136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Á síðu 35 í frumvarpinu er 12. gr. 11. gr. draga að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing. Og ég spurði einmitt hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að því hvort næsta þing verði bundið af þessu og hann taldi svo ekki vera. En þarna er dálítið merkilegt ákvæði um að menn eigi að merkja við sjö frambjóðendur hver.

Við skulum gefa okkur að einhver stór flokkur á Íslandi sé með landsfund. Þar fær hann menn til að kjósa segjum 30 manns, hann fær menn til að styðja 30 manns. Svo eru gefnar út „ordrur“ til allra í flokknum, þessum risastóra flokki, um að þeir eigi að kjósa þessa 30 menn á stjórnlagaþing. Og af því hinn hópurinn er svo dreifður, einn vill fara og annar vill fara o.s.frv. og það er erfitt að fá meðmælendur o.s.frv. þá bara gerist það að þessi ákveðni flokkur nær þessum 30 mönnum inn á þing og er kominn með tvo þriðju. Ég er hræddur um að þá fari dálítið um suma sem sáu þetta einhvern veginn allt öðruvísi fyrir sér. Það er hætt við því að margir muni verða dálítið skelkaðir þegar þeir sjá þetta, að einn flokkur sé farinn að ákveða stjórnarskrána. Það er þetta sem ég er að vara við. Ég er að vara við þessu.

Menn geta líka gert þetta með einhverjum öðrum hætti, með peningum og auglýsingum o.s.frv. Við þekkjum þetta allt saman. Það að einhver hópur manna hafi svona absalút heimild til þess að breyta stjórnarskránni er dálítið hættulegt. Ég er að benda á þetta, herra forseti, til að vara menn við.