136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:32]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem hefur á sér þann sérstaka og raunar algerlega einstaka blæ að vera flutt í fullkominni andstöðu við stóran hluta þingheims. Það er hins vegar akkúrat núna sem skiptir mjög miklu máli á Alþingi Íslendinga að allar breytingar á mikilvægri löggjöf, ég tala nú ekki um breytingar á stjórnarskipunarlögum, séu unnar og gerðar að vel athuguðu máli, vel undirbúnar og vel rökstuddar.

Ástandið hjá okkur á Íslandi er þannig um þessar mundir og stjórnmálaleg óvissa að það er algerlega óforsvaranlegt að ganga til breytinga á stjórnarskipunarlögum með þeim hætti sem hér er að unnið.

Hins vegar er ástæða til að rifja upp og undirstrika að frumvarpið er að því er virðist notað af hálfu ríkisstjórnarinnar sem einhvers konar trygging eða baktrygging fyrir því að Framsóknarflokkurinn tryggi líf ríkisstjórnarinnar eftir að til hennar var stofnað með mjög undarlegum hætti við alveg einstakar aðstæður á Alþingi Íslendinga þar sem ofbeldi var beitt gagnvart Alþingi.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því síðustu daga og ekki síst í dag hvernig kaupin hafa gerst á eyrinni milli flutningsmanna þessa frumvarps. Það vakti athygli mína þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps — og hefur einn flutningsmanna sýnt okkur þá virðingu að vera hér viðstaddur enda er hann þekktur fyrir vasklega framgöngu í þinginu — (Gripið fram í.) þegar fjármálaráðherra veittist að varaformanni Framsóknarflokksins í umræðum í dag. Þessi umhyggja fyrir Framsóknarflokknum birtist með mjög undarlegum hætti af hálfu hæstv. fjármálaráðherra þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson leyfði sér í umræðum utan dagskrár að bera upp nokkrar fyrirspurnir. Þá notaði hæstv. fjármálaráðherra tækifærið til að berja á varaformanni Framsóknarflokksins. Hvað er eiginlega á ferðinni? Hvers konar heilindi eru á milli þeirra aðila sem standa að breytingum á stjórnarskránni? (Gripið fram í.)

Öðruvísi mér áður brá þegar hv. þáverandi þingmaður Steingrímur J. Sigfússon beitti sér af miklu afli gagnvart ráðherrum Framsóknarflokksins og krafði þá svara við spurningum. Þá voru ekki gerðar athugasemdir við það að þær væru óundirbúnar eða lítt undirbúnar og ráðherrarnir af hálfu Framsóknarflokksins í þáverandi ríkisstjórn ættu erfitt um vik með að svara. Nei, núverandi fjármálaráðherra gerir allt aðrar kröfur til samstarfsmanna sinna, framsóknarmanna, um þessar mundir en hann vildi gera til ráðherra á sínum tíma þegar hann var óbreyttur þingmaður.

Það er annað sem vekur athygli í undirbúningi þessa máls. Breytingar á stjórnarskipunarlögunum eru fluttar sem þingmannafrumvarp. Allt gott um það, en annar stjórnarflokkurinn á ekki aðild að þessu. Frumvarpið virðist vera unnið á vegum forsætisráðuneytisins á kostnað forsætisráðuneytisins. Það er ekki unnið á vegum stjórnmálaflokkanna sem að því standa fyrir fjármuni sem stjórnmálaflokkunum er ætlað til að vinna að slíkum málum eða sérfræðikostnað og fjármuni sem eru ætlaðir til slíkrar vinnu til að vinna að þessu frumvarpi. Nei, það er unnið eins og um stjórnarfrumvarp væri að ræða og síðan koma Frjálslyndi flokkurinn og Framsóknarflokkurinn að einhverju leyti að þessu máli. Allt í kringum þetta frumvarp og þetta mál er með miklum ólíkindum.

Nú ætla stjórnarflokkarnir og Framsókn að fylgja þeirri einstöku framgöngu eftir að breyta stjórnarskránni, grundvelli lýðræðisskipunar okkar, með fáheyrðum vinnubrögðum á Alþingi eins og ég hef farið yfir.

Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur því að ráðist verði í umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni án þess að tími gefist til vandaðrar málsmeðferðar. Það hlýtur að vera eðlilegt. Við sjálfstæðismenn gagnrýnum einnig harðlega að ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða okkar við endurskoðun stjórnarskrárinnar og alls ekki kallað eftir samstarfi við okkur. Nú blasir við að gert er ráð fyrir breytingum á stjórnarskránni í algerri andstöðu við einn af stjórnmálaflokkunum og eins og hér hefur margkomið fram í dag hefur það ekki gerst í 50 ár að rofinn sé friðurinn á Alþingi með þessum hætti.

Sjálfstæðisflokkurinn telur engu að síður þörf á breytingum á stjórnarskránni. Ég vil að það komi skýrt fram. Auðvitað þurfum við að endurskoða stjórnarskrána og við þurfum að gera það á heildstæðan og vandaðan hátt með ígrunduðum hætti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tillögur í þeim efnum. Allt annað tal er úr lausu lofti gripið og það er rangt að við sjálfstæðismenn höfum ekki verið tilbúnir til að standa að breytingum.

Við teljum eðlilegt að ganga til þessa verks með breytingum á 79. gr. stjórnarskrárinnar eins og margsinnis hefur komið fram í umræðunni. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hefur gert rækilega grein fyrir því.

Það er gagnlegt fyrir okkur, ekki síst þá sem hafa unnið í sérnefndinni sem hefur fjallað um frumvarpið, að fara aðeins yfir það hvernig aðrar þjóðir hafa staðið að breytingum á stjórnarskránni. Hv. þm. Birgir Ármannsson vakti athygli á því hvernig Svíar eru núna að vinna að breytingum á sinni stjórnarskrá. Sú vinna hefur staðið allar götur frá árinu 2004. Þá skipaði ríkisstjórnin sænska fulltrúa allra þingflokka til að undirbúa stjórnarskrárbreytingar. Um er að ræða mjög víðtæka endurskoðun hjá Svíunum. Samkvæmt upplýsingum sem við höfum hafa fjölmargir ráðgjafar og sérfræðingar verið kallaðir til þeirrar vinnu og gert er ráð fyrir því að ný stjórnarskipunarlög taki gildi hjá Svíum 2011 eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu.

Þarna er unnið með mjög vönduðum hætti og hv. þm. Kristrún Heimisdóttir hefur m.a. bent á að við þurfum að vinna með sama hætti og Svíar með því að rannsaka, undirbúa, átta okkur rækilega á hverju þarf að breyta og kalla til sem flesta í samfélaginu af fræðasviði, af vettvangi stjórnmála og af vettvangi vísindamanna í stjórnarskipun. Ég nefni þetta vegna þess að það skiptir miklu máli að það sé vel undirbúið sem lengi á að standa.

Því hefur verið ranglega haldið fram að engar breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni frá upphafi. Þingmenn hafa leyft sér að halda því fram í ræðustól á Alþingi að engar breytingar hafi verið gerðar. Ég vil leiðrétta þær rangfærslur sem fram hafa komið, reyndar ekki í umræðunni núna en hefur gerst áður og ég hlustaði á þær ræður.

Það er rétt að rifja aðeins upp við þessa umræðu — ég tel að það sé mjög gagnlegt — hvernig staðið var að breytingum og hverju var verið að breyta í stjórnarskránni 1995. Í apríl 1994 sendi stjórnarskrárnefnd formönnum þingflokka á hinu háa Alþingi tillögu um breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem þá var mjög mikið fjallað um. Tillaga til þingsályktunar var lögð fram 16. júní 1994 — það er rétt að rifja það upp — af Matthíasi Bjarnasyni, þáverandi þingmanni, Valgerði Sverrisdóttur sem hér er talsmaður meiri hluta sem vill ryðjast fram með þessar breytingar, Gunnlaugi Stefánssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni og Kristínu Einarsdóttur.

