136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er einsýnt að þessum fundi verður að fresta fyrst flutningsmenn frumvarpsins geta ekki fylgt eftir sínu eigin frumvarpi og sjá ekki sóma sinn í því að mæta hér og vera við umræðuna þegar verið að ræða stjórnarskrá lýðveldisins og við þingmenn sem viljum taka þátt í umræðunni og eiga við þá orðastað þurfum að horfa undir iljarnar á þeim út úr húsinu á fyrsta degi sem málið er rætt hér í 2. umr. Það gengur ekki. Ég geri fortakslausa kröfu um að málinu verði frestað þar til hæstv. ráðherrar verði komnir hér í hús til að svara fyrir sitt frumvarp. Það er móðgun við þingið, þjóðina og stjórnarskrána að flutningsmenn til breytinga á stjórnarskránni séu ekki viðstaddir þessa umræðu.

Mér nægir ekki, hæstv. forseti, að hér séu í salnum hv. þm. Jón Bjarnason eða hv. þm. Kristrún Heimisdóttir sem ég geri ráð fyrir (Forseti hringir.) að sé stuðningsmaður þeirra sjónarmiða (Forseti hringir.) sem við höfum fært fram miðað við þær tilvitnanir (Forseti hringir.) sem hér hafa verið lesnar upp.