136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því aftur að hér eru tveir hv. þingmenn Vinstri grænna í salnum, það er enginn þingmaður Samfylkingar í salnum. Þetta eru fulltrúar ríkisstjórnarinnar, minnihlutastjórnarinnar, við umræðu á þessu mikilvæga máli á þinginu. Áhugaleysið er algert. Þeir hafa engan áhuga á að kynna sér gagnrýninn, málefnalegan málflutning okkar sjálfstæðismanna í þessu máli, ekki nokkurn áhuga, og mér er það til efs að þeir hafi lesið þær fjölmörgu athugasemdir sem bárust nefndinni frá lærðum og leikum í þessu máli, ef áhugaleysið er svona algjört. Þeir ætla sér að keyra þetta mál í gegn hvað sem það kostar án þess að fá og skoða gagnrýnar hugmyndir og umræður sem snúa á annan veg. Þetta er alveg með eindæmum, virðulegi forseti, svona vinnubrögð eru alveg með eindæmum. Eins og þetta er að þróast hérna er þetta ekki boðlegt, þetta er ekki boðlegt okkur þingmönnum sem ætlum (Forseti hringir.) að ræða málefnalega um þetta mál. Það er ekki boðlegt að ætla mönnum að eiga að taka þátt í (Forseti hringir.) nefndarstörfum í fyrramálið og segja okkur á klukkutíma fresti að það eigi að halda örlítið áfram, fram eftir nóttu. (Forseti hringir.) Ég krefst þess að forseti skýri þetta nánar.