136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það vill svo til að fyrr í kvöld fór ég í andsvar við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og spurði hann að því hvort fylgiskjal með frumvarpinu hefði gildi hjá nýkjörnu Alþingi sem hefði þá nýtt umboð. Hann kvað svo ekki vera. Ég vildi gjarnan, herra forseti, spyrja hann aftur að þessu. Ég vildi gjarnan fá það á hreint þannig að ekki sé verið að hlunnfara framsóknarmenn, sem eru guðfeður ríkisstjórnarinnar og (Gripið fram í.) hafa staðið undir þessu — allt í einu þegar þing kemur saman verði sagt að nú sé bara komið nýtt þing og það geti ekki borið ábyrgð á því sem var gert á fyrra þingi. Þetta eru mjög mikilvægar upplýsing sem ég þarf að fá hjá hv. þingmanni sem skrifar undir nefndarálitið án fyrirvara. (Gripið fram í: Var hann ekki búinn að svara?) Nei, hann var ekki búinn að svara því beint hvað þetta þýddi.

Í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Í drögum að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem er fylgiskjal með frumvarpi til stjórnskipunarlaga er lagt til að kosið verði persónukjöri á þingið. Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar.“

Ég veit ekki hvað það þýðir. Ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann hvað þýðir að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar.

„Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar.“ — Nema hvað? — „Enda þótt aðkoma almennings alls verði tryggð, t.d. með opnum fundum, upplýsingagjöf og málþingum og að auðvelt verði að senda inn umsagnir, þarf jafnframt að tryggja að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll“ — það er ekkert annað — „eða fulltrúar hennar.“

Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann að því hvað þetta þýði. Hvað þýðir þetta? Ég les í umsögnum að menn hafa alls konar skoðanir á þessu, ég mun fara í gegnum það þegar líður á ræðu mína. Hér er talað um opna fundi o.s.frv., það er náttúrlega spurning. Nú hlakka ég til, herra forseti, því að nú fer ég að fá einhver svör.

„Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti“, ég les með leyfi herra forseta, „að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Þarna á sem sagt að gæta alls konar sjónarmiða. Það er dálítið öðruvísi en kom fram í mörgum umsögnum.

„Reglum sem finna má í áðurnefndum drögum er m.a. ætlað að tryggja sjálfstæði stjórnlagaþings gagnvart Alþingi og öðrum handhöfum ríkisvalds. Telur meiri hlutinn rétt að þetta sjálfstæði þingsins sé tryggt með stjórnarskrárákvæði um stjórnlagaþing og leggur því til breytingu þess efnis að ekki verði gert ráð fyrir því að frumvarp stjórnlagaþings til nýrrar stjórnarskrár fari tvisvar til Alþingis, en það gefi þó umsögn sína um það. Þetta sparar töluverðan tíma og kostnað. Þess í stað er lagt til að ávallt þurfi 2/3 hluta fulltrúa stjórnlagaþings til að samþykkja frumvarpið, án tillits til afstöðu Alþingis, áður en það fari í venjulegan farveg þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þetta er einmitt það sem ég ræddi hér fyrr á þessum fundi og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gagnrýndi. Ég fullyrti og færði fyrir því rök að við værum með tvö stjórnlagaþing hlið við hlið og bæði gætu breytt stjórnarskránni og bæði gætu sent stjórnlagabreytingar til þjóðaratkvæðagreiðslu, annars vegar með því að í 2. gr. frumvarpsins til stjórnarskipunarlaga, sem við ræðum hér, stendur:

„Frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari má bera upp á Alþingi.“

Það er að segja að Alþingi getur gert breytingu á stjórnarskrá hvenær sem er og það færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem sagt að Alþingi Íslendinga er stjórnlagaþing.

Jafnframt stendur í 4. gr. frumvarpsins, sem er breytt verulega í meðförum nefndarinnar — gerð er á því veigamikil breyting, og þar stendur, með leyfi forseta:

„Forseti Íslands boðar til stjórnlagaþings til að semja frumvarp að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda.“

Það er athyglisvert, herra forseti, að vernd mannréttinda kemur síðast. Ég hefði talið að það ætti að vera fremst en það er nú svona mín persónulega skoðun, eins og ég kem inn á hér á eftir.

