136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO – atvinnumál námsmanna.

[11:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að taka upp þetta mál um stöðu í atvinnumálum ungs fólks. Ég legg áherslu á að þarna þarf að taka á með fjölþættum hætti. Mér er kunnugt um að ríkisstjórnin er þegar að fjalla um þetta mál og gert er ráð fyrir tillögum frá henni um beinar aðgerðir eftir helgina. Það þarf að taka á þessu, eins og þingmaðurinn minntist á, m.a. með því að kanna leiðir með sumarnám fyrir skólafólk. Það þarf t.d. að skoða þar aðkomu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Allt þarf þetta að vinnast. Það þarf líka að kanna leiðir til þess að það verði atvinna og atvinnusköpun fyrir unga fólkið. Þar held ég að eigi að leita eftir mjög nánu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra þeirra sem geta lagt fram krafta sína í þessum efnum þannig að þar finnist góð sumarstörf.

Ég minni á átak sem hefur verið lýst yfir að eigi að gera í landgræðslu og skógrækt. Þetta verður ekki gert með einhverjum einum stórum pakka, heldur með fjölþættum aðgerðum um allt land. Ég óska eftir mjög góðu samstarfi allra sem koma að þessu, hvort sem er af hálfu ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka eða annarra, í að finna leið. Ég minni á sumarnámskeið og líka á marga heimavistarskóla úti um land. Það þarf að taka þetta allt saman.

Það er ekkert verra en að ungt fólk gangi um án atvinnu og þá án (Forseti hringir.) skilgreindra verkefna. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin er að vinna að þessu en ég hvet til mjög náins samstarfs allra aðila (Forseti hringir.) í þessu máli, herra forseti. (SKK: … á þá að gera?) [Háreysti í þingsal.]