136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:05]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir afsalar ekki Alþingi réttinum til að breyta stjórnarskránni. Á hinn bóginn er hér tillaga um að sett verði á fót stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni. Þannig er það.

Þá ætla ég að nefna hitt. Hv. þingmaður er dálítið upptekinn af fylgiskjali í greinargerð þar sem dregið er fram (Gripið fram í.) hvernig lög gætu litið út sem næsta þing setur, og hv. þm. Pétur Blöndal verður, að ég tel, að öllum líkindum fulltrúi á löggjafarsamkundunni á næsta þingi. Hv. þingmaður getur þá komið að því og mun koma að því að setja þau lög sem koma til með að gilda um stjórnlagaþingið. Hann getur haft mikið um það að segja hvernig þau lög koma til með að líta út og hv. þingmaður er á engan hátt bundinn af fylgiskjali í greinargerð (Forseti hringir.) um það hvernig þetta gæti litið út. (Gripið fram í.)