136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemst ekkert undan því að það eru tvö kerfi, tvær stofnanir í þjóðfélaginu, Alþingi hið gamla frá 930 og hið nýja stjórnlagaþing, sem hafa heimild til að leggja fyrir þjóðina tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Það skyldi nú ekki að vera að þjóðin geti orðið ansi rugluð þegar koma tvær tillögur sem kannski ganga þvert á hvor aðra þar sem hvor um sig bannar hitt? (Gripið fram í.)

Það gæti nefnilega gerst í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og þá vil ég spyrja hv. þingmann um efnið. Hér fylgir með fylgiskjal sem hv. þingmaður sagði áðan að hefði í rauninni ekkert að segja fyrir nýtt komandi þing. Það gæti gerst að inn á þetta stjórnlagaþing kæmu menn sem ráðandi flokkar á Alþingi væru ekkert voðalega sáttir við. (Gripið fram í.) Það gæti gerst. Það gæti t.d. gerst að Sjálfstæðisflokkurinn fengi meiri hluta á þessu stjórnlagaþingi (Gripið fram í.) og þá er spurning hvernig … (Gripið fram í: Er þetta hótun?) Nei, nei, ég er bara að segja að allt getur gerst, sjávarútvegsmenn (Gripið fram í.) eða einhverjir slíkir. Hvað gera menn þá?