136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnast svör og skýringar virðulegs forseta heldur rýr. Þetta sýnir í raun þá vanvirðu sem forustumenn þessarar ríkisstjórnar sýna Alþingi. Við verðum svo sem vör við þetta víðar en bara í þingsal hér á þinginu. Við verðum líka vör við þetta í nefndarstörfum þar sem eru sestir formenn nefnda sem virða ekki þær eðlilegu vinnureglur sem ég hef þó kynnst þennan stutta tíma sem ég hef verið hér.

Ég hef upplifað það að málum hefur ekki lokið. Það hefur ekki verið hægt að kalla inn fólk til að ræða málin og fá eðlilegar skýringar. Gestum hefur verið vísað af fundi til að reyna að flýta hér vinnu, eins og gerðist í efnahags- og skattanefnd. Það er alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, hvernig mál eru að þróast hér á þinginu undir stjórn þessara vinstri flokka. Vanvirðan gagnvart þingi og þingmönnum er algjör.