136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:51]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég skal tilkynna það að ég mun ekki flytja jafnlanga ræðu og þetta bókasafn gefur tilefni til. En mér finnst miður að hæstv. forseti skyldi ekki verða við þeirri sanngjörnu ósk okkar fjölmargra þingmanna um að fundi yrði frestað, sér í lagi þar sem fyrir liggur að enginn flutningsmaður frumvarpsins er tilbúinn til að vera viðstaddur umræðuna og líka liggur fyrir að meginhluti meiri hluta sérstakrar sérnefndar um stjórnarskrána er ekki viðstaddur heldur. Það er mjög miður. Það hefði verið eðlilegt að fundi hefði verið frestað og tekið til við umræðuna um stjórnarskrána strax í fyrramálið.

Mér finnst það satt að segja ekki eðlileg virðing við stjórnarskrána eða að þingið sýni sjálfu sér nægilega virðingu eða þjóðinni að halda áfram umræðu um breytingar á stjórnarskipunarlögum með þeim hætti sem er fyrirhugaður.

Þetta gerir það að verkum, þar sem að þeir sem hefur verið talað um að kæmu hingað, þ.e. flutningsmenn frumvarpsins og þeir þingmenn sem ég nefndi í ræðu minni hér áðan að ég þyrfti að eiga orðastað við vegna þeirra ummæla — að ég mun þurfa að endurtaka það síðar í þessari umræðu sem lengir þar af leiðandi umræðuna sem því nemur.

Það er nú einu sinni þannig, eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir benti á, að umræður á Alþingi eru til þess að hafa skoðanaskipti. Þær eru til þess að þingmenn færi fram skoðanir sínar og fái fram mótrök þeirra sem hafa önnur sjónarmið. En harla lítið gagn er í umræðum þegar sá hluti sem ætlar sér, eftir því sem best verður séð, að knýja fram mál í skjóli meirihlutavalds, lætur öll rök hjá líða og er ekki tilbúinn til að fylgjast með eða hlusta á það sem þeir sem hafa aðra skoðun hafa fram að færa í málinu. Það er satt að segja með miklum ólíkindum.

Hér féllu orð í dag hjá nefndarmönnum í sérnefndinni um stjórnarskrármál sem voru með miklum ólíkindum og ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að víkja fyrst að því sem hv. þm. Atli Gíslason hafði um málið að segja. Ég vil benda á það að ég hef í sjálfu sér ekki neinar sérstakar athugasemdir við það sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sagði um málið vegna þess að það var meira og minna upplestur úr nefndarálitinu. En hv. þm. Atli Gíslason hefur öðrum fremur komið í ræðustól hér á Alþingi og talað um mikilvægi stjórnarskrárinnar og virðingu fyrir stjórnarskránni (SKK: Og vönduð vinnubrögð.) og vönduð vinnubrögð (SKK: Og faglega verkfærni.) og faglega verkfærni. Þakka þér fyrir, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, fyrir að minna mig á þetta. Þannig að ég hafi þetta nú hugfast allt saman.

