136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:39]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er alveg furðulegt metnaðarleysi af hálfu þeirra sem bera fram þetta mikilvæga frumvarp, breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, að taka ekki þátt í umræðum hér. Margir af þeim sem hæst hafa talað á undanförnum mánuðum, missirum og árum í þessum þingsal (Gripið fram í: Og utan hans.) og utan þingsalar um virðingu Alþingis hljóta að velta vöngum yfir eigin orðum og eigin gjörðum.

Að við skulum sitja hér í þingsalnum þar sem ýmist eru tveir eða þrír þingmenn og talsmenn þeirra sjónarmiða sem hér er rætt um og síðan fjöldinn allur af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem vilja ræða þetta mikilvæga mál, er áfellisdómur yfir þeim stjórnarliðum sem sinna ekki betur (Forseti hringir.) störfum sínum en raun ber vitni.