Fimm þingmenn tóku til máls við umræðuna um málið í jafnmörgum ræðum og stóð umræðan í nokkurn tíma. Síðan var með ályktun Alþingis — þetta var aðdragandi — 17. júní 1994 í tilefni 50 ára lýðveldis á Íslandi samþykkt að stefnt skyldi að því að ljúka endurskoðun alls VII. kafla stjórnarskrárinnar fyrir næstu reglulegar alþingiskosningar. Við endurskoðunina skyldi höfð hliðsjón — og er ég þá að vitna hér, með leyfi forseta, í texta sem ég hef hér við höndina — af áðurgreindum „tillögum stjórnarskrárnefndar frá 5. apríl 1994“ en einnig skyldi fjallað um önnur ákvæði kaflans, svo sem um skipan skattamála, ríkisborgararétt og stöðu sveitarfélaga. Á síðari stigum var enn fremur ákveðið að taka til endurskoðunar ákvæði um trúfrelsi í VI. kafla.

Frumvarpið sem ég var að vísa til og var undirbúið var síðan lagt fram 15. desember 1994 af Geir H. Haarde, Finni Ingólfssyni, Ragnari Arnalds, Kristínu Ástgeirsdóttur og Sigbirni Gunnarssyni. Blessuð sé minning hans. Fyrsta umræðan fór fram 19. desember 1994, 2. umr. 23. febrúar 1995 og 3. umr. 24. febrúar 1995. Við umræðuna tóku 15 þingmenn til máls í samtals 39 skipti svo það er ekki í fyrsta skipti sem verið er að ræða hér stjórnarskipunarlög í umfangsmikilli umræðu. Stóðu umræðurnar í alllangan tíma.

Þetta vil ég rifja hér upp, virðulegi forseti, vegna þess að umræður og meðferð mála hvað varðar breytingar á stjórnarskránni hafa verið umfangsmiklar á Alþingi þegar breytingar hafa verið gerðar og ég vísa m.a. til þess að í þeirri vinnu sem unnin var þegar mannréttindaákvæðinu var breytt var kallað eftir áliti og tillögum frá almenningi. Það var auglýst sérstaklega og það væri ágætisinnlegg að lesa upp auglýsingu frá stjórnarskrárnefnd Alþingis sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrárnefnd Alþingis gefur þeim, sem þess óska, kost á að koma með skriflegar athugasemdir við frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands númer 33/1944, með síðari breytingum, 297. mál. Meginefni frumvarpsins er tillögur til breytinga á VII. kafla stjórnarskrárinnar sem m.a. hefur að geyma mannréttindaákvæði hennar. Frumvarpið liggur frammi á skjalaskrifstofu Alþingis.“

Þarna kallaði sú nefnd sem vann að breytingunum eftir aðkomu og áliti almennings og vafalaust hefur verið rík ástæða til að gera það enda var mjög vandlega að þessu öllu unnið.

Þetta vildi ég, virðulegi forseti, nefna vegna þess að mér finnst umræðan um það frumvarp sem er til meðferðar á þessu þingi, til breytinga á stjórnarskipunarlögunum, vera með þeim hætti að ýmsir hv. þingmenn líti svo á að það sé fullkomlega eðlilegt að hrapa að breytingum á stjórnarskránni.

Þegar við lítum á forsendurnar sem flutningsmenn gefa sér fyrir breytingum á stjórnarskipunarlögunum er margt athyglisvert þar. Það hefur margsinnis komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að það sé kallað eftir lýðræðislegum umbótum. Því er haldið alveg miskunnarlaust fram að hrun hafi orðið í samfélagi okkar af völdum stjórnarskipunarinnar. Kerfishrun er það kallað og ástæðan fyrir því að gengið er til þessara breytinga á stjórnarskránni er m.a. viðbrögð mótmælenda á Austurvelli, aðgerðir mótmælenda kalla eftir breytingum á stjórnarskránni (Gripið fram í.) og það þarf að bregðast við kröfum um endurreisn atvinnulífsins með því að breyta stjórnarskránni. Allt eru þetta fullyrðingar sem fá ekki staðist. Til að uppfylla þessi áform um lýðræðisumbætur er lagt fram frumvarp á hinu háa Alþingi til breytinga á stjórnarskránni og jafnframt er lagt fram frumvarp til breytinga á kosningalögum til að koma á persónukjöri til að uppfylla kröfuna um lýðræðisumbætur.

