136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir þeirri skoðun í máli forseta að þar sem töluverður fjöldi þingmanna væri eftir á mælendaskrá væri eðlilegt að halda fundi áfram þrátt fyrir að hér væru ekki í salnum þeir þingmenn sem borið hafa fram þetta mikilvæga mál.

Ég verð að mótmæla þessari skoðun. Það skiptir engu máli hversu margir þingmenn eiga eftir að tala, þær ræður sem hafa verið haldnar hafa bæði verið innihaldsríkar og skipt miklu máli í þessari umræðu. Það að enginn af þessum flutningsmönnum hafi verið til andsvara og fylgst með því sem fram hefur farið er auðvitað fullkomið hneyksli fyrir Alþingi.

Nú þykir mér forseti eiga að snúa sér að sóma þingsins og sóma síns eigin embættis, fresta fundi og gera úrslitatilraun til að kalla þessa þingmenn til þingfundar. Ef það tekst ekki á að slíta fundi (Forseti hringir.) og við komum hér til starfa í fyrramálið og gerum þetta (Forseti hringir.) þannig að það sé sómi að fyrir þingið. (Forseti hringir.) Öðruvísi er ekki hægt að halda áfram.