En hv. þm. Atli Gíslason, sem mér er sagt að kúri einhvers staðar í hliðarherbergi og flokksbróðir hans, hv. þm. Jón Bjarnason, hefur ítrekað tekið fram hér úr ræðustól að hann sé einhvers staðar í húsinu, sagði í umræðunni hér fyrr í dag að nú þyrftum við að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu og gera breytingar í samræmi við allsherjarendurskoðun á öllum gildum í þjóðfélaginu.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér brá óþægilega við það að hlusta á þessi orð hv. þm. Atla Gíslasonar í því samhengi sem þau voru sett fram. Það minnti mig á það sem Mussolini, sem síðar varð æðsti stjórnandi á Ítalíu, hafði fram að færa varðandi það með hvaða hætti þyrfti að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu. Pennavinur hans, sem hafði viðurnefnið Lenín og varð síðar helsti stjórnandi Sovétríkjanna, tók upp þessi sjónarmið fyrrverandi flokksbróður síns Mussolinis um það að nú þyrfti að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu vegna þess að aðstæður væru með þeim hætti sem raun bæri vitni. Sömu sjónarmið hafa komið hjá ýmsum öðrum. Sömu sjónarmið komu fram hjá eftirmönnum Leníns og lærisveinum hans, þess vegna í Kína eða Norður-Kóreu. Þessi sjónarmið hafa iðulega komið fram og þau komu fram í Þýskalandi Weimar-lýðveldisins vegna þess að þar var um fjöldaatvinnuleysi að ræða og þá þurfti að bregðast við með því að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti, vissulega hefur íslenska þjóðin orðið fyrir verri áföllum en hún hefur þekkt um áratugaskeið. Svo miklum áföllum að ósköp eðlilegt er að hrikti í ýmsum stoðum þjóðfélagsins. En þegar þannig háttar til skiptir máli að grunnstoðir þjóðfélagsins standist og menn átti sig á því að halda verður í gildi þeim nauðsynlegu sjónarmiðum og viðhorfum sem hafa jú gert okkur að sterku samhentu lýðræðisþjóðfélagi. Það er grundvöllurinn. Það er forsendan að við virðum mannréttindi, að við virðum þau sjónarmið sem stjórnarskráin kveður á um.

Eitt af því sem er einn af hornsteinum lýðræðisins er að virða réttindi minni hluta. Hér var vísað til þess áðan af hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og einnig reyndar líka af hv. þm. Birgi Ármannssyni að Svíar hefðu lagt upp í vegferð með breytingu á stjórnarskrá og ég er með þau sjónarmið sem hér hafa komið í þessum tveimur bókum þar sem liggur fyrir með hvaða hætti og hvað kom út úr þeirri vinnu. Þar var ekki verið að hrapa að neinu heldur miðað við það að sem víðtækust sátt næðist í þjóðfélaginu. Þar er þó um að ræða þjóðfélag þar sem ekkert kerfishrun hefur orðið og fólk getur leyft sér að taka málið með þeim hætti að skoða öll grunngildin og miða við það og leggja sérstaka áherslu á hvað það skiptir miklu máli í lýðræðissamfélagi að virða réttindi minni hlutans.

Meiri hluti þarf alltaf að hafa það í huga að meiri hluti í dag getur orðið minni hluti á morgun. Þess vegna skiptir máli með hvaða hætti fólk fer fram.

Það sem ég vildi nefna hér vegna þeirra tilvitnuðu orða Atla Gíslasonar í umræðunni í dag að nú þyrftum við að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu, er að ef til vill er einmitt ekki sá tími núna. Það skiptir máli að standa vörð um mannréttindi, að þeim stjórnskipulegu hornsteinum sem við höfum sé haldið í eðlilegu gildi.

Hér fór fram einn af nefndarmönnum í sérnefnd um stjórnarskrána og hann fjallaði um það hvað knýr á um það að breyta stjórnarskrá eins og verið er að leggja til með því frumvarpi sem er hér til umræðu. Jú, vegna þess að það varð bankahrun á Íslandi er nauðsynlegt að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu. Hv. þm. Ellert B. Schram sagði hér í umræðunni að sú nauðsyn sem knýi á um breytingar á stjórnarskrá sé kerfishrun og frumvarpið sé lagt fram til að bregðast við hruninu — mér þykir miður að hv. þm. Ellert B. Schram skuli ekki vera viðstaddur umræðuna — en frumvarpið er lagt fram til að bregðast við hruninu, svara kalli fólksins.

Með hvaða hætti breyta ákvæði þessa frumvarps til stjórnarskipunarlaga hruninu, með hvaða hætti er verið að bregðast við hruninu? Það er einhvern veginn eins og mönnum sjáist yfir hvað raunverulega gerðist í íslenska samfélaginu. Menn vilja horfa á eitthvað allt annað en raunveruleikann og mér fannst hv. þm. Ellert B. Schram vilja gera það. Hann sagði m.a. að kerfishrunið væri Sjálfstæðisflokknum að kenna.