„Þingið skal koma saman 17. júní 2010 og ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011 en getur ákveðið að ljúka störfum fyrr.“ Svo er talað um hversu margir eigi að vera þarna og um kjörgengi og kosningu o.s.frv. „(Um) skipulag þess skal mælt fyrir í sérstökum lögum þar sem m.a. verði settar reglur til að jafna sem mest hlutföll á milli kynjanna í hópi þingfulltrúa.“

Sem sagt, nýtt komandi þing á að setja lög um hvernig kosið er til þessa nýja stjórnlagaþings.

„Áður en stjórnlagaþing samþykkir frumvarp að nýrri stjórnarskrá skal það sent Alþingi til umsagnar. Alþingi veitir stjórnlagaþingi umsögn sína innan þriggja mánaða. Skal stjórnlagaþing þá taka frumvarpið aftur til meðferðar.“

Hvað á að gera við þessa umsögn? Það er ekki talað neitt um það. Menn virðast bara geta horft fram hjá henni.

„Hljóti frumvarp til stjórnarskipunarlaga samþykki að minnsta kosti 2/3 hluta fulltrúa stjórnlagaþings skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.“

Þetta þing hefur sem sagt heimild til að breyta stjórnarskrá, sem Alþingi hefur líka. Þarna koma náttúrlega upp mjög merkilegir hlutir, sem ég ræddi hér um áður. Við erum með tvö kerfi hlið við hlið og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson mótmælti því, herra forseti, það væri ekki þannig. Nú vildi ég gjarnan spyrja hann að því, herra forseti, og hann er ekki til staðar til að svara þessu, maðurinn sem skrifar undir þetta mótmælti þessu. Hvað á ég að gera, hvað get ég gert, herra forseti? Kannski getur hv. þm. Atli Gíslason svarað fyrir hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þegar hann fullyrðir að ekki sé um það að ræða að bæði þingin geti samþykkt breytingar og borið þær undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sé ekki betur en ég lesi það beint út úr þessum greinum, 2. gr. og 4. gr., að bæði þingin — Alþingi Íslendinga, sem hefur starfað frá 930, með hléum reyndar, og er grundvöllur stjórnskipunar Íslands og við höfum svarið eið að, á að geta breytt stjórnarskránni en jafnframt er eitthvert annað þing, sem hv. þingmenn ætla að afsala sér völdum til, sem á að geta breytt stjórnarskránni líka við hliðina á hinu. Mig langar til að spyrja þessa tvo hv. þingmenn, sem hafa skrifað undir þetta nefndarálit, Atla Gíslason og Valgerði Sverrisdóttur: Hvað þýðir þetta? (Gripið fram í: Ég er búinn að svara þessu.)

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er ekki búin að svara þessu. Geta bæði þingin breytt stjórnarskránni og borið það undir þjóðina? Hvað segir þjóðin þegar hún fær allt í einu dettandi yfir sig — jafnvel sama daginn eða sama mánuðinn — frá tveimur þingum tillögur að breytingu á stjórnarskrá sem hún á að greiða atkvæði um?

Ég fæ ekki botn í þetta, herra forseti. (Gripið fram í.) Ég hefði talið eðlilegt að annað þingið væri ráðgefandi fyrir hitt þannig að það sé alveg á tæru hver hafi heimildina til þess að breyta stjórnarskránni. Enda veit ég ekki betur en að við höfum svarið eið að stjórnarskránni og skrifað undir það, líka hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og líka hv. þm. Atli Gíslason. Hann hefur skrifað undir það að hann virði stjórnarskrána og þar á meðal að Alþingi geti breytt stjórnarskránni, en hann ætlar að afsala sér því valdi með þessari breytingu. Mér þykir það mjög alvarlegt og léttúðugt.

Nú getur það gerst, herra forseti, að einhver verði valinn á stjórnlagaþingið sem meiri hluta á Alþingi líkar kannski ekki við, honum bara líkar ekki niðurstaðan úr þessu kjöri. Það getur vel verið að einhverjir hópar nái völdum á þessu stjórnlagaþingi, nái kannski 25 fulltrúum af 40 og ráði þinginu eða jafnvel 2/3, eins og þarf, og ráði þar með stjórnarskránni. Þá færi lítið fyrir ákvæðum um eign þjóðarinnar á auðlindum, ef „réttir“ aðilar komast að sem hafa ekki áhuga á því ákvæði. Það geta komið þarna inn aðilar sem vilja dauðarefsingu og sett hana í stjórnarskrána eða vilja banna fóstureyðingar o.s.frv. Það getur ýmislegt gerst þegar stjórnlagaþingið fær eitt að ráða stjórnarskránni. Þetta getur að sjálfsögðu líka gerst í núverandi þingi og allt er þetta borið undir þjóðina þannig að það þarf að vera vilji hjá henni til að samþykkja þær breytingar sem ég er að tala um.

