekið fram það ákvæði að fiskurinn sé þjóðareign og verði aldrei eign fárra útvalinna. (Gripið fram í.) Hann er sameign þjóðarinnar (Gripið fram í.) og útgerðarmenn hafa nýtingarréttinn á honum og þeir þyrftu, ef allt væri eðlilegt og við byggjum í eðlilegu samfélagi, að borga fyrir nýtingarréttinn og þjóðin hefði hag af auðlindinni en ekki bara fáir útvaldir. (Gripið fram í.) Þegar flokkur sem kennir sig við frelsi til athafna og gjörða er ekki með frelsi til athafna og gjörða í sjávarútvegi eða landbúnaði er einmitt (Forseti hringir.) full ástæða fyrir fólk að skoða málin og hlusta vel á ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar.