136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef þjóðin veitir Sjálfstæðisflokknum það brautargengi að hann ráði einhverju á Alþingi — hv. þingmaður óttast það, hann óttast sem sagt dóm þjóðarinnar.

Ég spurði hvort það gæti verið að menn væru að breyta þessu í 1. gr., með náttúruauðlindirnar, og í 3. gr., um þjóðaratkvæðagreiðslur, vegna þess að þeir ætli ekki að ganga lengra, þeir ætli sér ekki að breyta meiru. Ég vil gera gjörbreytingar á stjórnarskránni. Ég vil að hún fjalli aðallega um mannréttindi því að stjórnarskrá er ekkert annað en mannréttindi. Hún á að vernda borgarann fyrir öðrum borgurum og vernda hann fyrir ríkinu. Það er aðalmarkmið stjórnarskrárinnar. Hún á fyrst og fremst að fjalla um mannréttindi en ekki um forsetann og slíkt eins og er í dag.

Ég er mjög hlynntur því að stjórnarskránni verði breytt gjörsamlega en ég óttast að hér búi eitthvað meira á bak við, að áhuginn á því að breyta stjórnarskránni og setja stjórnlagaþing sé alls ekki til staðar.