136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

um fundarstjórn.

[20:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ítreka spurningu hv. þm. Jóns Magnússonar um það hvernig vinnubrögðin verða fram eftir kvöldi. Það er ljóst að við munum ræða þetta mikilvæga mál mjög ítarlega, ekki bara út af dæmalausum vinnubrögðum Vinstri grænna, Framsóknarflokks, Frjálslyndra og Samfylkingar í þessu máli, þar sem beinlínis er verið að traðka á stjórnarskránni, heldur ekki síður út af því hvað málið í rauninni inniheldur.

Ég vil í fyrsta lagi ítreka spurningu hv. þingmanns áðan. Í öðru lagi vil ég spyrja forseta að því hvort ekki verði annað mál tekið inn á milli á dagskrá þingsins og þá er ég að tala um atvinnumál sem er á dagskrá eins Helguvík. Ég veit að Vinstri grænir eru á móti Helguvík en ég held að við verðum að reyna að sneiða fram hjá slíkum andmælum því að málið er brýnt og mikilvægt.

Ég spyr forseta: Hvernig verður vinnubrögðum háttað hér fram eftir kvöldi? Er ekki möguleiki að koma á dagskrá mikilvægum efnahags- og atvinnumálum og þá nefni ég sem dæmi (Forseti hringir.) mál frá fjármálaráðherra vegna (Forseti hringir.) vaxtabóta og ekki síður málefni Helguvíkur?