Ég fór að velta því fyrir mér hvort hv. þm. Ellert B. Schram hefði ekki fylgst með þeim skýrslum, athugunum, sjónarmiðum og gögnum sem sett hafa verið fram fyrir þjóðina á undanförnum vikum og mánuðum. (Gripið fram í: Hverjir voru í stjórn?) Þá er líka spurningin: Hvaða ábyrgð ber hv. þm. Ellert B. Schram sem verið hefur stjórnarþingmaður allan tímann frá því hrunið varð og áður? En það er annað mál, ég ætla ekkert að taka þetta á persónulegum nótum.

Ég spyr: Ber einhver einn stjórnmálaflokkur ábyrgð á því hruni sem varð? Þá segir hv. þm. Ellert B. Schram: Já, það er stjórnmálaflokkurinn sem var í stjórn og er búinn að vera í stjórn meira og minna samfleytt. En ég velti því þá fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að skoða hvaða einstaklingar og fyrirtæki það voru sem skulduðu hundruð milljarða í hverju einasta þeirra fjármálafyrirtækja sem hafa verið tekin í yfir af hálfu ríkisins á grundvelli neyðarlaganna og hvort þeir einstaklingar og þau fyrirtæki sem þar komu að beri ekki einmitt meginábyrgð á því hruni sem varð. Bera fjölmiðlar einhverja ábyrgð á hruninu? Höfðu þeir upplýsingar sem þeir létu ekki í ljósi?

Ég verð að segja, eftir að hafa skoðað þau gögn sem hafa komið fram og þegar rykið hefur sest eftir efnahagshrunið, að mér sýnist ljóst að það sem helst hefur á bjátað var að eðlilegar lánareglur í fjármálastofnunum voru ekki virtar. Bankarnir virtu ekki eðlilegar lánareglur. Þar var um að ræða stórfellda misbeitingu varðandi upplýsingagjöf, varðandi eigið fé og varðandi tilbúning á hlutum sem ekki voru fyrir hendi. Það heitir einfaldlega og á mæltu máli svindl, svik og afbrot.

Enginn stjórnmálaflokkur ber ábyrgð á óheiðarlegu fólki í þjóðfélaginu nema viðkomandi stjórnmálaflokkur standi á bak við það fólk. Þannig hefur því verið haldið fram í þessum ræðustól oftar en einu sinni að vinstri grænir hafi með einum eða öðrum hætti komið að ólátum og aðför við Alþingishúsið eftir áramótin. Ljóst er að einhverjir stuðningsmenn þeirra voru þar í för en það ásakar enginn í sjálfu sér þann stjórnmálaflokk um það endilega sem þar gerðist þó að þeir beri vafalaust meiri ábyrgð á því en aðrir stjórnmálaflokkar. En ég get ekki verið gerður ábyrgur og menn gera ekki einhvern ábyrgan fyrir því að rangt sé haft við gagnvart honum og honum talin trú um og hann sé í góðri trú um að hlutir séu með ákveðnum hætti sem síðan reynast vera með öðrum hætti.

Ég spyr síðan í framhaldi: Er það virkilega svo að menn hafi t.d. ekki kynnt sér, eins og þeir hv. þingmenn Atli Gíslason og Ellert B. Schram, þessir tveir fulltrúar í sérnefnd um stjórnarskrármálið hafi ekki kynnt sér niðurstöðuna? Því að það hefur alltaf verið kallað eftir erlendum sérfræðingum og haldið fram að við værum svo ófær um að hafa með málin að gera sjálf. Er það virkilega svo að þeir hafi ekki eytt tíma í það að lesa alla vega umfjöllun um skýrslu sem kom út 30. mars 2009 eftir finnskan sérfræðing, Kaarlo Jännäri — ég vona að ég misbjóði honum ekki mikið með framburði á nafninu hans — þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að í sjálfu sér hafi það ekki verið íslenska stjórnkerfið sem brást? Að íslenska stjórnkerfið hafi að mörgu leyti virkað mjög vel og ekkert verr en stjórnkerfi og eftirlitsstofnanir annarra ríkja í okkar heimshluta.

