136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom aðallega hér upp til þess að vekja athygli þingmanna á því að þessi hugmynd er ekki einhver skyndihugmynd. Henni laust ekki niður eins og eldingu á flokksþingi framsóknarmanna, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson orðaði það hér, heldur var unnið að henni um margra mánaða skeið. Það er þess vegna sem ég kom hér upp, til að bera blak af því ágæta starfi sem menn unnu á vettvangi flokksins. Hér er ekki um einhverja skyndilausn að ræða. Hv. þingmaður segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu ekki að reyna að koma neinu sérstöku höggi á Framsóknarflokkinn en ég held að hv. þingmaður hafi talað mun oftar um Framsóknarflokkinn en sjálfa stjórnarskrána í ræðu sinni áðan. (Gripið fram í.) Svo oft nefndi hann Framsóknarflokkinn á nafn í ræðu sinni.

Ég vil minna á það að lokum, herra forseti, að yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar er fylgjandi því að þetta nái fram að ganga. Við erum að vinna að þessu máli á forsendum mikillar vinnu sem m.a. hefur verið unnin af fólkinu í landinu sem er í Framsóknarflokknum eða í öllum öðrum flokkum. (Forseti hringir.) 70% þjóðarinnar hafa lýst yfir miklum áhuga á því að þetta mál nái fram að ganga og því fær Sjálfstæðisflokkurinn ekki breytt.