136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:03]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Forseti verður að virða þingmanninum það til vorkunnar að hann er tiltölulega óreyndur og þekkir ekki alveg vinnubrögðin hér. Ég á því ekki að venjast, hvergi, þegar ég spyr spurninga að þeim sé ekki svarað, að það sé eins og ég sé að tala við vegginn. Er þetta það sem maður má venjast hérna á þinginu, að maður spyrji spurninga og forseti svari ekki? Ég bara spyr og vonast til að fá a.m.k. svar við þeirri spurningu.

Síðan skil ég heldur ekki hvaða vandamál er við það að segja bara að það eigi að funda til klukkan tvö eða til klukkan þrjú eða til klukkan fjögur eða til klukkan fimm. Það getur vel verið að við eigum engin brýn erindi heim til okkar, nema að fara að sofa, en það mundi hjálpa okkur að vita nákvæmlega klukkan hvað við eigum að komast heim. Af því að ég er óreynd á þessu sviði þá langar mig til að vita hvað það er nákvæmlega sem gerir það svona erfitt fyrir forseta að segja okkur hvenær við komumst heim. Ég hélt að þetta væri virðulegur vinnustaður, raunar hélt ég að þetta væri virðulegasti vinnustaður landsins, ég stóð í þeirri merkilegu meiningu (Forseti hringir.) og þess vegna hlýt ég að spyrja: (Forseti hringir.) Getur hæstv. forseti svarað þessum spurningum?