136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:23]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel eðlilegt að fundi verði frestað núna og honum fram haldið á morgun þar sem svo háttar til að flutningsmenn þessa frumvarps eru ekki viðstaddir. Það er komið fram undir miðnætti, það er eðlilegt að sýna stjórnarskránni, þinginu og þjóðinni þá virðingu að ræða breytingar á stjórnarskipunarlögum í björtu.

Ég er næstur á mælendaskrá. Ég hef verið að fylgjast með umræðum í dag og ég ætla að víkja máli mínu m.a. að atriðum sem komu fram í ræðum hv. þingmanna Atla Gíslasonar, Ellerts B. Schrams og Lúðvíks Bergvinssonar, sem sitja allir í sérnefnd í stjórnarskrármálinu, og mér finnst lágmark að þeir séu viðstaddir umræðuna. Ég ítreka þá ósk mína, virðulegi forseti, að fundi verði slitið og boðað til nýs fundar þannig að þeir sem ég vil eiga orðastað við verði viðstaddir þá umræðu.