Þörfin fyrir lýðræðisumbæturnar var hins vegar ekki meiri að mati stjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins en svo að þegar er búið að ýta því frumvarpi til hliðar. Það er ekki lengur á dagskrá, að því er virðist, hjá ríkisstjórninni að koma á þessu persónukjöri. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Það bendir allt til þess að ekki hafi þurft meira til en óróleika í prófkjöri hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum til að ýta þessu mikla og mikilvæga lýðræðisumbótamáli til hliðar. Það er ekki lengur á dagskrá.

Óttinn við að kjósendur tækju fram fyrir hendurnar á flokksmönnum þegar búið var að velja í prófkjöri var svo mikill að hætt var við þetta. Það var ekki lengur ástæða til að ganga til þessara lýðræðisumbóta hvað varðaði kosningalögin. Allt er þetta með miklum ólíkindum.

Þá vík ég aðeins að vinnunni í sérnefnd sem hefur fjallað um stjórnarskipunarlögin. Ég þakka hv. þingmönnum sem þar störfuðu fyrir samstarfið og formanninum fyrir að þola okkur þó að við værum ekki sammála. Það er mjög mikilvægt að vinna vel í slíkri nefnd og ég tel að við sjálfstæðismenn í nefndinni höfum svo sannarlega lagt okkur fram við að tefla fram sjónarmiðum okkar í þeim tilgangi að sjálfsögðu að bæta þá löggjöf sem að er stefnt. Það er mikið gert úr því að 11 fundir hafi verið haldnir í nefndinni. Ég verð bara að viðurkenna að mér þykir ekki mikið að halda 11 fundi í nefndinni, misjafnlega langa.

Þegar maður lítur yfir hvað gerðist á þessum 11 fundum og þegar ég hlusta á það í ræðustólnum, ekki síst frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni sem lætur sig vanta í þessa umræðu, að það hafi skort á efnisumræðu á þessum nefndarfundum er kannski ástæða til að vekja athygli á því að á langflestum þessara funda var tekið á móti umsagnaraðilum, hlýtt á mikilvægt innlegg þeirra og hlýtt á þá gera grein fyrir afstöðu sinni.

Á fyrsta fundinum sem var mjög stuttur var einungis kjörinn formaður og varaformaður, en strax á öðrum fundi kom til nefndarinnar ráðgjafarnefndin sem vann þetta frumvarp væntanlega á grundvelli hugmynda flutningsmanna. Ráðgjafarnefndin fór yfir frumvarpið og sömuleiðis var kallaður til sérstakur fulltrúi úr forsætisráðuneytinu á þessum fundi, ágætur starfsmaður forsætisráðuneytisins Páll Þórhallsson en auk þess voru Björg Thorarensen, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, Bryndís Hlöðversdóttir, forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, sem reyndar kom einungis á þann eina fund, og síðan Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, sem var sérlegur fulltrúi Framsóknarflokksins í ráðgjafarnefndinni.

Síðan voru þriðji, fjórði, fimmti, sjötti og sjöundi fundirnir hlaðnir yfirferð um umsagnir. Einungis var farið yfir umsagnir og hlustað á umsagnaraðila en þegar búið var að því var strax á fyrsta fundi þar á eftir reynt að rífa málið út án þess að veruleg efnisumræða gæti farið fram. Svo er talað um það hér og kvartað undan því að við sjálfstæðismenn höfum gert athugasemdir við þessi vinnubrögð. Það átti að rífa málið út strax þegar búið var að fara yfir það með umsagnaraðilum og lítill sem enginn tími gefinn til að fara í efnisumræðu, ég tala nú ekki um að gera tilraun til að ná einhverri sátt um þetta mál.