Þetta var um þetta álit sem við erum með hér fyrir framan okkur. Þeir aðilar sem skrifa undir þetta álit sýna stjórnarskránni ekki meiri virðingu en það að þeir eru ekki mættir, þeir sem skrifa undir þetta nefndarálit. Þar vil ég nefna hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson, Ellert B. Schram og Guðjón Arnar Kristjánsson, þeir eru bara ekki mættir. Þeir bera bara ekki meiri virðingu fyrir eigin nefndaráliti, svo að ég tali ekki um þá aðila sem fluttu frumvarpið, sem eru hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sú sama og skrifaði seðlabankastjórum bréf og sagði þeim upp áður en Alþingi var búið að samþykkja lög þar um, sýndi löggjafarvaldinu þvílíka vanvirðu, og hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon. Síðan hv. þingmenn Birkir J. Jónsson, sem hefur reyndar verið dálítið þaulsætinn í dag svona fram að háttatíma en þá fór hann í rúmið, og Guðjón Arnar Kristjánsson, títtnefndur, sem hefur reyndar verið duglegur að sitja fundinn en gafst upp þegar vökulögin fóru að virka.

Ég hef mjög mikinn áhuga á því að hér verði stjórnlagaþing, ég hef mjög mikinn áhuga á því að stjórnarskránni verði umbylt gjörsamlega. En það ákvæði sem er í frumvarpinu, um verkefni stjórnlagaþingsins, er bara út úr kú. Þetta fylgiskjal 1, sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði sem betur fer að hefði ekkert gildi, því að þar er ekki talað um mannréttindi. Ég hef alltaf litið þannig á að stjórnarskrá lands sé eingöngu til þess að vernda mannréttindi, hún sé ekki til neins annars. Hún er ekki til þess að búa til eitthvert ríki. Til hvers er búið til ríki? Til þess að vernda mannréttindi.

Ég hef rætt þetta áður. Hér hafa verið tillögur frá Framsóknarflokknum, sem hann flutti um breytingu á stjórnarskránni. Þær gerðu nú hvorki meira né minna en brjóta stjórnarskrána á þrennan hátt af því að menn gættu ekki að því að þeir voru að breyta stjórnarskrá og það verður ekki gert nema með 79. gr. Þeir ætluðu að skauta létt yfir það allt saman og breyttu út og suður á þrennan hátt. Ég fór í gegnum það á þeim tíma en engu að síður ræddi ég þann pakka, það frumvarp, mjög mikið og mjög ítarlega á þeim tíma. Ég neyðist til þess að endurtaka mig á vissan hátt núna. Mér leikur forvitni á því, herra forseti, að vita hvað gerist þegar hv. þingmenn Framsóknarflokksins þurfa að greiða atkvæði milli þeirra tveggja eða þriggja tillagna sem þeir hafa komið fram með. Þeir lenda alveg í kross. Þeir eru búnir að flytja tillögu hérna um eitt stykki stjórnlagaþing, svo koma þeir með aðra tillögu um annað stykki stjórnlagaþing og nú er búið að gera breytingar á því þannig að það er komið þriðja stykkið. (Gripið fram í.) Mér sýnist menn ekki sýna stjórnlagaþinginu eða stjórnarskrárvaldinu nægilega mikla virðingu.

Ég hef nokkrum sinnum lagt til breytingu á stjórnarskránni. Ég hef t.d. lagt til að forsetaembættið verði aflagt, það er með ólíkindum hvernig það er. Ég get kannski byrjað á því að fara í gegnum stjórnarskrána, herra forseti, það hefur enginn gert það. Það eru allir að tala um að breyta henni en það hefur enginn farið í gegnum það hvernig hún er. Í henni er í 3.–30. gr. fjallað um forsetann og eru þær greinar flestar með ólíkindum þegar maður les þær.

Í 1. gr. segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Allt í lagi, en ég sé engin markmið með stjórnarskránni í eðli sínu. Ég kem inn á það á eftir að stjórnarskráin er til að vernda mannréttindi.

Síðan stendur að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið. Það eru tveir aðilar sem fara saman með löggjafarvaldið. „Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið.“ Forsetinn er sem sagt bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald samkvæmt þessu. (Gripið fram í: Bæði ef …) Nei, hann er bæði, það stendur hérna. Þegar maður les stjórnarskrána þá stendur það þarna. Maður getur ekki sagt að það sé hvorugt, það stendur þarna að hann sé bæði, hann fer með löggjafarvald og hann og önnur stjórnvöld samkvæmt þessu fara með framkvæmdarvaldið. Hann er bæði, hann brýtur regluna um þrískiptingu valdsins sem og það að ráðherrar séu jafnframt þingmenn.

Ég hef nokkrum sinnum verið með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur á frumvarpi um einmitt það að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn. Ég væri alveg til í að ræða það og einmitt það atriði var rætt mikið á mjög sterkum landsfundi Sjálfstæðisflokksins, mjög öflugum og skemmtilegum fundi, herra forseti, og þar var mikil liðsheild.

Síðan er talað um kjörgengi forseta og það er svo sem allt í lagi. Svo er sagt hvenær hann er kosinn o.s.frv., og um meðmælendur. En síðan byrjar eiginlega í 13. gr. mjög merkilegt ákvæði. Þar stendur, með leyfi forseta: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“

Venjulegur Íslendingur sem les þetta veit náttúrlega ekkert hvað þetta þýðir eða ég þurfti dálítið að velta þessu fyrir mér. Hvað þýðir þetta eiginlega? Hann hefur eitthvert vald og hann lætur einhvern annan framkvæma valdið.

Svo stendur líka í 11. gr.: „Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.“

Hvers lags er þetta eiginlega? Ber maðurinn akkúrat enga ábyrgð eða hvað er þetta? Þannig les hver Íslendingur stjórnarskrána. Þetta er nú dálítið skrýtið. Hann er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Og hann verður ekki sóttur til refsingar. Þetta er dálítið skrýtið allt saman. Svo er talað um hvar hann hefur aðsetur.

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.“ — Stendur hér, og það má kæra ráðherrann en ekki forsetann.

Svo stendur í 15. gr.: „Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn.“

Ef ég á að vera Íslendingur sem læsi þetta og kynni íslensku þá teldi ég að hann hefði bara heilmikil völd. Hann skipar sem sagt ráðherra og veitir þeim lausn. Þetta eru ekki lítil völd. En þá kemur aftur þessi 13. gr.: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“ Hann hefur sem sagt ekkert vald og þetta er allt í plati. Þetta er ekkert að marka, herra forseti, þetta er dálítið skrýtið.

Svo stendur í 16. gr.: „Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.“ — Það er nú ekki lítið að vera í forsæti fyrir ríkisráði. — „Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.“

Nú kynni maður aftur að halda sem venjulegur Íslendingur, lesandi þetta, að forsetinn hafi heilmikið að segja. Hann stjórnar ríkisráðinu og það á að bera undir hann allar stærri stjórnarráðstafanir. En aftur rekst maður á 13. gr., hann lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Hann hefur í rauninni ekkert að segja þarna. Þetta veit náttúrlega hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir því að hún hefur sjálf verið í ríkisstjórn og veit að þetta er allt saman svona. Þetta er allt í plati.

Svo er talað um ráðherrafundi o.s.frv. Ég ætla ekki að fara nánar út í það. En svo stendur hérna í 19. gr. og það er nefnilega merkilegur punktur:

„Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.“

Og ef maður les 13. gr. lætur hann ráðherra framkvæma vald sitt þannig að þetta hefur ekkert að segja. Hann bara verður að skrifa undir. Það er ráðherrann sem ræður. Og aftur veit hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hvað það þýðir að skrifa undir löggjafarmál.

Í 20. gr. stendur: „Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.“ — Nú kynni maður að halda sem venjulegur Íslendingur að þetta væri mjög valdamikill maður. — „Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt.“ — Já, það er rétt, „nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt“. Það minnir mig á eitthvað, einhvern seðlabankastjóra einhvers staðar. En ég ætla nú ekki að tala meira um það. (Gripið fram í.) Ég ætla nú ekki að fara út í smáatriði.

