136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:13]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér í hliðarsal er formaður stjórnarskrárnefndar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Hv. þm. Birkir J. Jónsson sem er einn af flutningsmönnunum hefur verið hér af og til í kvöld. Þar með er upptalið af hálfu þeirra sem styðja þetta mál.

Ekki hefur farið mikið fyrir öðrum flutningsmönnum þessa frumvarps og það væri fróðlegt að vita hvort einhverjir þeirra, aðrir en hv. þm. Birkir Jón Jónsson, séu í húsinu. Það er einkennilegt að forsvarsmenn Samfylkingarinnar í þessu máli, flutningsmenn, fulltrúar í stjórnarskrárnefnd, skuli ekki vera við þessa umræðu og ekki einu sinni til að hlusta á ræður þeirra manna sem sitja í stjórnarskrárnefnd.

Látum vera að menn vilji ekki sitja hér og hlusta á allar ræður vegna þess að það hefur berlega komið fram að sjálfstæðismenn eiga helst ekki að hafa skoðun á málinu. Einkennilegt er samt að vilja ekki einu sinni heyra sjónarmið þeirra manna sem sátu með þeim í nefndinni. Ég hlýt að biðja forseta í fyrsta lagi að gefa upp hvort þessir aðilar séu í húsinu og svo hitt hvort von sé á þeim hingað.