Á þeim fundi þegar málið var tekið út í andstöðu við okkur sjálfstæðismenn óskuðum við eftir því að gerð yrði tilraun til að ná samkomulagi. Við teljum svo mikilvægt að það sé samkomulag um þær breytingar á stjórnarskránni sem á að gera.

Ég vona svo sannarlega að ekki sé öll nótt úti enn þótt það sé orðið kvöldsett núna á þessum drottins degi. Það kemur dagur eftir þennan dag og ég vona sannarlega að forustumenn sérnefndarinnar beiti sér fyrir því að reynt verði að ná sátt um þær breytingar sem kunna að verða gerðar. Nefndarmenn vöktu sérstaka athygli á því fyrr í umræðunni að ef til vill væri hægt að ganga til breytinga.

Það vakti athygli mína að nefndarálitið sem liggur hér fyrir sem þingskjal frá meiri hluta nefndarinnar var lagt fram fyrir nokkru og það er algerlega óbreytt frá því að það var fyrst lagt inn í nefndina. Það var ekkert litið til athugasemda sem var verið að gera og ekkert litið til þeirra hvatninga sem við höfðum í frammi, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, eða tekið tillit til sjónarmiða okkar.

Það sem vakti hins vegar enn meiri athygli mína var að á síðasta fundinum gerði einn af flutningsmönnum frumvarpsins, Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, athugasemdir við nefndarálitið. Þeim athugasemdum var ýtt til hliðar meðan við sátum fundinn. Það var efnt til meirihlutafundar strax að loknum fundi og þá bjóst ég við að gerð yrði einhver breyting á nefndarálitinu á grundvelli þeirra athugasemda sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hafði haft í frammi. Engar breytingar voru gerðar, ekkert tillit var einu sinni tekið til athugasemda frá flutningsmönnum frumvarpsins. (VS: … fleiri athugasemdir?) Hann setti fram athugasemdir og gerði grein fyrir því að hann væri með athugasemdir á fundi þannig að við urðum vitni að því. Hv. þm. Jón Magnússon sem er í salnum getur borið vitni um það á eftir.

Ef það hefði verið brotið á bak aftur er það væntanlega skýringin núna en það lá alveg fyrir að hann var með athugasemdir. Þær birtust hins vegar ekki í nefndarálitinu því að það var algerlega stafrétt óbreytt eins og það var sett fram fyrst. Eitthvað hefur gengið á á bak við tjöldin í þessu öllu saman. Ég hlýt að gera athugasemdir við þetta vegna þess að ég vonaðist til þess að okkur auðnaðist að ná sátt þrátt fyrir þessi vinnubrögð.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson undrast það að við gerum athugasemdir við frumvarpið og óskum eftir breytingum. Nánast hefur verið látið að því liggja að litlar eða engar athugasemdir hafi komið fram. Það er öðru nær. Eins og rækilega hefur komið fram í þessari umræðu hafa umsagnir um frumvarpið verið mjög neikvæðar. Það er gegnumgangandi, má segja, að umsagnaraðilar hafi kvartað undan því hve skammur tími væri til verksins nema reyndar ASÍ og BSRB en þær umsagnir virðast algerlega hafa verið pantaðar og er þeim stóru samtökum til skammar. Þegar nokkurra síðna bréf er sent til þeirra þar sem óskað er eftir umsögn um breytingar á stjórnarskránni leyfa ASÍ og BSRB sér að senda örstutt bréf um að þeir fagni þessu öllu saman.

Síðan kemur röð sérfræðinga, lögfræðinga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjölmargra merkra aðila sem gerir stórkostlegar athugasemdir við frumvarpið. Ég get ímyndað mér að það væri hægt að skrifa í öllum lagadeildum háskólanna á Íslandi margar doktorsritgerðir sem fjölluðu um athugasemdir um stjórnarskipunarlagabreytingarnar sem hér er fjallað um.