Svo stendur hérna: „Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það.“

Maður kynni að halda að hann gæti bara ráðið og rekið fólk í stórum stíl. En það er bara ekkert að marka því að í 13. gr. segir að hann láti ráðherra framkvæma vald sitt. Þetta er allt svolítið skrýtið. Svo getur hann flutt embættismenn til og frá og það er dálítið merkilegt í þessu ákvæði að þarna er verið að tala um kjaramál opinberra starfsmanna í stjórnarskránni. Alveg með ólíkindum. Það stendur nefnilega þarna:

„Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum“ — þetta er sem sagt kjaramál — „og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.“

Þarna er verið að tala um eftirlit í stjórnarskrá lýðveldisins. Herra forseti. Er þetta nú ekki dálítið mikil smámunasemi? Svo má undanskilja ákvæði um embættismannaflokka auk þess. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Svo kemur merkileg grein, 21. gr., hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem var hæstv. utanríkisráðherra á sínum tíma: „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“

Það er ekkert annað. Hann getur bara flogið til Kína og gert fínan samning við Kínverja um hvað sem er. En aftur kemur þessi 13. gr. sem segir að þetta sé ekkert að marka.

Svo stefnir hann saman Alþingi 10 vikum eftir … Og hann getur ekki einu sinni gert það nema ráðherra samþykki, forsætisráðherra. Hann getur frestað fundum Alþingis sem er líka ekkert að marka, það er ráðherra sem gerir það.

„Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga …“ — Aftur er það ráðherra sem framkvæmir.

Herra forseti. Er ekki kominn tími til að breyta þessu? Ég er búinn að lesa hérna margar greinar sem villa bara um fyrir fólki.

„Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.“

Hann hefur aldrei gert það, enda yrði væntanlega viðkomandi ráðherra að gera það. (Gripið fram í: … stjórnlagaþing.) Væntanlega þyrfti ráðherrann að gera það fyrir hann því að hann framkvæmir vald hans. Þetta er allt mjög skrýtið.

Þetta er þau atriði sem ég hef rekið augun í þegar ég var að stúdera embætti forseta Íslands og þá komst ég að því að ekki er vanþörf á því að breyta stjórnarskránni enda sér maður ákveðinn blæ á henni. Þetta er í rauninni danska stjórnarskráin með kónginn eftir að hann hafði verið gerður valdalaus. Sennilega eftir eitthvert stríðið sem hann tapaði, geri ég ráð fyrir án þess ég þekki það nákvæmlega. Þá hefur kóngurinn verið látinn halda völdunum sisvona bara í plati en ráðherrarnir framkvæma fyrir hann. Og þegar menn settu þetta yfir á Ísland var bara notað „copy/paste“, afritað, herra forseti, þýtt yfir á íslensku og í staðinn fyrir kóng var settur forseti. Það er ekki seinna vænna að fara að breyta stjórnarskránni. Ég ætla að vona að hv. þingmenn séu sammála mér í því.

Þá ætla ég að koma að því: Hvernig sé ég fyrir mér stjórnarskrá? Hvert er hlutverk stjórnarskrár? Hafa menn velt því fyrir sér? Til hvers er eiginlega stjórnarskrá? Breyting á stjórnarskrá er heimspeki. Segja má að stjórnarskráin hafi orðið til eftir frönsku byltinguna þegar menn komust að því að sami maðurinn setti lög, framkvæmdi lögin og dæmdi eftir þeim. Borgarinn var alveg ofurseldur þessum manni. Oft var það keisari eða eitthvað slíkt, kóngur eða zar. Þá komumst menn að þeirri niðurstöðu að vernda þyrfti borgarann fyrir þessu ríki með því að þrískipta því, hafa þrjár óháðar deildir sem gerðu þetta, að setja lög, framkvæma lögin og dæma eftir þeim. Þetta er heimspeki, herra forseti, þetta er ekki lögfræði, þetta er heimspeki. Í rauninni ættu því eintómir heimspekingar að vera á stjórnlagaþinginu, en þar sem flest fólk er heimspekingar í sér þá er það kannski allt í lagi.

Það voru heimspekingarnir í frönsku byltingunni, Rousseau og fleiri, sem bentu á skipta þyrfti valdinu í þrennt, framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Þannig að stjórnlagaþing og stjórnarskrá eru heimspeki en ekki lögfræði. Svipað og boðorðin tíu. Mér finnst að stjórnarskráin eigi að vera eins boðorðin tíu, klár, einföld og segja lesandanum það sem hún meinar, bara nákvæmlega, kristaltært. Ekkert fram og til baka eða japl, jaml og fuður. Textinn segir bara nákvæmlega: Heiðra skaltu móður þína og föður, eitthvað svoleiðis, og þú skalt ekki aðra guði hafa. Þetta er mjög klippt og skorið. Það er enginn efi neins staðar. Þannig á stjórnarskráin að vera.