Og ég spyr: Hvar liggur þá hin brýna ástæða til að endurskoða öll gildi í þjóðfélaginu eins og hv. þm. Atli Gíslason kom fram með eða það að kerfishrunið sé Sjálfstæðisflokknum að kenna? Maður spyr sig að því hvort það hrun sem orðið hefur á fjármálamarkaði í Frakklandi, Bretlandi, Írlandi, Ungverjalandi, Lettlandi sé þá líka allt saman Sjálfstæðisflokknum að kenna. Með sama hætti og sömu rökum má halda því fram. En það sjá allir þegar þetta er sett í það samhengi að ekki er nein vitræn glóra í svona málflutningi, því miður. Og mér finnst það miður fyrir þessa ágætu þingmenn og þá sérstaklega hv. þm. Ellert B. Schram að haga máli sínu með þessum hætti vegna þess að hann veit betur.

Fyrir liggur og það hefur verið krafa í þjóðfélaginu um langan tíma, og því hefur verið haldið fram, m.a. af mörgum þeirra sem hafa tjáð sig um málin á opinberum vettvangi, að styrkja þurfi Alþingi. Að það skipti miklu máli að skjóta sem styrkustum stoðum undir Alþingi. Atburðir síðustu mánaða hafa eflt þá hugsun.

Maður skyldi því ætla ef hæstv. forsætisráðherra hefði viljað svara þeim sjónarmiðum og því kalli að þá hefði hún brugðist við með því að flytja stjórnarskrárfrumvarp til þess að efla Alþingi og styrkja stöðu Alþingis. En hvað gerist? Forsætisráðherra bregst við með því að flytja stjórnarskrárfrumvarp sem beinlínis veikir Alþingi. Með hvaða hætti? Með því að flytja áhrif og völd í mikilvægum efnum frá Alþingi til annarra aðila. Það liggur fyrir að við búum við þingbundna stjórn þannig að Alþingi veitir ríkisstjórninni umboð. Vald Alþingis er að öðru leyti þríþætt, þ.e. það felst í lagasetningu, það felst í fjárveitingaákvörðunum og það sem má þess vegna fella undir lagasetningu en hefur þó alltaf verið tekið sem sérstakt atriði, þ.e. stjórnarskrárgjöf.

Hver er svo meiningin hjá hæstv. forsætisráðherra og þeim hv. þingmönnum sem styðja þetta meirihlutaálit, sem segjast vera að svara kalli fólksins um að styrkja Alþingi? Hver er meiningin? Með þessu frumvarpi á að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu og það liggur fyrir að þegar slíkri stoð er kippt undan þjóðþinginu veikist staða þjóðþingsins að sama skapi.

Ýmislegt í frumvarpinu getur horft til framfara. Í 2. gr. frumvarpsins er í sjálfu sér sambærileg tillaga og komið hefur fram áður og náðist víðtæk samstaða um og við sjálfstæðismenn höfum sagt að við séum tilbúnir til að standa að skoðun á því en ég kem að því síðar.

En það ákvæði sem hér er verið að fjalla um, þetta ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. að Alþingi geti samþykkt og lagt málið undir dóm þjóðarinnar, verður óvirkt á næsta kjörtímabili. Það verður óvirkt á næsta kjörtímabili og þess vegna spyr ég: Hvað liggur svona á? — Ég býð hv. þm. Atla Gíslason velkominn í þingsal. — Hvað er verið að gera hér með því að auðvelda stjórnarskrárbreytingar ef á sama tíma að á að gera þetta ákvæði óvirkt á næsta kjörtímabili eins og ég var að tala um?