Þær eru mjög athyglisverðar, margar hverjar, og ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að lesa það allt saman upp en það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn að fá til okkar athugasemdir eins og frá Ragnhildi Helgadóttur, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík, Davíð Þorlákssyni lögfræðingi, Davíð Þór Björgvinssyni, dómara við Mannréttindadómstólinn í Evrópu — mjög athyglisverð umfangsmikil umsögn kom frá Davíð Þór Björgvinssyni sem mörgum þingmönnum er að góðu kunnur þar sem hann fer á þessum örstutta tíma af mikilli vandvirkni ofan í frumvarpið og gerir margar athugasemdir.

Þegar hefur verið gerð grein fyrir athugasemdum Sigurðar Líndals. Hann þarf ekki að kynna sérstaklega hér, svo þekktur sem hann er.

Landsvirkjun gerir mjög alvarlegar athugasemdir og ég vitna til athugasemda Landsvirkjunar, með leyfi forseta:

„Ekki verður því komist hjá því að benda á að sá tími sem veittur er af hálfu Alþingis til umfjöllunar og umsagnar um svo viðamikið mál er afar stuttur.“ Síðar segir, með leyfi forseta:

„Landsvirkjun telur að nauðsynlegt sé að slík umræða og skoðanaskipti fari fram með faglegum og vönduðum hætti áður en ákvæði af þessum toga er tekið upp í íslensku stjórnarskrána.“ — Það er verið að fjalla um 1. gr. — „Það gerist ekki á nokkrum dögum. Þar til slík opin og hreinskiptin umræða hefur farið fram leggur Landsvirkjun til að frestað verði að taka inn í íslensku stjórnarskrána efnisákvæði 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins.“

Það er ekki á hverjum degi sem Alþingi fær umsögn frá Landsvirkjun, þessari lykilstofnun íslenska samfélagsins, þar sem fjallað er með þessum hætti um lagabreytingar. Það er verið að fjalla um stjórnarskrána.

Norðurál gerir athugasemdir. Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik, taka undir þær athugasemdir. Samorka og fleiri aðilar í orkugeiranum gera athugasemdir og vara við afgreiðslu þessa máls eins og það er. Samtök atvinnulífsins, Landssamband smábátaeigenda og Viðskiptaráð sömuleiðis. Orkustofnun gerir mjög alvarlegar athugasemdir. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga komu á fund nefndarinnar og gerðu auk þess mjög veigamiklar skriflegar athugasemdir þar sem varað er við breytingum á stjórnarskránni. Ég ætla að leyfa mér að vitna til athugasemda frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá lýðveldisins er grundvallarlöggjöf þessa lands sem öllum ber að virða. Þannig er stjórnarskránni ætlað að vera hafin yfir dægurþras og sveiflur í stjórnmálum. Vegna mikilvægis stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að stjórnskipunarlög séu sett að vel ígrunduðu máli og í sem mestri sátt.“

Síðar segir:

„Tilgangur ákvæðisins“ — þ.e. 1. gr. — „er fremur óljós og sömuleiðis hvaða áhrif ákvæðinu er ætlað að hafa.“

Þannig mætti lengi telja, hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vitna frekar í þessar umsagnir en það er alveg ljóst að hvað varðar 1., 2. og 3. gr. eru margvíslegar athugasemdir gerðar af þeim aðilum sem veittu umsagnir. Hvað varðar 4. gr. þar sem stjórnlagaþingið er til umfjöllunar er það auðvitað alveg sérstakur kapítuli út af fyrir sig.

Umfjöllun um stjórnlagaþingið tók nokkra kippi, má segja, vegna þess að eftir að kostnaðarmat lá fyrir var gert ráð fyrir því að á grundvelli frumvarpsins eins og það var upphaflega þyrfti að kosta til stjórnlagaþings mjög háum fjárhæðum. Þar var um að ræða 1,2–2,2 milljarða eftir því hvernig útfærslan yrði þannig að þarna var um verulegar fjárhæðir að ræða. Eftir að stjórnarliðarnir og fulltrúar Framsóknarflokksins höfðu farið höndum um kostnaðarmatið frá fjármálaráðuneytinu virtust þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta gæti ekki gengið, það gengi ekki ofan í þjóðina að efna til stjórnlagaþings sem kostaði á þriðja milljarð króna auk þeirrar óvissu sem frumvarpið skapaði. Þess vegna var kallað eftir breyttu mati frá fjármálaráðuneytinu.