Stjórnarskráin er mannréttindabákn, ekkert annað. Hún er til að vernda hvern einstakling fyrir ofríki annarra einstaklinga, hún er til að vernda einstaklinginn fyrir ríkisvaldinu og hún er til að gera kröfu á aðra einstaklinga fyrir hönd þessa einstaklings. Ég ætla að fara fyrst í gegnum það sem ég tel vera mikilvægustu mannréttindin og ætti að vera I. kafli, 1. gr.

Engan má drepa. Punktur. Ef drepa mætti fólk hafa hin ákvæðin ekkert að segja, eignarrétturinn o.s.frv. Þau skipta ekki máli ef drepa má fólk. Þannig að 1. gr. ætti að segja klippt og skorið: Engan má drepa. (Gripið fram í: En líknardráp?) Líknardráp og sjálfsvörn eru undantekningar. En þetta er grunnurinn og þetta á að vera mjög klippt og skorið. Ekki einu sinni: Engan má deyða eða eitthvað svoleiðis, heldur: Engan má drepa. Menn skilja það strax.

Síðan koma frekari mannréttindi fyrstu gráðu sem er eignarrétturinn, málfrelsið o.s.frv. Þar er verið að vernda einstaklinginn fyrir öðrum einstaklingi. Rétturinn á líkama, það má ekki pynta hann o.s.frv. Það er verið að vernda einstakling fyrir öðrum einstaklingi. Svo koma mannréttindi annarrar gráðu sem eru kröfur einstaklingsins á annað fólk. Og ég vil taka fram að þessi fyrsti flokkur er óháður landamærum. Hann er óháður landamærum. Rétturinn á lífi, eignum o.s.frv. er jafnmikill í Sómalíu og á Íslandi, Kína og annars staðar.

Svo kemur krafa á annað fólk, herra forseti. Krafa barna á foreldra sína um framfærslu t.d. Það ættu að vera mannréttindi annarrar gráðu. Krafa aldraðra og öryrkja og annarra á samfélagið til framfærslu er af sama meiði. Þessi ákvæði eru háð landamærum. Þessi krafa er önnur á hungursvæði þar sem móðirin er að deyja úr hungri. Þá mundu menn telja að líf móðurinnar í sjálfsvörn gæti gengið framar rétti barnsins á framfærslu. Þetta eru mjög harkalegar aðstæður sem ég er að lýsa en því miður, herra forseti, koma þær upp. Þá eru mannréttindi fyrstu gráðu sterkari en mannréttindi annarrar gráðu, þ.e. rétturinn á framfærslu. Svona mundi ég vilja byggja stjórnarskrána upp, bara mjög einfalt. Hún á ekki að vera meira en þrjár síður.

Svo kem ég að þessu: Til hvers höfum við ríki? Ég ætla að vona að hv. þingmenn hafi velt því fyrir sér, til hvers höfum við ríki? Við höfum ríki til þess að framkvæma fyrstu og annarrar gráðu mannréttindi til að vernda borgarana fyrir öllu hinu fólkinu. Það er enginn annar tilgangur með ríkinu en að vernda hitt fólkið. Þess vegna kæmi í t.d. IV. kafla stjórnarskrárinnar: Halda skal ríki eða stofna skal ríki. Það á að vera til ríki og það skal vera þrískipt til að borgarinn verði ekki ofurseldur þessu ríki því að þá væri betra að hafa ekkert ríki. Þá förum við að tala um þrískiptingu valdsins, Alþingi, framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnina og svo dómsvaldið.

Það er svo merkilegt að í þessari ágætu stjórnarskrá Íslands er ekki orð um Hæstarétt. Ekki orð og það er miður, því að ég hefði viljað hafa heilmikinn kafla um Hæstarétt og m.a. að Hæstiréttur geti orðið stjórnlagadómstóll þegar hann dæmir um það hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrá. Hann á að gera það en þá verður hann líka að vera fullskipaður, með öllum sjö, þ.e. ef það verður niðurstaðan úr þessu stjórnlagaþingi að Hæstiréttur sé með sjö fulltrúa. Þá þurfa menn líka að taka Hæstarétt sem stjórnlagadómstól til að takmarka vald löggjafans gagnvart stjórnarskránni.

Menn þurfa að ræða mjög ítarlega um það til hvers stjórnarskráin er, til hvers ríkið er o.s.frv. og hér þykist ég hafa farið nokkuð vel í gegnum það af hverju þetta er svona.

Stjórnarskráin á að vera stutt og hnitmiðuð og mjög segjandi. Hver einasta grein á að segja fólki nákvæmlega sannleikann. Ekki eitthvert japl, jaml og fuður og helst eins og ég sagði áðan, þrjár síður.

