136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:08]
Horfa

Árni Johnsen (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er sök sér að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sé sýnd lítilsvirðing, við höfum breitt bak. Það sem er alvara málsins er að stjórnarskrá Íslands er sýnd lítilsvirðing með þessum vinnubrögðum, herra forseti. Það er skelfilegt að fylgjast með því hvernig hæstv. forseti er hlaupinn á flótta í stíl sínum sem forseti, maðurinn sem venjulega hefur verið glaðlyndur er nú þrunginn alvöru á sama tíma og hv. þm. Atli Gíslason, sem kom inn á Alþingi með heilagan svip sannleikans að vopni, nú situr hann og brosir austur fyrir bæði eyru, (Gripið fram í.) eins og Hamborgardís. Þetta er það mál sem skiptir máli að sé fjallað um og af alvöru. Þetta er enginn leikur. (Forseti hringir.) Menn skulu gera sér grein fyrir því að það verður að hafa festu í þessu, hafa það ankeri til staðar (Forseti hringir.) sem Alþingi Íslands á skilið.