136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki skrýtið að við skulum þurfa að ræða málið þegar hv. þingmaður gerir engan mun á ráðgefandi stjórnlagaþingi eða löggjafarsamkomunni stjórnlagaþingi. Þeir sem ekki gera sér grein fyrir muninum á þessu tvennu hafa annaðhvort ekki verið að fylgjast með, hafa engan áhuga á málinu eða hafa ekki getu til að kynna sér efni málsins. (Gripið fram í: Nei …) Ég veit að hv. þingmaður hefur sem lögfræðingur fulla getu til þess að skilja þetta mál þannig að hann hefur þá annaðhvort ekki verið að hlusta (Gripið fram í.) eða ekki gefið sér tíma til þess að skoða málið.

Ég vil taka — mér sýnist tíminn vera að renna frá mér (Gripið fram í.) en ég vil gera athugasemd, ef ég fengi að nota þennan stutta tíma án frammíkalla, hæstv. forseti, við það sem segir í greinargerð með frumvarpinu, þar sem gefið er í skyn að í samningum við Evrópusambandið gæti komið til þess að eignarhald á náttúruauðlindunum yrði framselt til Evrópusambandsins nema fyrir 1. gr. þessa máls. Þeir (Forseti hringir.) sem halda því fram, eins og höfundar frumvarpsins gera, skilja greinilega ekkert hvað felst í viðræðum og samningum við Evrópusambandið (Forseti hringir.) og það er enn eitt flækjustigið í umræðunni um sameign þjóðarinnar.