Þetta var sem sagt um hlutverk stjórnarskrár. Ég hef reyndar sett upp svona stjórnarskrá, ég á þetta til heima hjá mér í tölvunni, ég held að það séu þrjár síður. Það væri gaman að sýna þetta þeim sem hafa áhuga á því.

Svo þarf náttúrlega að ræða um það hvernig stjórnarskránni er breytt og þá kemur að því hvernig þröskuldarnir verða í stjórnarskránni, hver breytir stjórnarskránni. Ég tel eðlilegt að það sé Alþingi en að þjóðin greiði um það atkvæði, eins og hér er reyndar lagt til í 2. gr. Spurningin er sú hve stór hluti þingmanna þarf að samþykkja stjórnarskrárbreytingu. Mér finnst reyndar tveir þriðju hlutar fullmikið en 50% finnst mér fulllítið. Það mætti vera einhvers staðar þarna rétt fyrir ofan. Kannski að 60% þingmanna þurfi til að samþykkja stjórnarskrá eða að 37 eða 40 þingmenn af 63 þurfi að samþykkja stjórnarskrá.

Ef við tökum ráðherrana út, ég er mjög hlynntur því að þeir segi af sér þingmennsku þegar þeir verða ráðherrar, gætum við fækkað þingmönnum um 12 niður í 51. Ég mundi leggja það til til þess að ekki verði aukakostnaður af breytingunni og svo vantar líka stóla inn í þingsalinn sem er mjög jákvætt að þingsalurinn skuli vera svona lítill. Það takmarkar útgjöld og fjölgun þingmanna, enda hefur þeim ekkert fjölgað í mjög langan tíma af því að þingsalurinn er svo lítill.

Þetta var sem sagt um stjórnarskrána og hvernig henni er breytt, þrískipting hennar í framkvæmdarvald o.s.frv. Ég get nefnt ýmislegt í sambandi við það hvernig stjórnarskrár hafa þróast. Sumar eru orðnar óskaplega þungar og miklar eins og Lissabon-samkomulagið sem Evrópusambandið er að reyna að kúga eða plata inn á Evrópuþjóðirnar. Einu sinni átti þetta að verða stjórnarskrá og þá var það fellt. Kjósandinn var svo ósvífinn að fella þetta. En svo fóru þeir þá leið að láta ríkisstjórnirnar, þ.e. framkvæmdarvaldið samþykkja þetta. Kannski tekst þeim það, en ég held að Írar hafi fellt það.

Það er ljóst að Evrópusambandið er að þróast mjög hratt í átt til ríkis. Ef maður lítur 60 ár aftur í tímann er það á fleygiferð í átt til ríkis. Eftir 60 ár í viðbót — það eru 40.000 eða 50.000 manns í Brussel sem mæta alla daga á fundi og hvað er þetta fólk allt að gera? Það er að búa til ríki. Það er önnum kafið við að búa til ríki úr öllu Evrópusambandinu, leysa vandann og setja meiri reglugerðir, búa til myntir og utanríkisþjónustu og meira að segja her. Þetta er að verða eitt allsherjarríki.

Ef Ísland gengi inn í þetta, illu heilli, yrði Ísland eins og smáhreppur í þessu risaríki eftir ekki langan tíma. Mig mundi ekki langa til að vera í þeirri stöðu. (Gripið fram í: … ekki?) Það yrði bara svona smáhreppur inni í þessu feiknalega mikla ríki. (Gripið fram í.) Já, og það er fallegt á Ströndum. Það er miklu betra að vera með mikil áhrif utan Evrópusambandsins, geta gert samninga við Kínverja ef okkur sýnist svo eða Tævanbúa eða Japani o.s.frv. Það gætum við ekki lengur ef við gengjum í Evrópusambandið. Það væri búið spil. (Gripið fram í.) Þetta yrði búið spil.

