136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO.

[11:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Þessi umræða hefur snúist að mestu leyti um allt annað en lagt var upp með í upphafi, eins og hér hefur komið fram. Það er greinilegt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins nota hvert tækifæri sem þeir mögulega geta til að fara í umræðu um stjórnarskrármálið mikla sem þeir eru mjög andvígir og nota jafnvel það yfirskin að ætla að ræða um Atlantshafsbandalagið og leiðtogafund þess. Hér hefur þó lítil umræða farið fram um það mál. Þingmaðurinn verður bara að hafa sig hægan og ég svara því sem ég vil svara þegar ég vil svara því. [Háreysti í þingsal.] Þingmaðurinn (Gripið fram í: Vá.) verður bara að una því. [Háreysti í þingsal.]

Gæti forseti gripið inn í og haft hemil á fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra?

(Forseti (GuðbH): Mér sýnist hv. þingmenn hafa gefið ágætt hljóð.)

Varðandi þær spurningar sem þingmaðurinn bar fram, m.a. um fund utanríkisráðherra með utanríkisráðherra Bretlands nú í vikunni, David Miliband, hafa verið gerðar ráðstafanir til að við fáum upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu um þann sérstaka fund. Ég vonast til þess að við fáum þær upplýsingar áður en mjög langt um líður inn á vettvang utanríkismálanefndar.

Nú er hins vegar rétt að greina frá því, eins og hv. þingmenn vita, að aðeins þrjár vikur eru eftir af þessu kjörtímabili og væntanlega lýkur þingstörfum á næstu sólarhringum. (Gripið fram í: Upplýsingagjöfin …) Ég veit ekki nákvæmlega hvenær hægt verður að koma við fundi í utanríkismálanefnd til að taka það mál sérstaklega. Það er boðaður fundur (Gripið fram í.) á mánudaginn til að ræða tiltekin mál sem þar eru á dagskrá sem eru mikilvæg. Í hádegishléi á mánudaginn verður fundur (Gripið fram í: … í hádegishléi í dag.) þannig að það verður rætt.

Varðandi NATO-fundina (Gripið fram í: … þingmennsku.) er ég sammála því sem fram kom hjá hv. þingmanni, það er full ástæða til að koma þeirri föstu vinnureglu á í samskiptum utanríkisráðuneytisins og utanríkismálanefndar að farið sé yfir áherslur (Forseti hringir.) Íslands fyrir slíka fundi (Forseti hringir.) Reyndar á það ekki bara við um NATO-fundi, það á við um ýmsa aðra fundi, svo sem á vettvangi (Forseti hringir.) samstarfsins við Evrópusambandið.