136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það sem mér hefur fundist koma skýrt fram í þessari umræðu er það, sem ég vil trúa að allir þingmenn hafi áhyggjur af, atvinnumál og menn hafa sérstaklega tilgreint atvinnumál námsmanna. Væri þá nokkuð úr vegi að við forgangsröðuðum dagskrá þingsins með það í huga að taka á þeim málum? Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson fór ágætlega yfir málið. Eigum við ekki að ganga í það verk núna að taka á þessum málum?

Er sú hugmynd sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ræddi hér um sumarönn í Háskóla Íslands ekki eitthvað sem við eigum að ræða núna og setja í forgang? Er það ekki skynsamlegt? Í stað þess — og þar er ég alveg sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni þegar hann talaði um stjórnarskrármálin og sagði hér á hv. Alþingi, með leyfi forseta:

„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga … Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“

Þetta er hárrétt hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. (Forseti hringir.) Setjum hlutina í rétta forgangsröð, (Forseti hringir.) tökum á atvinnumálunum (Forseti hringir.) og sérstaklega atvinnumálum námsmanna.