Sem betur fer er umræðan um Evrópusambandið nánast horfin nema það er einstaka þingmaður sem sér þar lausnir á öllu, hvort heldur það eru vandamál með barnaverndarmál eða fangelsismál eða hvað það nú er, þá er alltaf lausnin að ganga í Evrópusambandið. Ég ætla að vona að það fari að minnka eitthvað, sérstaklega þegar næsta ríkisstjórn kemur sem verður vinstri ríkisstjórn þar sem flokkarnir geta ekki komið sér saman um Evrópusambandið. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. Atli Gíslason samþykki að ganga í Evrópusambandið og þá verður það náttúrlega ekki gert. Menn munu svo gleyma þessu eins og öðru. Menn eru fljótir að skipta um kúrs þegar þeir komast í ráðherrastólana. Það sáum við best þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð þar sem vinstri grænir tóku þvílíkar U-beygjur í öllum málum að þeir fengu svima, þeir snerust svo hratt í hina áttina. Bæði hvað varðar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem var óalandi og óferjandi og svo var hann allt í einu orðinn vinur þeirra, besti vinur meira að segja. Og það er hægt að nefna Icesave-reikningana sem voru eitthvað ægilega vont þangað til að þeir urðu ráðherrar. Þá var bara hægt að spjalla við menn um þetta o.s.frv. Við upplifum margar U-beygjur í þessum málum öllum.

Ég ætlaði rétt aðeins, herra forseti, að fara í gegnum umsagnir vegna þess að það er dálítið athyglisvert. Menn binda greinilega miklar væntingar við stjórnarskrána. Því miður er það svo að í mjög mörgum umsögnum er kvartað undan miklum hraða. Hér er t.d. ein frá Ágústi Þór Árnasyni, Háskólanum á Akureyri, og hann segir svo, með leyfi forseta:

„Kæri viðtakandi. Óskað var umsagnar Háskólans á Akureyri um frumvarp til stjórnskipunarlaga, þskj. 648, 385. mál, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Einnig var óskað eftir frekari athugasemdum sendanda eftir fund með stjórnarskrárnefnd Alþingis þriðjudaginn 17. mars. Því miður gildir hið sama í báðum tilfellum að tími til umsagnar um svo viðamikið mál er of skammur til að forsvaranlegt sé að senda skriflega umsögn um málið. Þó ber að fagna þeirri viðleitni flutningsmanna að auka aðkomu þjóðarinnar að mikilvægum ákvörðunum svo sem stjórnarskrárbreytingum.“

Hér er sagt beinum orðum að það sé verið að flana að einhverju með þessari breytingu. Það sé hreinlega ekki hægt á þessum stutta tíma að gefa umsögn.

Svo er dálítið athyglisvert hérna þar sem menn tala um að þjóðin komi að hlutum og hvernig kosið verði á þetta stjórnlagaþing. Það er frá Samtökum um lýðræði og almannahag, frá Þór Saari, og er skrifað 19. mars 2009. Þar stendur:

„Samtök um lýðræði og almannahag telja að mest allt frumvarpið sé ólýðræðislegt og þarfnist gagngerrar endurskoðunar við.“ — Og til vara leggja þeir til að 2. gr. falli út o.s.frv.

Hugmyndir þeirra eru þessar, með leyfi forseta:

„Valið verði á stjórnlagaþing úr röðum almennings samkvæmt hefðbundnu 600 manna úrtaki frá Gallup“ — þetta yrði bara eins og skoðanakönnun — „og einnig verði valdir eins margir til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis.“ — Það væri gaman að vita hver ætti að tékka það af. Þurfa menn að kunna að lesa eða hvað, kunna ensku? Ég veit það ekki. — „Stjórnlagaþingseta verði fullt starf.“ — Svo segja þeir: „Stjórnlagaþingið skal skipulagt og verkinu stýrt af fimm manna sérfræðingahópi með sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum. Æskilegt er að a.m.k. tveir af hópnum séu erlendir sérfræðingar.“

Það er þetta dekur við útlendinga sem er mjög vaxandi núna. Það eru allir góðir sem koma frá útlöndum hvort sem það eru seðlabankastjórar eða saksóknarar, bara ef þeir eru útlenskir þá er það gott. (Gripið fram í.) Enda má kannski segja að þeir séu þá lausir við alls konar tengsl innan lands og það er kannski ágætt. Hér er talað um sérfræðingahóp en það gleymist að tala um heimspeki. Ég mundi segja að þessi sérfræðingahópur ætti eiginlega að vera heimspekingar. Það er mín skoðun. En þau vilja að þeir hafi sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum. Þau leggja áherslu á mannréttindamálin sem frumvarpið sjálft gerir ekki ráð fyrir.

Herra forseti. Því miður er tíminn að hlaupa frá mér og ég er ekki nándar nærri búinn með ræðuna mína þannig að ég verð sennilega að melda mig aftur á mælendaskrá. Nú eru ekki nema 16 sekúndur eftir og ég var því miður ekki einu sinni búinn að lesa umsagnirnar.