Áður en kostnaðarmatið frá fjármálaráðuneytinu var lagt fyrir nefndina kom fram að það gætu verið um það bil 400 millj. sem stjórnlagaþing í breyttri mynd kostaði. Sú varð niðurstaðan. Það kom kostnaðarmat frá fjármálaráðuneytinu sem sagði að miðað við átta mánaða starfstíma mundi þetta kosta 424 millj. og ef starfstíminn væri 12 mánuðir, og þar með var náttúrlega búið að minnka þetta allt saman mjög mikið, væri kostnaðurinn 524 millj. þegar tekinn var inn kostnaður vegna kosninga fulltrúa á stjórnlagaþing og einnig kostnaðurinn við þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið. Það tókst að koma þessum kostnaði samkvæmt þá breyttu fyrirkomulagi niður í þessar fjárhæðir.

Hvað um það, kostnaðurinn er vissulega mikill en aðalatriðið er hins vegar það sem ég vil gera alveg sérstakar athugasemdir við, að hér er gert ráð fyrir því að ýta Alþingi Íslendinga til hliðar samkvæmt 4. gr. frumvarpsins, efna til stjórnlagaþings sem tekur stjórnarskrárvaldið frá Alþingi Íslendinga. Það er algerlega óásættanlegt að mínu mati.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt til að miklu fremur verði farin sú leið að stjórnlagaþingið væri ráðgefandi. Ég tel að það sé mjög góður kostur fyrir okkur Íslendinga að efna til umfangsmikillar umræðu almennings og kalla til með kosningu fulltrúa á stjórnlagaþing sem fjallaði um málið með sérfræðingum áður en það kæmi endanlega til afgreiðslu á Alþingi. Það að kjósa stjórnlagaþing við hliðina á Alþingi Íslendinga og ætlast til þess að Alþingi veitti umsögn um tillögur frá stjórnlagaþinginu er að mínu mati algerlega óásættanlegt form þegar verið er að gera breytingar á stjórnarskipunarlögunum.

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnarskipunar íslenska lýðveldisins. Hún mælir annars vegar fyrir um reglur sem fjalla um vald handhafa ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, og hins vegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisvalds gagnvart almenningi í landinu.

Ef okkur tekst sem sagt ekki að hægja á þeirri vegferð stendur til að keyra í gegn á Alþingi breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins á fáeinum dögum. Ég hef vísað til þess að bæði í Svíþjóð og þegar við höfum sjálf breytt stjórnarskránni hafa menn lagt mikla áherslu á að gefa sér góðan tíma. Þess vegna hljótum við að harma að þessi háttur sé hafður á og lýsa mikilli ábyrgð á hendur bæði flutningsmönnum og þeim sem vilja standa með þessum hætti að málum á hinu háa Alþingi.

Eins og ég sagði áður er ekki öll nótt úti enn. Ég vona svo sannarlega að okkur sjálfstæðismönnum hafi tekist með þessari umræðu að vekja athygli flutningsmanna og annarra þingmanna sem hafa fylgt þessu frumvarpi gjörsamlega í blindni. Ég heyri á ýmsum þingmönnum að þeim er ekki rótt. Ég vona þess vegna að þeir hinir bestu menn í stjórnarliðinu og í Framsóknarflokknum — ég veit að þar er margt gott fólk sem vill leggja hönd að — láti sér segjast og falli frá þeim ótrúlegu áformum að breyta stjórnarskránni með þeim hætti sem hér er lagt til.

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta þetta duga og vona svo sannarlega að forseti Alþingis þurfi ekki að standa frammi fyrir því að láta greiða atkvæði um löggjöf sem víkur forseta Alþingis og Alþingi til hliðar. Það er óásættanleg niðurstaða, virðulegi forseti.