136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vildi beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, og það má líta á það sem vinsamlega ábendingu, að það gæti orðið til að greiða mjög fyrir störfum þingsins ef hann settist niður með þingflokksformönnum og reyndi að fara yfir það með hvaða hætti væri eðlilegt og heppilegast og skilvirkast að taka á málum hér í þinginu. Ég held að mikill ávinningur yrði af því.

Hér erum við með tvennt í stöðunni. Annars vegar erum við með stjórnarskrármál, sem alltaf kalla á mikla umræðu, sem er eðlilegt af því að stjórnarskrá er grundvallarlög lýðveldisins. Hins vegar erum við með nokkur mikilvæg atvinnu- og efnahagsmál sem allir eru sammála um að þurfi að afgreiða. Hvort er nú skynsamlegra að taka stóra málið sem tekur langan tíma fyrst eða mikilvægu málin, brýnu málin sem við getum afgreitt hratt? (Gripið fram í.)