136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO – atvinnumál námsmanna.

[11:22]
Horfa

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að taka þetta mikilvæga mál hér upp. Þannig var að á mánudaginn ritaði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mér bréf og óskaði eftir fundi í menntamálanefnd um þetta mál. Að sjálfsögðu var brugðist við því og fundurinn var haldinn á miðvikudaginn. Á fundinn komu fulltrúar allra háskóla landsins, bæði stjórnendur og nemendur, og einnig fulltrúi ráðuneytisins. Farið var yfir málið og við fengum glögga mynd af því alvarlega ástandi sem augljóslega er uppi hjá námsmönnum og stefnir í í sumar.

Hins vegar kom fram að ýmsir skólar virðast ekki, nema með töluverðri fyrirhöfn, vera í stakk búnir til að mæta þessu en þó virtist koma fram fullur vilji hjá öllum skólum til að taka á málinu. Við heyrðum síðast niðurstöðu háskólaráðs Háskóla Íslands í gær þar sem niðurstaðan var sú að hann gæti brugðist við þessu væri aukið fjármagn veitt til skólans.

Það kom fram að tveir háskólar, bæði á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík, hafa ákveðið að bjóða upp á sumarnám og þótt það sé ekki í miklum mæli er þar vissulega um verulega viðleitni að ræða.

Það kom einnig fram að við Háskólann á Akureyri verða haustpróf þannig að þar eiga nemendur að hafa möguleika á því að ganga til prófa. Spurningin er hins vegar hvaða aðstoð þeir fá við námið í sumar. Það var einnig rætt um að þar þyrfti að koma til aukið fjármagn.

Það er hins vegar rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin hefur skipað starfshópa, m.a. er einn starfshópur á vegum iðnaðarráðuneytisins að fjalla um þessi mál. Miðað við mínar upplýsingar er búist við að sá stýrihópur skili tillögum sínum á næstu dögum.

Menntamálanefnd ákvað í lok fundar á miðvikudag að óska eftir minnisblaði frá menntamálaráðuneytinu um stöðu mála og hvaða möguleikar væru fyrir hendi. Í gær barst svar frá ráðuneytinu þar sem fram kemur að því miður verði minnisblaðið ekki tilbúið í dag, eins og við höfðum óskað eftir, en þess er vænst að það verði tilbúið mjög fljótlega eftir helgi og þá geri ég ráð fyrir því að nefndin (Forseti hringir.) taki málið upp að nýju.