136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:11]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það væri gaman að fá svör frá forseta. Áðan hlustaði ég á fyrrverandi forseta, Sturlu Böðvarsson, og ég hef ekki heyrt að hann hafi fengið svör við þeim spurningum sem hann bar fram áðan. Eins reyndur forseti og Sturla var þegar hann var hér í forsetastól tel ég að hann hefði ekki boðið þingheimi upp á það sem okkur hefur verið boðið upp á sl. nótt og í nótt. (Gripið fram í.) Virðing við Alþingi, að horfa á þingmenn hér dottandi í stólum sínum, finnst mér fyrir neðan allar hellur.

Ég vil láta forseta vita af því að ég á líka langt heim. Ég á eftir að keyra upp á Kjalarnes og upp á Akranes. Ég á að koma á fund í fyrramálið. Það er ekki tiltökumál, nei, nei. Sem betur fer (Forseti hringir.) er ég vön að keyra og mér finnst gaman að keyra og það er allt í lagi. (Forseti hringir.) En ef ég er orðin svefnvana er ég kannski ekki tilbúin til þess eða í ökufæru ástandi. Þess vegna vil ég fá svör frá hæstv. forseta, um (Forseti hringir.) hvort fundi verði haldið áfram fram eftir nóttu.