136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er auðvitað alveg með ólíkindum. Okkur er sagt hér í þinginu, síðast í dag af hæstv. forsætisráðherra, 1. flutningsmanni málsins, að þetta sé eitt af brýnustu málunum sem núverandi ríkisstjórn leggi áherslu á. Hér er um að ræða breytingar á stjórnarskrá Íslands en 1. flutningsmaður, hæstv. forsætisráðherra, hefur öðrum hnöppum að hneppa en að taka þátt í umræðu um málið. Er það allur áhuginn á málinu? Er þetta svona brýnt mál? (Gripið fram í: Áhuginn er …) Hv. þingmenn verða að hafa það í huga að 1. flutningsmaður er ráðherra en líka þingmaður og flutti málið sem þingmaður og 2. flutningsmaður er ráðherra en hann er líka þingmaður og flutti málið sem þingmaður. Það verður að teljast með ólíkindum að þessir ágætu hv. þingmenn (Forseti hringir.) hafi ekki meiri áhuga en það á því máli sem þeir í öðru orðinu segja að sé (Forseti hringir.) brýnasta mál þingsins að þeir eru ekki viðstaddir umræðuna. (Forseti hringir.) Þetta er með ólíkindum.