136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð.

Ég lét þess getið í ræðu minni áðan að stjórnlagaþingshugmyndin hefði ekki fengið nokkurn tíma til að þroskast í þjóðfélagsumræðunni. Það sér það hver maður sem vill og það þarf ekki annað en að hlýða á ræður þingmanna annarra flokka til að sjá að þetta er framsóknarhugmynd, þetta er hugmynd Framsóknarflokksins (Gripið fram í: Er það nokkuð svo slæmt?) — hún þarf ekki að vera slæm fyrir því en það er ekkert sem réttlætir það að við, í aðdraganda kosninga, hlaupum upp til handa og fóta og föllumst á að breyta stjórnarskránni þrátt fyrir að lýðræðishópur Framsóknarflokksins hafi gefið sér gott rúm og tíma til þess að komast að þessari niðurstöðu.

Það er ekki bara það sem er að hugmyndinni, að hún hafi ekki verið rædd nægilega vel í þinginu, heldur er líka málið í heild sinni mótsagnakennt. Lagðar eru til efnislegar breytingar um leið og ákvörðunarvald um breytingar á stjórnarskránni er fært í þennan farveg. Mér fannst ég eyða alveg nægum tíma í þetta atriði í fyrri ræðu minni og þurfi ekki að fara að endurtaka það hér. Ég hafna því að það sé eitthvert sérstakt markmið okkar í ræðum um þetta mál að koma höggi á Framsóknarflokkinn. En við látum það ekki gerast hér á þinginu að breytingar á stjórnarskránni verði gerðar í aðdraganda kosninga og í kjölfar pólitískra aðstæðna sem eru afar sérstakar, og hafa með það að gera að Framsóknarflokkurinn er í stöðu til að fá fram mál af þessum toga gegn því að verja ríkisstjórnina falli.