Með 4. gr. erum við í raun að koma á tveimur þjóðþingum sem eiga að vinna að stjórnarskrárbreytingum samtímis. Hvað mundi það þýða, hvað þýðir slíkt? Það þýðir bara eitt. Það þýðir stjórnskipulega ringulreið. Og það er nú ansi merkilegt, virðulegi forseti, að Samfylkingin sem er nýkomin af flokksþingi sínu með skýra stefnu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og einum af þingmönnum flokksins, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, ferst eins og hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, að breyttu breytanda að Grétar Mar getur ekki og komið í þennan ræðustól án þess að tengja hvaða mál sem um er að ræða óréttlátu kvótakerfi, að hv. þm. Árni Páll Árnason getur ekki komið í ræðustól alveg óháð því hvað hann er að tala um öðruvísi en að tala um gildi aðildar að Evrópusambandinu. En auðmýking forsætisráðherra Samfylkingarinnar og Samfylkingarinnar í þessu máli verður vart máluð sterkari litum en með því að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flutningsmaður þessa frumvarps til stjórnskipunarlaga hún leggur það fram, og það er ekki opnað á möguleika á aðild að Evrópusambandinu. Og meðan staðið er fyrir niðurskurðartillögum er hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar að mæla fyrir því að fjölga þingmönnum úr 63 í 104 og efna til þess vegna allt að fimm kosninga á næstu tveimur árum með þeim ærna tilkostnaði sem þar ræðir um. Þetta er ekki til þess að efla einhver grunngildi í þjóðfélaginu, þetta er ekki til neins annars en að skapa stjórnskipulega ringulreið.

Ég vék að því áðan, virðulegi forseti, með hvaða hætti hv. þingmenn Valgerður Sverrisdóttir, Atli Gíslason og Ellert Schram hefðu komið fram og vék að orðum þeirra í þeirri umræðu sem fram fór fyrr í dag. Þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem er líka einn aðili í meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál, fjallaði um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hafði hann í sjálfu sér ekki neitt um málið að segja annað en að víkja sérstaklega að því með hvaða hætti sjálfstæðismenn stæðu að málinu. Engin sérstök sjónarmið eða rök komu fram fyrir því að það bæri að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort eðlilegt sé að fara þá sérleið sem meiri hluti stjórnarskrárnefndarinnar leggur hér til að verði farin, að þrýst verði á um breytingar á stjórnarskránni þannig að um stuttan fyrirvara verði að ræða, málið verði rætt á mjög skömmum tíma og fullkomin ósamstaða verði um það með hvaða hætti það er rætt og síðan eigi að reyna að keyra þetta í gegnum Alþingi rétt fyrir kosningar. Það er stundum sagt: Ólíkt höfumst við að. Svíar hafa velt fyrir sér breytingum á stjórnarskrá sinni. Þar í landi miða menn við það að þær breytingar sem beri að gera séu gerðar í samkomulagi og rætt sé til hlítar um þau ákvæði sem gera á breytingar á.

Þann 1. júlí 2004 var sett niður, miðað við þeirra tíma og þeirra sjónarmið, sérstök sérnefnd um stjórnarskrármálefni til þess að endurskoða stjórnarskrána að öllu leyti. Ekki hvarflaði að nokkrum manni þar í landi að ætla að fara að setja sérstakt stjórnlagaþing. Ég hygg að þau sjónarmið og þær röksemdir hafi legið fyrir að ekkert bitastætt kæmi út úr slíku annað en útgjöld fyrir ríkið. Nei, hvað gerðu Svíar og hvaða leið fóru þeir? Við mættum hafa það til skoðunar og til viðmiðunar? Jú, Svíar kölluðu til helstu stjórnmálaleiðtoga landsins, þess vegna menn sem höfðu látið af störfum. Þeir kölluðu m.a. til fyrrverandi formenn stærstu flokka Svíþjóðar. Þeir skipuðu nefndina þingmönnum, stjórnmálaleiðtogum þess vegna, þó að þeir væru hættir á þingi, og sérfræðingum í stjórnarskrármálefnum. Nefndin, eins og ég sagði, hóf störf 1. júlí 2004.

Nefndin lauk störfum 17. desember 2008, þ.e. um fjóru og hálfu ári eftir að hún hóf störf lauk hún störfum. Við það tækifæri, þegar þeir ljúka störfum, afhenda nefndarmenn viðkomandi stjórnvöldum, þ.e. sænska þinginu eða Riksdag, þessar tillögur og gera sérstaka grein fyrir því að allir séu sammála um þær tillögur sem um sé að ræða. Hvernig var farið að því? Í sjálfu sér þarf ekki að vera svo mikill ágreiningur um grundvallarreglur þjóðfélags í þróuðu lýðræðisríki og það skiptir því svo miklu máli að menn taki sér tíma til þess að fjalla um það til þess að afgreiða hluti í sátt.

