136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:05]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög skrýtin uppákoma hér í kvöld, ég segi bara ekki annað en það. Hér máttum við þingmenn vera til klukkan hálfþrjú sl. nótt, mættum snemma í morgun og mér finnst sjálfstæðismönnum hér á Alþingi vera sýnd lítilsvirðing, ég fer ekkert ofan af því. Svo er það spurning: Er þetta brot á hvíldartíma?

Ég hef sjálf haft mannaforræði, haft fólk í vinnu og ég hef þurft að taka til hendi og við höfum þurft að vinna tímunum saman en aldrei þannig að maður hafi ekki getað gefið fólki frí til að fara heim til þess að fá þann svefn sem það á rétt á að fá. Hvað er fólk að gera þegar það er orðið svefnvana? Það talar ekki rétt, það má eiginlega segja það. Og þegar ekki er nokkur stjórnarþingmaður hér til þess að hlusta á mál okkar þegar fjallað er um það stóra mál sem stjórnarskrárbreyting á íslenskri stjórnarskrá er (Forseti hringir.) þá finnst mér þessi framkoma við okkur sjálfstæðismenn vera fyrir neðan allar hellur. (Forseti hringir.) Það er eins og við megum ekki hafa skoðun á einum einasta hlut hér á Alþingi Íslendinga.