Aðeins hefur verið vikið að því hér að komið hafi til þess að stjórnarskrármálefni hafi verið afgreidd þannig að ágreiningur hafi verið um það en það hefur þá verið vegna þess að ákveðinn flokkur vildi ekki láta af sérréttindum sem hann hafði og þá Framsóknarflokkurinn vegna þess að hann naut þingmannafjölda langt umfram atkvæðafjölda í almennum kosningum vegna misvægis atkvæðaréttarins. Að sjálfsögðu verður að bregðast við óréttlæti ef um það er að ræða til þess að skapa eðlilegt jafnræði borgaranna. En við erum ekki að fjalla um það hér. Ég ítreka: Við ættum sem þróað lýðræðisríki að hafa það sem grundvallarviðmiðun að ræða til hlítar þau sjónarmið og gildi sem við viljum hafa í stjórnarskrá til að treysta grunnstoðir lýðræðis og mannréttinda. Það er það sem skiptir máli. Það er ekki það, eins og hv. þm. Atli Gíslason talaði um, að nú þyrfti að endurskoða öll gildi heldur þveröfugt.

Nú þurfum við að treysta þau grunngildi samfélagsins sem hafa gert okkur að þróaðri og þroskaðri lýðræðisþjóð og byggja á þeim grunni og sjónarmiðum sem skipta máli við uppbyggingu þessa þjóðfélags. Það á ekki að kasta í burtu því sem best hefur reynst. Stjórnarskráin brást ekki nema síður sé. Menn geta deilt um það hvort breyta eigi ákveðnum hlutum, t.d. varðandi stjórnskipun landsins eins og t.d. það sem hefur verið hávær krafa um — mótmælendur hér á Austurvelli kvörtuðu yfir því að Alþingi skyldi ekki hafa frumkvæði í ýmsum málum. Þeir áttuðu sig ekki á því að Alþingi hefur í sjálfu sér ekki neitt með framkvæmdarvaldið að gera annað en það að það getur samþykkt vantraust á ríkisstjórn. Sumir vilja breyta þessu og taka upp önnur gildi en ekki er verið að leggja það til hér.

Virðulegi forseti. Þegar maður les þær tillögur sem koma fram frá Svíþjóð, í þeirri vinnu sem átti sér stað við gerð stjórnarskrárinnar eða þeirra tillagna sem þar er um að ræða, sést að þar er um fyrirmyndarvinnu að ræða sem við ættum að hafa sem fyrirmynd. Við ættum að fara af þessu þingi með því að skipa frekar sérnefnd um stjórnarskrármál til þess að vinna að því að afgreiða stjórnarskrána í sem mestri sátt. Ég geri mér grein fyrir því að ekki er alltaf hægt að afgreiða alla hluti í sátt en ég hygg, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson benti nú á — hann sagði að e.t.v. væri ekki svo langt á milli að ekki væri möguleiki að sætta sjónarmið. Ef það er sjónarmið hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar, af hverju tökum við okkur þá ekki þann tíma sem þarf til að reyna að finna þann flöt sem við getum orðið sátt við og afgreiðum málið með þeim hætti? Málið þarf ekkert að fara frá. Það liggur fyrir að nýjar kosningar eru boðaðar eftir rúmar þrjár vikur. Ef við samþykktum 2. gr. þessara stjórnarskipunarlaga, sem þokkaleg sátt getur orðið um, og hefur verið rætt í nefndinni, er ekkert því að vanbúnaði að nýtt þing geti komið að málum og tekið til við að gera tillögur og koma þeim áfram. Mér fyndist meiri bragur á því að þannig yrði farið að í stað þess að ætla að keyra hér fram, í skjóli meirihlutavalds, í fullkominni andstöðu við stærsta þingflokkinn, ýmsar breytingar á frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

Opnað var á samkomulag í umræðum í nefndinni. Við sjálfstæðismenn í nefndinni töldum að möguleiki væri á því að ná samkomulagi. Viðbrögð formanns sérnefndarinnar voru þau að ekki væri lengur tími til þess að fjalla um það eða gera frekari tilraunir til þess að ná samkomulagi.

Ég lagði áherslu á það í umfjöllun í nefndinni að það skipti mjög miklu máli að nefndin reyndi til þrautar að ná samkomulagi. Ég taldi að það mundi stytta mjög þann tíma sem varið yrði af hálfu Alþingis í að fjalla um stjórnarskipunarlögin, sem ekki hefði verið vanþörf á vegna þess, eins og ítrekað hefur verið bent á, að mörg mikilvæg mál bíða úrlausnar sem varða hamingju og heill fjölda Íslendinga sem nú standa í miklum erfiðleikum. Formaður sérnefndar um stjórnarskipunarlögin vildi ekki hlusta á það, henni lá svo á að taka málið út. Jafnvel þó að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gerði athugasemdir við nefndarálit sem hafði verið sent út fyrir fram frá meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál — ekki var einu sinni eining í nefndinni um nefndarálit, þannig að það var tekið út með mjög sérkennilegum hætti. Hv. formanni sérnefndar lá svo mikið á að við í minni hluta nefndarinnar vorum vinsamlegast beðnir um að víkja af fundi þannig að meiri hlutinn gæti farið sérstaklega yfir málið með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Ég nefni þetta sérstaklega hér til að ítreka það sem hv. þm. Sturla Böðvarsson sagði í umræðunni hér áðan þar sem hann minntist einmitt á þetta tilvik sem átti sér stað við afgreiðslu nefndarinnar.

Ég hefði, virðulegi forseti, viljað ræða náið um efnisatriði þeirra greina sem hér er um að ræða en ég kemst sennilega ekki nema að hluta til í atriði sem varða 1. gr. Það verður þá að bíða til síðari ræðu minnar, það sem ég hef frekar um málið að segja, í þeim umræðum sem hér eiga eftir að fara fram. Því hefur verið haldið fram af hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, formanni sérnefndar um stjórnarskrármál, að með því að gera breytingar á 1. gr. — svo sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, þ.e. að fella niður 2. og 3. gr. í upphaflegu frumvarpi, þó með því að taka síðasta málslið 2. mgr. inn í 1. mgr. — hafi verið komið til móts við minni hlutann og leitað hafi verið sátta. En þetta er ekki þannig. Þetta hafði ekkert með hugmyndir eða tillögur til sáttagerðar að gera. Þessar greinar frumvarpsins voru með þeim hætti að að sjálfsögðu hlutu augu meiri hluta nefndarinnar að opnast fyrir því að það gengi ekki að ætla að koma svona hlutum inn í stjórnarskrá.

Skoðum orðalag eins og þetta: Að allar náttúruauðlindir beri að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Hvað á þá að gera með olíulindir sem kunna að finnast á Drekasvæðinu? Það má ekki nýta þær vegna þess að ekki er hægt að gera það á grundvelli sjálfbærrar þróunar, það gengur á þær. Ef það fyndust gull- eða silfurnámur eða önnur námaréttindi má ekki nýta þau vegna þess að það getur ekki orðið á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Þannig má halda áfram.

Það var einfaldlega þannig að þessi svokölluðu 4. kynslóðar mannréttindi, sem átti að reyna að setja í stjórnarskrá — það var ekki nokkur vitræn glóra í því að ætla að setja þetta inn með jafnmiklum óskýrleika eins og þarna var um að ræða. Það var því ekki hjá því komist — meiri hluti nefndarinnar áttaði sig meira að segja á því að þetta gekk ekki upp, það væri algjört virðingarleysi við þjóðina að ætla að reyna að troða þessu áfram. Þetta var engin sáttargjörð sem þarna var um að ræða, það var einfaldlega um það að ræða að meiri hlutinn sá að sér. Hver einasti umsagnaraðili sem að þessu kom, e.t.v. fyrir utan Alþýðusamband Íslands, talaði um þetta sem gjörsamlega fráleitar tillögur. Það var ekki verið að koma til móts við okkur sjálfstæðismenn í þessu, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, það var einfaldlega verið að reyna að bæta ómögulegt frumvarp.

Virðulegur forseti. Ég get ekki gert frekari grein fyrir því en mun gera það í síðari ræðum um þetta mál.